Hátíðargestur Hugvísindaþings í ár verður Carolyne Larrington, prófessor við Oxford-háskóla og sérfræðingur í norrænum og evrópskum miðaldabókmenntum sem og nútíma aðlögunum á miðaldaefni. Carolyne hefur skrifað og ritstýrt fjölda bóka um miðaldabókmenntir, þjóðfræði og goðafræði og hún hefur meðal annars staðið fyrir endurskoðun á hlut kvenna í bókmenntum miðalda og feminískum lestri á goðafræði. Rannsóknir hennar og kennsla á sviði norrænna fræða hefur haft mikið að segja hvað varðar stöðu fræðanna og eflingu áhuga á norrænum miðaldabókmenntum utan landsteinanna en hún hlaut Riddarakrossinn frá Forseta Íslands árið 2018 fyrir framlag sitt á sviði íslenskra miðaldabókmennta. Hún hefur einnig fengist við rannsóknir á sviði tilfinningafræða en árið 2016 var hún heiðursgestur við Stofnun tilfinningafræða við Háskólann í Vestur-Ástralíu en hún er um þessar mundir að vinna að bók um tilfinningar.

Nýlega hefur hún líka fengist við rannsóknir á Krúnuleikunum (Game of Thrones). Árið 2015 gaf hún út bókina Vetur í vændum: miðaldaheimur Krúnuleikanna (Winter is Coming. The Medieval World of Game of Thrones) og í ár er væntanleg ný bók eftir hana um Krúnuleikana. Hún hefur tekið þátt í útvarpsþáttum BBC Radio um norræna goðafræði og bókmenntir, um leitina að Gralnum og Arthúrssögnina sem og haldið fjölda opinberra fyrirlestra um Krúnuleikana. Bækur Carolyne hafa verið þýddar á fjölda tungumála.

Carolyne heldur hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings og nefnir erindi sitt:

HVERS VEGNA KRÚNULEIKARNIR SKIPTA MÁLI: FRÁSAGNIR Í ALÞJÓÐLEGU SAMHENGI

Á síðastliðnum áratug hafa Krúnuleikarnir hjá sjónvarpsstöðinni HBO orðið að stærstu sjónvarpsþáttum sögunnar, með fylgjendur/áhorfendur hvaðanæva að í heiminum. Milljónir fylgdust með því hvernig sagan þróaðist, hugmyndafræði hennar hafði áhrif á samtímastjórnmál og þættirnir höfðu veruleg efnahagsleg áhrif á ákveðnar borgir í Evrópu. Viðfangsefni þessa fyrirlesturs er einmitt á hvern hátt Krúnuleikarnir skipta máli og hvað þessi meira en sjötíu klukkutíma epíska frásögn getur sagt okkur um sögurnar sem við segjum sjálfum okkur í dag. Fyrirlesturinn krefst ekki fyrirfram þekkingar áheyrenda.

WHY ‘GAME OF THRONES’ MATTERS: STORYTELLING IN A GLOBALISED CONTEXT

During the last decade HBO’s fantasy epic Game of Thrones grew to become the biggest TV show in history, watched across the entire planet. Its storylines were followed by millions, its tropes infiltrated contemporary politics, and it had a radical impact on the economies of several European cities. Why Game of Thrones matters, and what its more than seventy hours of epic narrative can tell us about the stories we tell ourselves now, will be the subject of this lecture. No previous knowledge of the show will be necessary.