Framúrstefna og íslensk samtímamenning

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Á málstofunni er sjónum beint að birtingarmyndum framúrstefnu í íslenskri samtímamenningu. Efnt er til málstofunnar í tengslum við vinnu að fjórða bindi ritraðarinnar  A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries, sem nú er í smíðum og er helgað tímabilinu frá 1975 til samtímans. Í fyrirlestrunum verður fjallað jöfnum höndum um framúrstefnu í bókmenntum, myndlist, kvikmyndum, sviðslistum og tónlist. Ekki verður aðeins fjallað um tiltekin verk, hópa eða hreyfingar heldur verður jafnframt lögð áhersla á menningarlegt samhengi þeirra og leitast við að varpa ljósi á það hlutverk sem framúrstefnan hefur gegnt á íslenskum menningarvettvangi á síðustu áratugum. Loks verður tekist á við þá áleitnu spurningu að hvaða marki hugtakið „framúrstefna“ hefur yfirleitt gildi í umfjöllun um samtímann.

2017

Hvar
Stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
10.00-14.30

Málstofustjóri:
Benedikt Hjartarson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.00-12.00

Í fyrirlestrinum verður varpað fram nokkrum lykilspurningum sem við er að eiga þegar ráðist er í ritun menningarsögu framúrstefnunnar í okkar eigin samtíma, með sérstakri áherslu á Ísland og önnur Norðurlönd: 1) er framúrstefna gagnlegt hugtak í greiningu á samtímamenningu og ef svo er, hvernig skilgreinum við hana þá?; 2) birtist framúrstefna samtímans fyrst og fremst í úrvinnslu á eldri hefðum framúrstefnu og sé það raunin, er þá hægt að tala um framúrstefnu í reynd?; 3) tengist framúrstefna samtímans e.t.v. fyrst og fremst nýjum miðlum og tækniþróun?; 4) er framúrstefnu samtímans e.t.v. fyrst og fremst að finna á vettvangi gagnmenningar?; 5) er nauðsynlegt að tala um ólíkar framúrstefnur þegar tekist er á við samtímann? Í leit að svörum verður horft til ólíkra skilgreininga á hugtakinu framúrstefna í sögulegu samhengi og varpað ljósi á hvernig þær nýtast við greiningu á samtímanum.
Í erindinu verður fjallað um fjölþættan feril lista- og athafnamannsins Einars Arnar Benediktssonar (Purrkur Pillnikk, Kukl, Smekkleysa, Ghostdigital, Besti flokkurinn o.fl.) í íslensku menningarlífi, sem spannar um fjóra áratugi. Leitast verður við að draga fram atriði í löngum ferli sem sækir uppistöður í hugmynda- og fagurfræði pönksins með ívafi úr samtíma framúrstefnulistum (contemporary avant garde). Í leit að kjarna í framgöngu Einars verður velt upp hugtökunum “fagurfræði truflunar” (Aesthetics of Disturbance) og “and-list”, með vísun í rit bandaríska leikhúsfræðingsins David A. Graver, Aesthetics of Disturbance: Anti-Art in Avant-Garde Drama (Ann Arbor, 1998).
Hugmyndin að Besta flokknum spratt upp úr hugmynd að sjónvarpsþáttaseríu sem Jón Gnarr var að vinna ásamt Gauki Úlfarssyni, kvikmyndagerðarmanni. Þegar Jón vildi gera hugmyndina að raunverulegum stjórnmálaflokki þótti þeim síðarnefnda það afleit hugmynd. Jón Gnarr var ráðinn sem leikskáld Borgarleikhússins árið 2009. Hann langaði til að gera einhvers konar pólitískt leikhús en fannst erfitt að ná til fólks í gegnum leiksviðið. Niðurstaðan varð að Besti flokkurinn var stofnaður og listi frambjóðenda bauð sig fram til borgarstjórnakosninga með Jón Gnarr sem borgarstjóraefni. Þar með réðst hin pólitíska list inn á svið stjórnmálanna og má jafnvel segja að hún hafi yfirtekið það, um tíma.

Kosningabarátta Besta flokksins var áhugaverð. Hún einkenndist af undarlegum uppátækjum og tilsvörum, sem Jón sjálfur lék aðalhlutverkið í, flestum. Þannig náði Besti flokkurinn oft inn í fréttir og fyrirsagnir vorið 2010. Í framhaldinu kom í ljós að lítill munur reyndist vera á pólitík og pólitísku leikhúsi. Þessi rannsókn á kosningabaráttu Besta flokksins lýtur að endurskilgreiningum á tengslum listar og stjórnmála í gjörningalist nútímans sem á rætur sínar að rekja til hefðar framúrstefnunnar. Einnig verður horft til hlutverks nýmiðla og hlutverks þeirra í hinu nýja samkurli lista og stjórnmála.

