Birtingarmyndir kristni í íslenskum miðaldabókmenntum

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Í þessari málstofu verður fjallað um birtingarmyndir kristni og kristinnar hugmyndafræði í íslenskum miðaldabókmenntum. Löngum hefur kristni og kristinn menningar- og hugmyndaheimur haft mikil áhrif á íslenska menningu og má sjá þess skýr merki í íslenskum bókmenntum frá ýmsum öldum. Fyrirlestrarnir eiga það sameiginlegt að í þeim verður bent á merki um áhrif kristni og kristins hugmynda- og menningarheims á bókmenntir miðalda. Fyrirlesarar munu nálgast efnið úr þremur ólíkum áttum — textafræði, hugmyndafræði og bókmenntasögulegu samhengi — sem og út frá ólíkum bókmenntategundum, til að mynda Íslendingasögum, frumsömdum riddarasögum og trúarlegum textum. Þannig verður varpað upp svipmyndum af breiðu sviði íslenskra miðaldabókmennta sem mun veita góða innsýn í hugmyndaheim og menntir miðalda.

Fundarstjóri verður Gunnhildur Jónatansdóttir.

2017

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Védís Ragnheiðardóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að Jóni Halldórssyni Skálholtsbiskup og Klári sögu. Flest af því sem vitað er um líf Jóns kemur úr söguþætti um líf hans, en þar kemur meðal annars fram að Jón gekk ungur í dóminíkanaklaustur í Björgvin, stundaði síðar nám í París og Bologna og var skipaður Skálholtsbiskup árið 1322. Ýmsar heimildir greina frá því að Jón sagði gjarnan sögur, svokallaðar exempla (dæmisögur eða miðaldaævintýri). Að segja slíkar sögur, mönnum til menntunar og skemmtunar, var mjög í anda dóminíkana. Markmið dóminíkanareglunnar var að breiða út kristna trú í anda postulanna og til þess að ná því markmiði ferðuðust reglubræður um og sögðu dæmisögur, bæði af andlegum og veraldlegum toga, á móðurmálunum. Þessar sögur eru víða varðveittar í exempla-söfnum, gjarnan á latínu, en þó nokkuð af sögum er varðveitt á norrænu, bæði í exempla-handritum, svo sem AM 657 a–b 4to, og inni í stærri frásögnum, svo sem Maríu sögu. Í AM 657 a–b 4to má finna Klári sögu, sem almennt hefur verið talin til riddarasagna, ýmist þýddra eða frumsaminna. Í formála sögunnar segir að Jón hafi fundið hana í París, skrifaða í bundnu máli upp á latínu, og sagt hana Íslendingum. Í fyrirlestrinum mun ég fjalla um Jón Halldórsson, Klári sögu, formála hennar og mögulegar evrópskar fyrirmyndir og hliðstæður sögunnar með það að markmiði að varpa ljósi á hvernig kristnar dæmisögur, exempla, og biskupinn sem hafði gaman af að segja þær, höfðu áhrif á þróun og tilkomu hinnar veraldlegu bókmenntagreinar frumsamdar riddarasögur.
Kristin trú og hugmyndafræði byggja mjög á hugmyndum um hinn væntanlega dómsdag, þegar Kristur snýr aftur til að dæma lifendur og dauða. Á evrópskum miðöldum höfðu hugmyndir um yfirvofandi dómsdag, sem enginn vissi hvenær yrði, áhrif bæði á hugmyndaheim og gjörðir manna og dómsdagur varð algengt þema í myndlist og bókmenntum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um dómsdagshugmyndir á miðöldum, þróun þeirra og hvernig þær birtast í elstu trúarlegu textunum sem varðveist hafa á íslensku.
Bent hefur verið á að meira fari fyrir áhrifum frá kristilegum bókmenntum í Njáls sögu en í öðrum Íslendingasögum. Í tveimur handritum sögunnar virðist sem gerðar hafi verið breytingar á textanum sem gera veg hins kristilega enn meira áberandi. Svanhildur Óskarsdóttir og Ludger Zeevaert hafa bent á að í deltabrotinu svokallaða (AM 162 B fol. δ) sé orðalagið stundum fært nær kristinni orðræðu. Hliðstæðar breytingar má finna í öðru Njáluhandriti, Sveinsbók (GKS 2869 4to), en hvorugt þessara handrita er heilt og varðveita þau ekki sömu hluta sögunnar, sem gerir beinan samanburð þeirra á milli ómögulegan. Í fyrirlestrinum mun ég velta upp þeim möguleika að náið samband sé milli þessara tveggja handrita, jafnframt því að skoða kristilegu orðalagsbreytingarnar nánar og bera þær saman við svipað orðalag í öðrum miðaldabókmenntum.

Deila færslunni