Áföll, þjáningar og Jobsbók í kvikmyndum

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Í málstofunni verður fjallað um stef þjáningarinnar í kvikmyndum, ekki síst þjáningu hins réttláta manns og spurninguna um endurgjaldsguðfræði. Þar kemur stefið úr Jobsbók við sögu. Einnig verður fjallað um viðbrögð við ástvinamissi. Þau sem að málstofunni standa hafa í meira en hálfan annan áratug verið félagsskapnum/ rannsóknarhópnum „Deus ex cinema“ sem fjallað hefur á vikulegum fundum um trúarleg stef í meira en þúsund kvikmyndum og haldið fjöldmörg erindi og málþing um efnið sem og birt fræðilegar greinar, bókakafla og bækur.

2017

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Gunnlaugur A. Jónsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Pólski kvikmyndaleikstjórinn, Krzysztof Kieslowski, hefur fjallað um áföll og þjáningu í ýmsum af kvikmyndum sínum. Í erindinu verður sjónum beint að því hvernig einstaklingar bregðast við áföllum og sorg í þremur af myndum hans. Um er að ræða myndinrar No End (Bez konca) frá 1985, fyrstu myndina í sjónvarpsseríunni Boðorðin tíu (Dekalog, jeden) frá 1989, og fyrstu myndina í þríleiknum Þrír litir, þ.e. Þrír litir blár (Trois couleurs: Bleu) frá 1993. Í myndunum segir frá ólíkum viðbrögðum við ástvinamissi og verða þau skoðuð og borin saman í erindinu.
Í þessu erindi verður fjallað um þrjár ólíkar kvikmyndir frá þremur löndum sem eiga það sameiginlegt að Jobsstef Gamla testamentisins kemur þar við sögu, þ.e. þjáning hins réttláta manns og viðbrögð hans við þjáningunni og Guði. Myndirnar eru ungverska myndin Uppreisn Jobs (Jób lázadása, 1983), bandaríska myndin Commandments (1997), og danska myndin Adams æbler (2005).
Coenbræður halda uppi merkjum óháðrar kvikmyndagerðar í Bandaríkjunum, en kvikmyndir þeirra eru sterk höfundarverk þar sem spurningum um tilvist mannsins er oftlega varpað fram. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir því hvernig Coenbræður vinna með þessi temu, sér í lagi í tengslum við söguna af Job og hvernig persónur í verkum þeirra lenda í aðstæðum sem knýr þær til að horfast í augu við þann heim sem þær lifa í og hvernig sá veruleiki endurspeglar tilvistarlegar spurningar. Fjallað verður um A Serious Man (2009 ), Inside Llewen Davies (2010) og No Country for Old Men (2007), þar sem kannað verður hvernig Coenbræður vinna með þessar hugleiðingar til að varpa ljósi á baráttu persónanna.

Deila færslunni