„Framúrstefna 7. áratugarins er kvennalist,” sagði bandaríska listakonan Mary Beth Edelson þegar hún sýndi í Gallerí Suðurgötu 7 vorið 1979. Í erindinu mun ég ræða um tengsl pólitískrar gagnrýni við ný birtingarform kyngervis og kynímynda í myndlist íslenskra kvenna á tímabilinu 1975 – 2000. Þá verður gerð tilraun til að skrifa þennan lítt rannsakaða kafla íslenskrar listasögu inn í alþjóðlegt samhengi út frá forsendum þeirrar feminísku framúrstefnu sem Edelson reifaði á sínum tíma.

11. mars kl. 13.00-14.30

Viðfangsefni erindis eru svokölluð örforlög og verðum sjónum beint að starfsemi örforlaga í íslenskum samtíma. Með örforlögum er hér vísað til sjálfstæðra bókaforlaga sem stefna ekki að fjárhagslegum ávinningi og gefa einkum út fagurbókmenntir, auk sem þau staðsetja sig markvisst innan þeirrar hefðar framúrstefnu sem stefnir að umbyltingu ríkjandi fagurfræði og menningarstrauma. Aðferðafræðilegur rammi byggir á menningarfélagsfræði, með aðaláherslu á greiningu jaðartexta, verk og aðferðir örforlaganna við að marka sér stöðu. Einnig er sjónum beint að tilraunum örforlaga til að endurskilgreina sambandið á milli höfundar, útgefanda og lesanda. Í því samhengi verður einkum horft til bókverka og DIY nálgunar, hugmynda um bókaútgáfu og bókmenntir sem viðburð og þeirra gjörningsþátta sem setja mark sitt á starfsemina. Kannað verður hvernig örforlög marka sér stöðu innan menningarvettvangsins í samtíma okkar og greindar þær aðferðir sem þau beita til þess.
Upp úr aldamótunum 2000 komu fram tveir hópar listamanna á sviði myndlistar annars vegar og tónlistar hins vegar, sem báðir höfðu uppi áform um að efla veg stafrænnar listsköpunar á Íslandi. Fyrri hópurinn var samsettur af sundurlausum hópi lista- og fræðimanna, sem þekktust lauslega. Hinn hópurinn samanstóð af tónskáldum sem höfðu þekkst lengi eða kynnst á meðan þau voru við nám í Listaháskóla Íslands. Fyrri hópurinn sameinaðist um stofnun Lornu, félags áhugamanna um rafræna list árið 2002 sem hafði uppi áform um að koma á fót Media Labi fyrir listamenn í Reykjavík. Seinni hópurinn stofnaði S.l.á.t.u.r – Samtök listrænt ágengra tónskálda umhverfis Reykjavík árið 2005, sem hafði það markmið að bylta hljóðheimi íslenskrar samtímatónlistar með nýrri nótnaskrift. Aðferðir þessara tveggja hópa við að koma listrænni sýn sinni á framfæri var frá upphafi ólík, en hið sama má einnig segja um stöðu hópanna í íslensku menningarlífi. Með því að bera hópana saman og skoða afdrif einstaklinga innan þeirra má hugsanlega varpa ljósi á hvaða þættir geta haft áhrif á hvort listamönnum tekst að koma byltingarkenndum hugmyndum á framfæri og festa þær í sessi.
Götuleikhúsið Svart og sykurlaust var stofnað vorið 1983 og vakti athygli fyrir sýningar sínar í opinberu rými víða um land á næstu árum. Með súrrealískri fagurfræði og anarkískum leiklistargjörningum skapaði hópurinn sér óumdeilda sérstöðu í íslensku sviðslistaumhverfi á níunda áratugnum. Stefnuyfirlýsing hópsins staðhæfði að Svart og sykurlaust væri ekki leikhús, kaffihús, stjórnmálaflokkur eða sértrúarsöfnuður, heldur nýr hugsunarháttur, en í hópnum komu saman listamenn úr ólíkum listgreinum sem segja má að hafi látið reyna á mörk milli leiklistar, myndistar, tónlistar og pólítískra aðgerða.

Deila færslunni