Birtingarmyndir borgarsamfélagsins í bókmenntum

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Í málstofunni verður sjónum beint að því hvernig borgarsamfélögum eru gerð skil í bókmenntum síðari tíma.  Hefur skipulag borga áhrif á vellíðan og velferð? Hvernig birtist sú umfjöllun í smá- og skáldsögum? Býr fólk – allt fólk – við öryggi og velsæld innan borgarmarkanna? Ef ekki, hverjir verða út undan og hvers vegna? Eru ógnir og óvissa ráðandi, fyrir hverja og með hvaða hætti? Hvernig vinna rithöfundar með goðsögur og staðalmyndir borga?

2017

Hvar
Stofu 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Hólmfríður Garðarsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.30

Árið 2013 kom út skáldsagan Meursault, contre-enquête eftir alsírska rithöfundinn og blaðamanninn Kamel Daoud. Sögu hans má lesa sem eins konar framhald eða svar við skáldsögunni L’étranger (Útlendingurinn) eftir Albert Camus og þeirri gagnrýni sem Camus hefur sætt fyrir þá mynd sem hann dregur upp af aröbum í skrifum sínum. Sögumaður Daouds, Haroun, er bróðir arabans sem Meursault myrðir í L’étranger.

Í skáldsögunni Meursault, contre-enquête sækir Daoud innblástur í fleiri verk Camus en L’étranger. Frásagnartæknina fær hann að láni úr skáldsögunni La chute (Fallið) þar sem sögumaður situr á bar í Amsterdam og talar við ónafngreindan áheyranda, lesanda, eða sjálfan sig. Hér verður fjallað um andstæður og spegilmyndir borgarinnar eins og þær birtast í frásögn sögumanns Daouds.

Leikritið Svikin borg eða uppvakning örlaganornanna hefst með örvæntingarópi aðalpersónunnar, móðurinnar, sem hollvættirnar heyra og mæta þess vegna til leiks. Hróp hennar minnir á tregasöngva kvenna í Grikklandi hinu forna, en í þeim koma fram sterk tengsl milli sorgarinnar og stöðu kvenna. Fræðikonan Nicole Loraux hefur í skrifum sínum bent á að gríska borgríkið hafi verið mjög upptekið af því að verjast hamsleysi kvenna en tár þeirra og tilfinningar voru talin ógna pólitísku jafnvægi og öryggi borgaranna. Að hafa vakandi auga með sorginni þýddi því að hafa hemil á konum. Móðirin er miðlæg í skrifum Loraux um stöðu kvenna innan gríska borgríkisins en hún segir konur aldrei hafa verið jafn útilokaðar frá borgríkinu og þegar þær voru mæður. Í fyrirlestrinum verður leikritið Svikin borg eða uppvakning Örlaganornanna eftir Hélène Cixous greint í ljósi kenninga Nicole Loraux en í leikritinu er móðirin er ekki aðeins tákn fyrir útópíska leit að réttlæti heldur einnig andspyrnu gegn borgríki eða ríkisvaldi sem ber ábyrgð á ranglæti.
Alexander Púshkín og Níkolaj Gogol skópu á fyrri hluta 19. aldar „goðsögnina um Pétursborg“ með svo áhrifamiklum hætti að allar götu síðan hafa rússneskir rithöfundar tekið virkan og mevitaðan þátt í mótun þessarar goðsagnar. Glæsileg sköpun Péturs I. við Nevubakka, bjartir salir, graníthallir, sigur yfir náttúruöflunum, óvininum og fortíðinni á sér sínar skuggahliðar; flóð, kulda, kjallara og koldimma afkima. Þegar þessar miklu andstæður koma saman verður til tvíbentur heimur þar sem ekki er allt sem sýnist og flest er óvíst.

