Hreppstjórar og prestar. Skjalagerð og heimildir um embættisfærslu og agavald

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um skjalagerð hreppstjóra frá 17. til 19. aldar. Þeim bar að halda nokkrar embættisbækur og verður þeirra getið auk þess sem þeir tóku þátt í gerð manntalsins 1703. Farið verður yfir sögu hlutverks hreppstjóra með áherslu á þann tíma sem lögregluverk þeirra var skilgreint sem aðstoð við presta með tilliti til uppihalds trúarbragðanna, eða frá 1685-1809. Getið verður um verkefni sem varðar sögu dómsvalds kirkju og konungs á andlegu málasviði og hvernig samfella opnar víðari sýn. Tekin verða dæmi í tímaröð um ákveðna valda þætti sem koma inn á eftirlit með störfum presta og hlutverk þeirra í agavaldi.

Fundarstjóri verður Gunnar Örn Hannesson skjalavörður á Þjóðskjalasafni.

2017

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Kristjana Kristinsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.30

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þær skjalabækur sem hreppstjórar héldu en færsla hreppsbóka var fyrst fyrirskipuð af stiftamtmanni í desember árið 1785 og var bréfið lesið upp á alþingi árið 1786. Í hreppsbók átti að færa nöfn þurfalinga, ástæður þeirra og hvar og á hvern hátt þeir voru vistaðir af hreppnum. Í bókina átti einnig að færa tekjur fátækrasjóðs og hvernig þeim var ráðstafað. Þetta reikningshald áttu sóknarprestar og hreppstjórar að hafa með höndum. Þrátt fyrir þetta ákvæði fyrst 1786 eru varðveittar eldri heppsbækur. Sú elsta er frá Reykholtdalshreppi í Borgarfirði frá árinu 1643 og einnig eru varðveittar eldri bækur úr sjö hreppum. Frá 1787 var hreppstjórum falið að útbúa búnaðarskýrslur og skyldu prestar frá árinu 1797 aðstoða presta við þessa skýrslugerð. Færsla hreppsbóka er áréttuð í hreppsstjórainstruxinu frá 1809. Þar er einnig tiltekið að hreppstjórar eigi að varðveita skjalasafn hreppsins, halda því í réttri tímaröð, skrá það og afhenda það eftirmanni sínum við hreppstjóraskipti. Í framhaldi af nýjum lögum um sveitarstjórnarmál 1872 var sett reglugerð um hreppstjóra árið 1880. Samkvæmt henni lutu verkefni hreppstjóra að glæpa- og lögreglumálum, ýmsum réttargjörðum og skýrslugerðum varðandi opinber mál og einkamál. Bætist þá við skjalasafn hreppstjóra skjöl varðandi þau mál en hreppsbókin um fátæraframfærsluna er frá þeim tíma haldin af oddvita sveitarstjórnarinnar.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir sögu hlutverks hreppstjóra með áherslu á þann tíma sem lögregluverk þeirra var skilgreint sem aðstoð við presta með tilliti til uppihalds trúarbragðanna, eða frá 1685-1809.

Hreppur hefur verið til á Íslandi eins lengi og nokkuð er vitað um skipulag hérlendis, því að þeirra er getið í elstu lögum, nefnilega um tíund. Stærð hrepps var að lágmarki tuttugu bændur og lutverk þeirra fimm sem sátu í hreppstjórn var að sjá um að sækja bændur um tíund og skipa niður matgjöfum og ómaga¬fram¬færslu. Þetta stóð lítið breytt með Jónsbók fram til þess að ný löggjöf var sett fyrir konungsríki einvaldsins árið 1683. Til samræmis við þau var hreppstjórum gert að aðstoða prestana við að framdylgja kirkjuaga undir formerkjum lögreglu, sem hvort tveggja heyrðu þá til nýmæla og jók mjög við starfsskyldur beggja. Markmiðið var að bæta kristilegt líferni almennings með því að styrkja vald embættismanna heima í héraði og fólust skyldur þeirra meðal annars í því að beita áminningum og líkamlegum refsingum. Árið 1809 voru heimildir hreppstjóra til að fella úrskurði um yfirsjónir felldar úr gildi en eftirlits- og áminningarhlutverkið stóð eftir undir nafni lögreglu í samvinnu við sýslumann.

Í erindinu er komið inn á heimildasamantekt sem varðar sögu dómsvalds kirkju og konungs á andlegu málasviði frá 12. öld og fram til hegningarlaga 1869. Þetta eru stjórnskipunarlög ásamt öðrum lögum og tilskipunum innan málasviðsins, auk heimilda um beitingu laganna og áhrif þeirra á líf almennings.

Hið andlega málasvið eins og það var skilgreint árið 1277 og kirkjan hafði þá dómsvald yfir, varðaði málefni klerka, hjúskap fólks og löglegan getnað, frelsi kirkju, tíundir og heit, skipan manna á síðustu dögum sér til sáluhjálpar, pílagríma, kirkjueignir, bannsverk, meinsæri, okur, umsýslu andlegra hluta, villu, vantrú, frillulífi, hórdóms-og frændsemisspell.

Hér verður dregið fram hvernig bein tímaröð laga og tilskipana á afmörkuðu sviði getur opnað rökrétt samhengi, víðari sýn og ákveðna samfellu. Valdir verða ákveðnir þættir innan löggjafar um andleg málefni þar sem prestarnir, störf þeirra og ímynd meðal almennings er skoðuð frá öndverðu og fram til einveldistímans. Sömuleiðis verður gripið niður inni á síðara tímabili og tilskipunum um hjónabandið, trúlofanir og hórdómsbrot fylgt eftir frá upphafi einveldis og fram til hegningarlaga 1869.

Deila færslunni