Ekki er allt sem sýnist – Dulin viðhorf til breytileika í íslensku máli

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi viðhorf, einnig til máls og breytileika í máli, enda mótast þau meðal annars af bakgrunni, reynslu og umhverfi. Þegar spurt er um viðhorf til máls einkennast svörin oft af huglægu mati og bera merki um viðmið sem eru viðurkennd í samfélaginu. Slík viðhorf má kalla meðvituð, þau endurspegla jafnvel það sem fólki finnst að því „eigi“ að finnast. Hins vegar er ekki víst að meðvituð og ómeðvituð viðhorf fari saman – og þau sem leynast undir yfirborðinu geta haft áhrif á málnotkun fólks, viðbrögð við málnotkun annarra og þróun tungumálsins.

Í þessari málstofu verða kynntar niðurstöður þriggja rannsókna sem hafa að markmiði að afhjúpa ómeðvituð, þ.e. dulin, viðhorf til breytileika í íslensku. Um er að ræða viðhorf til harðmælis/linmælis, málhreims í innflytjendamáli og „netlensku“, þ.e. óformlegs málfars í netsamskiptum.

Kristján Árnason prófessor kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

2017

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Stefanie Bade


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.30

Í þessu erindi verður rætt um dulin eða ómeðvituð viðhorf Íslendinga til óformlegrar ritaðrar íslensku í netsamskiptum. Mál í netsamskiptum fylgir ekki viðmiðum um svokallað vandað mál. Samskiptamiðlar eins og Facebook bjóða upp á tjáningu með formum sem eiga heima í óformlegu talmáli (t.d. ensk tökuorð eða „slettur”) og frávik frá réttri stafsetningu (t.d. með því að sleppa broddum yfir stafi). Markmið rannsóknarverkefnisins sem lýst er í þessu erindi er að kanna dulin viðhorf almennings til slíkrar málnotkunar. Rannsóknin byggir á tveimur rituðum textum og spurningalista en þátttakendur voru beðnir að meta persónueinkenni höfunda textanna með vali á lýsingarorðum á Likert-kvarða. Þannig var kannað hversu viðurkennd óformleg netmálnotkun er, hvort hún sé einungis viðurkennd við réttar aðstæður, og hvort hún hafi áhrif á dóma um ritarann, sem endurspegla dulin jákvæð/neikvæð viðhorf til óformlegs málfars á netinu.
Það orð hefur lengi farið af norðlensku að hún sé fallegri en mál annarra landsmanna og jafnvel betri. Síðustu ár hafa verið gerðar nokkrar athuganir til að grennslast nánar fyrir um þetta viðhorf. Til að mynda hefur verið leitað svara við spurningunum: Hversu útbreidd er þessi hrifning og þykja einkenni norðlensku öll jafnfalleg?

Þessar athuganir hafa flestar beinst að meðvituðum viðhorfum. Þátttakendur hafa verið spurðir um skoðanir sínar og mátt vera ljóst hvert athugunarefnið væri. Síðasti áfanginn sneri að ómeðvituðum viðhorfum. Þar var öðrum aðferðum beitt til að kanna hvort harðmæli heillaði þátttakendur frekar en linmæli, líkt og svör þeirra við beinskeyttum spurningum benda til.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá þessum rannsóknum og þá sérstaklega þeirri síðustu.

Hvaða hreimur þykir mest traustvekjandi og af hverju finnst Íslendingum Þjóðverjar duglegri en landar sínir?

1000 Íslendingar voru beðnir um að hlusta og leggja mat á upptökur af texta sem lesinn var af innfæddum Íslendingum og fólki með erlendan hreim. Þátttakendurnir voru meðal annars fengnir til að meta tal fólks með tilliti til persónueinkenna, t.d. hversu aðlaðandi eða greint það væri. Erlendar rannsóknir benda til þess að meðvituð viðbrögð við að heyra talað mál með hreim geti verið frábrugðin þeim ómeðvituðu og því var uppruna og móðurmáli talenda leynt fyrir þátttakendum.

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá helstu niðurstöðum rannsóknar um Dulin viðhorf sem benda til þess að mismunandi þættir hafi áhrif á það hvort íslenska með erlendum hreim er metin jákvætt eða neikvætt. Þá reyndust móðurmál talandans ásamt t.d. aldri, kyni og menntun þess sem lagði mat á upptökurnar vera afgerandi þættir.

Deila færslunni