Í erindinu verður fjallað um sögu Púshkíns, „Stöðvarstjórann“ frá 1830, og þá mynd sem þar birtist af Pétursborg. Er hún bjargvættur eða bölvaldur ungrar konu? Er allt sem sýnist? Í þessu samhengi verður einnig litið til örlaga nokkurra annarra kvenpersóna í Pétursborg 19. aldar.

11. mars kl. 15.00-16.30

Winnipeg hefur iðulega verið nefnd „vesturgáttin“ – Gateway to the West – eða allt frá því að innflutningur evrópskra innflytjenda hófst þangað að nokkru marki í kjölfar inngöngu Manitoba í kanadísku sambandsstjórnina árið 1870. Ekki síst varð viðurnefnið til eftir að járnbrautarsmíði hófst yfir þvert Kanada til að efna loforð um tengingu á milli fylkja á austur- og vesturströndinni, en slíka samgöngubót gerði Breska Kólumbía á Kyrrahafsströndinni að skilyrði fyrir inngöngu sinni í sambandsstjórnina árið 1871. Jafnframt var brautin forsenda þess gífurlega innflutnings á fólki í vesturfylki Kanada sem varð við átak Kanadastjórnar á að kynna landið og landkostina sem síðasta og besta Vestrið, eða „the Last Best West.“
Táknrænt mikilvægi Nýja Íslands meðal þjóðardreifarinnar þarf ekki að efa, en meðal Íslendinga virðist Winnipeg falla í skugga smábæjarins Gimli í Nýja Íslandi. Hlutverk Winnipeg í afdrifum Íslendinga vestanhafs var þó engu minni því þar kynntust stór hluti Vesturfara nútímalegu vestrænu borgarlífi, svo borgin varð staður ummyndana. Í þessu erindi mun ég leita svara við því hvort, og þá hvernig, Winnipeg birtist táknrænt og eiginlega sem „gáttin í Vestrið“ í skáldverkum Kanadamanna sem eru af íslenskum uppruna.
Um landamæraborgina Tijuana hefur oft heyrst: „Þetta er ekki Mexíkó“. Bæði innlendir og erlendir hafa sagt Tijuana ekki vera alvöru borg, ekki alvöru Mexíkó. Hin svokallaða „myrka goðsögn“ hefur grúft yfir borginni allt frá byrjun síðustu aldar. Samkvæmt henni snýst allt líf borgarinnar um að sinna skemmtanaþörfum ferðamanna sem koma frá Bandaríkjunum, skemmtunum sem í flestum tilvikum hafa á sér neikvæða mynd. Í erindinu verður sjónum beint að þessari staðalmynd borgarinnar og rýnt í hvers konar meðferð hún hefur fengið í bókmenntaverkum heimamanna, þar á meðal Humberto Luis Crosthwaite, Rafa Saavedra, Rosina Conde og Heriberto Yépez.
Í skáldsögu Roberto Bolaño Verndargripur (Amuleto, 1999) sem út kom í íslenskri þýðingu Ófeigs Sigurðssonar á síðasta ári er dregin upp mynd af Mexíkóborg á sjöunda áratug síðustu aldar. Ríkjandi staðalmyndir um stórborgir Rómönsku Ameríku sem net skipulagðra og vel hannaðra breiðstræta annars vegar og flækjuverk sjálfsprottinna íbúakjarna hins vegar endurspeglar óreiðu sem við upphaf 21. aldar hefur verið kallað „urbanías“ (eða „mega-city“ á ensku) því hugtakið borg, jafnvel stórborg, á ekki lengur við. Skilgreining hugtaksins felur þó ekki eingöngu í sér skírskotun til skipulags heldur miklu fremur til mannlífsins sem í völundarhúsinu þrífst, til samfélagshátta og sambýlis hinna fjölmörgu og ólíku samfélagshópa og stétta. Í fyrirlestrinum verður brugðið upp myndum úr nokkrum nýútkomnum skáldsögum eftir Diamelu Eltit (Síle), Laura Restrepo (Kólombía), Susana Silvestre og Cristina Feijoó (Argentína) og fleiri.

Deila færslunni