Íðorðastarf í Háskóla Íslands

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Háskóli Íslands hefur samþykkt ályktanir um íðorðastarf (1990) og sett sér málstefnu (2004 og 2016) þar sem m.a. kemur fram að einstakar kennslu- og fræðigreinar eru hvattar til að beita sér fyrir skipulegri íðorðasmíð og íðorðasöfnun, hver á sínu sviði. Það er m.a. hlutverk málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að styðja við íðorðastarfsemi og veita ráðgjöf. Hér verður fjallað um reynsluna af þessum samþykktum. Hafa þær hvatt fræðimenn við Háskóla Íslands til að fást við íðorðastarf? Á hvaða hátt getur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stutt við íðorðastarfsemina? Sagt verður frá íðorðastarfi í þremur greinum við Háskóla Íslands þar sem grunnur starfsins er mjög mismunandi: byggingarverkfræði (Verkfræði- og náttúruvísindasvið), hjúkrunarfræði (Heilbrigðisvísindasvið) og tómstundafræði (Menntavísindasvið).

Fundarstjóri verður Hallgrímur J. Ámundason, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2017

Hvar
Stofu 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Ágústa Þorbergsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-17.00

Árið 1990 samþykkti háskólaráð tvær ályktanir sem snerta íðorðastarf þar sem þeim tilmælum var m.a. beint til allra háskóladeilda að þær vinni skipulega að því að til verði íslenskt íðorðasafn á kennslusviði deildarinnar og að líta skuli á íðorðastarf sem sjálfsagðan þátt í fræðastarfi kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands setti sér málstefnu árið 2004 þar sem m.a. kom fram að Háskólinn hvetti starfsmenn sína til að sinna málrækt, t.d. með því að rita um fræði sín á íslensku og taka saman orðasöfn. Ný málstefna var sett á síðasta ári þar sem segir m.a. að skólanum beri rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf – og notuð – á öllum fræðasviðum. Kennarar eru jafnframt hvattir til að sinna íðorðasmíð í fræðigrein sinni og miðla íðorðum til stúdenta og almennings.

Hver er reynslan af þessum samþykktum Háskóla Íslands? Hafa þær hvatt fræðimenn við Háskóla Íslands til að fást við íðorðastarf? Hvaða hindranir eru helst í veginum? Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur m.a. það hlutverk að styðja við íðorðastarfsemi og veita ráðgjöf. Á hvaða hátt getur stofnunin komið til móts við þær háskóladeildir sem vilja framfylgja samþykktum Háskóla Íslands?

Greint verður frá íðorðastarfi byggingarverkfræðinga meginhluta síðustu aldar, allt frá því Íslendingar voru uppfullir af sjálfstæðishugsjónum og staðhæfingu á borð við þessa tilvitnun í ljóð Einars Benediktssonar, Móðir mín „…orð var á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu“ til samtímans sem er stöðugt að taka við ensku máli, bæði töluðu og rituðum með sífellt hraðvirkari og víðfeðmari búnaði. Afrakstur þessa íðorðastarfs byggingarverkfræðinga í næstum heila öld birtist í bókinni Umhverfistækni/Íðorðabók, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2007. Bókin er afar vel unnin og er um margt eftirbreytnisverð. Því verður þó ekki neitað að hundrað ára starf að söfnun og skráningu u.þ.b. tólf hundruð íðorða á fagsvið, sem telur tíu til tuttugufaldan þann fjölda íðorða, lýsir fremur hægum framgangi. Það er flestum ljóst að hugsa þarf íðorðastafið upp á nýtt og reyna að auka afköstin og að koma niðurstöðunum á framfæri með nútímalegri hætti. En samt sem áður er enn líf í gamaldags íðorðanefndum, einkum á tilteknum sérsviðum. Sagt verður frá hvernig verkefni á afmörkuðum sérsviðum innan byggingarverkfræðinnar hafa verið unnin að undanförnu og samstarfið við málfræðinga. Þá verður einnig reynt að meta hvers virði íðorðastarfið er og hvað rannsóknir sýna hvað eitt íðorð kostar. Þá er eftir spurningin, sem er ekki að fullu svarað: Hver vill borga fyrir íðorðin?
Alþjóðasamtök hjúkrunarfræðinga (ICN) hafa unnið að þróun orðasafns eða flokkunarkerfis í hjúkrun, International Classification for Nursing Practice (ICNP) undanfarin ár. Í ICNP eru nú um 4200 kóðuð hugtök og skilgreiningar á sviði hjúkrunarfræði til lýsa ástandi sjúklinga, hjúkrunarþörfum þeirra og –meðferð á samræmdan hátt. Með þýðingu á ICNP eru hjúkrunarfræðingum lögð til íslensk íðorð og lagður grunnur að íðorðasafni í hjúkrunarfræði, en ekkert slíkt er til.

Slanguryrði og erlendar slettur hafa verið mikið notaðar af íslenskum heilbrigðisstarfsmönnum í áranna rás. Með tilkomu rafrænnar sjúkraskrár og annarra upplýsingakerfa innan heilbrigðisþjónustunnar hafa þessi erlendu orð orðið meira áberandi og hjúkrunarfræðingum tamari. Umtalsverð vinna hefur verið lögð í að reyna að útrýma ýmsum slettum við þróun á rafrænni sjúkraskrá og koma í veg fyrir að þau rati inn í val- eða orðalista rafrænna kerfa. Í dag er talað um barkarauf og magarauf í stað tracheóstómiu og gastróstómíu, vökvagjöf í æð í stað infúsjónar, blóðgjöf í stað transfúsjónar svo dæmi séu nefnd. Enn vantar þó mikið upp á að til séu íslensk íðorð fyrir öll hjúkrunarfræðileg hugtök á íslensku og ýmis nýyrði vantar. Þýðing á ICNP hefur verið mikil áskorun frá sjónarhóli hjúkrunarfræðinnar og íslenskunnar.

Tómstundafræði er ung fræðigrein á Íslandi. Hugtakanotkun og orðræða hefur því mótast í starfi á vettvangi á nokkuð ómarkvissan hátt, ekki eingöngu á sviði tómstunda heldur einnig á öðrum fræðasviðum og í viðfangsefnum daglegs lífs. Fræðafólk og fagfólk á vettvangi hefur þýtt lykilhugtök í tómstundafræðum eftir nauðsyn og hentugleika í áranna rás og merking þeirra á íslensku nær ekki alltaf að kjarna hugsmíð á upprunamálinu. Það er því brýnt að styrkja hugtakagrunn fræðigreinarinnar og skilgreina lykilhugtök af nákvæmni til að draga úr líkum á mismunandi túlkun á orðum og hugtökum. Með því móti ætti að verða til mikilvægur grunnur að auknum rannsóknum og þróun fræðigreinarinnar á Íslandi sem er jafnframt grunnur að sterkum fagvettvangi. Í erindinu verður stuttlega fjallað um starf orðanefndarinnar, smáu sigrana og helstu áskoranir.

Deila færslunni