Innan heims og handan: Guðdómur, dauði og réttlæti í fornöld

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Málstofan beinir sjónum sínum að grísk-rómverskum hugmyndum um guðdóminn, dauða og réttlæti. Goðsögur Platons um örlög sálarinnar fyrir handan verða kannaðar, en hann taldi að sálin væri ódauðleg og heiminum stjórnaði réttlátur guð. Þessi kenning var að vissu leyti heimspekilegt nýmæli, þar sem allt til til loka 5. aldar f.Kr. héldu flestir Grikkir að guðdómurinn skipti sér fyrst og fremst af hinum lifandi, en ekki hinum framliðnu. Heimspekiskólar fornaldar höfðu ennfremur margir yfirvegaða afstöðu til sjálfsvígs. Hjá rómverska heimspekingnum Cicero vöknuðu áleitnar spurningar um réttmæti þess og sóma að binda endi á líf sitt vegna atburða í eigin lífi. Hér verður sjónum beint að hugleiðingum Ciceros um eigin aðstæður og ástæður til að binda eða binda ekki endi á líf sitt. Hugmyndir um guðdóminn meðal hinna fyrstu stóumanna voru mótaðar af panteisma, algyðistrú. Á hinn bóginn má sjá talsverð frávik frá panteískum hugmyndum meðal rómverskra stóumanna á 1. og 2. öld e.Kr. Guðfræði tveggja þeirra, Seneca og Epiktetosar, verður könnuð í málstofunni, en báðir vitna þeir um sérkennilega blöndu af panteisma og teisma (trú á persónulegan Guð handanheimsins).

Fundarstjóri er Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki.

2017

Hvar
Stofu 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Rúnar Már Þorsteinsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.30

Fólk hefur löngum trúað á framhaldslíf. Þar er framliðnum iðulega gert hátt undir höfði eða refsað, allt eftir því hvað guðdómlegt réttlæti býður. Goðsögur Platons um örlög sálarinnar fyrir handan koma því fáum á óvart, enda taldi hann að sálin væri ódauðleg og heiminum stjórnaði réttlátur guð. En kannski ætti skoðun Platons að koma okkur á óvart. Hún var að vissu leyti heimspekilegt nýmæli. Því til loka 5. aldar f.Kr. héldu flestir Grikkir – lærðir og leikir – að guðdómurinn skipti sér fyrst og fremst af hinum lifandi, en ekki hinum framliðnu. Þeir væntu eiginlega einskis af næstu vist, ef einhver var. Við dauðan lauk allri gleði og sorg mannsins. Þessi var reglan. Á bakvið hana glitti hins vegar rétt aðeins í þær hugsanir sem Platon gerði síðar að sínum. Þessi saga verður rakin.
Heimspekiskólar fornaldar höfðu margir yfirvegaða afstöðu til sjálfsvígs. Afstaða þeirra er um margt frábrugðin hugmyndum nútímamanna og að mörgu leyti forvitnileg. Hjá rómverska heimspekingnum Cicero vöknuðu áleitnar spurningar um réttmæti þess og sóma að binda endi á líf sitt vegna atburða í eigin lífi. Hér verður sjónum beint að hugleiðingum Ciceros um eigin aðstæður og ástæður til að binda eða binda ekki endi á líf sitt en þær varpa mögulega ákveðnu og jafnvel óvæntu ljósi á heimspekilegar skuldbindingar hans.
Kenningar um eðli Guðs voru margvíslegar í hinum grísk-rómverska menningarheimi. Af þeim var guðfræði stóumanna með stærstu og best þekktu heimsfræðilegu hugmyndakerfum. Stóumenn voru í grundvallaratriðum algyðistrúar, panteistar, og má sjá slíkar hugmyndir víða meðal hinna fyrstu stóumanna á 3. og 2. öld f.Kr. Á hinni bóginn má sjá talsverð frávik frá panteískum hugmyndum meðal síðari stóumanna, nánar tiltekið rómverskra stóumanna á 1. og 2. öld e.Kr. Hvernig var guðfræði þeirra háttað? Að hvaða leyti var hún frábrugðin fyrri stóískum kenningum? Og hvað getur hafa orsakað slík frávik? Til að leita svara við þessu verður leitað til tveggja af þekktustu stóumönnum á þessum tíma, Seneca og Epiktetosar. Báðir vitna þeir um sérkennilega blöndu af panteisma og teisma, þ.e.a.s. trú á persónulegan Guð sem stendur fyrir utan sköpun sína, en lætur sig heiminn varða og hlutast til um atburði í honum.

Deila færslunni