Almenningur og lýðræðisleg umræða

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Þátttaka almennings í lýðræðislegu starfi og opinber skoðanaskipti um samfélagsmál í fjölmiðlum eru meðal mikilvægustu þátta í virku og öflugu lýðræði. Í málstofunni verður samspil almennings og fjölmiðla á sviði lýðræðis skoða á tveimur tímaskeiðum og út frá ólíkum sjónarhornum.

Fundarstjóri: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

2017

Hvar
Stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 16.00-17.00

Málstofustjóri:
Hrafnkell Lárusson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 16.00-17.00

Fjölmiðlarnir eru mikilvægir fyrir lýðræðið. Íslenskir fjölmiðlar gegndu hlutverkum sínum illa í aðdraganda bankahrunsins hausið 2008. Siðfræðihópur rannsóknarnefndar alþingis komst að þeirri niðurstöðu vorið 2010 að fjölmiðlarnir hefðu ekki upplýst almenning um stöðu mála sem skyldi, þeir hefðu sinnt eftirlitshlutverki sínu illa en hefðu hins vegar átt stóran þátt í að móta og viðhalda almennri umræðu um góðan árangur íslenska fjármálamarkaðararins í alþjóðlegum fjármálaheimi. Fjölmiðlarnir styrktu því ekki lýðræðið í landinu. Hefur þetta breyst með þeim breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlaumhverfinu?

Í erindinu verður fjallað um lýðræðisleg hlutverk fjölmiðla og hvaða máli það skiptir að þeir sinni þeim hlutverkum með trúverðugum hætti. Varpað verður ljósi á stöðu fjölmiðlanna nú og leitast við að svara því hvort þeir starfi í samræmi við hugmyndir um lýðræðisleg hlutverk þeirra.

Árið 1874 var félagafrelsi lögleitt á Ísland með nýrri stjórnarskrá. Í kjölfar þess fjölgaði frjálsum félögum á landinu umtalsvert og starfsemi þeirra efldist. Þátttaka í starfi félaga varð almennari ekki síst meðal fólks sem lítið hafði haft sig í frammi áður og hafði upp til hópa takmörkuð lýðræðisleg réttindi, þ.á m. hvorki kosningarétt né kjörgengi, en innan við 10% landsmanna (eingöngu karlar) höfðu að jafnaði kosningarétt til Alþingis á tímabilinu frá 1874–1903. Á sama tímabili jókst útgáfa blaða og tímarita til mikilla muna. Samhliða því taka fulltrúar almennings að verða meira áberandi í skoðanaskiptum á þeim vettvangi.

Í erindinu verður fjallað um þátttöku almennings í opinberri umræðu um samfélagsmál á síðasta fjórðungi 19. aldar. Leitast verður við að skýra orsakir þess að þátttaka almennings fór vaxandi og hvaða áhrif það hafði á umræðu í fjölmiðlum þessa tíma.

Deila færslunni