Íslensk handrit í Svíþjóð

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Árni Magnússon safnaði íslenskum handritum af ástríðu. Hann safnaði öllum handritum og handritsbrotum sem hann komst yfir nema kaþólskum helgisiðabókum, en áður en hann hóf söfnun seint á 17. öld höfðu mörg íslensk handrit borist til Danmerkur og Svíþjóðar. Heilar skinnbækur frá miðöldum voru eftirsóttastar meðal fornfræðinga og bókasafnara í þessum löndum en mörg pappírshandrit flutu með. Flest þessara handrita eru varðveitt enn þann dag í dag en nokkur hafa glatast. Í málstofunni verður fjallað um nokkur íslensk handrit í Svíþjóð, örlög þeirra og efni.

Fundarstjóri verður Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2017

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Guðvarður Már Gunnlaugsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.30

Sænskur fræðimaður að nafni Johannes Bureus hripaði hjá sér árið 1602: ʻskenktes migh Ormer Snorrasons bok af Hans Nilsonʼ. Þetta er elsta heimildin sem hefur fundist um þessa bók sem venjulega er kölluð Ormsbók. Mörgum árum síðar gaf Johannes Bureus sænsku krúnunni bókasafn sitt og við það tækifæri skrifaði hann í minnisbók sína að handritið hefði að geyma sögur um eyðileggingu Troju, byggingu Englands, ásamt safni sagna um Frakkland og Þýskaland. Handritið er nú týnt og er talið að það hafi brunnið í Stokkhólmi árið 1697.

Orð Johannesar Bureuss tengja handritið við Orm Snorrason lögmann á Skarði, og nafn hans hefur að öllum líkindum verið skrifað einhvers staðar í bókina. Ormur var fæddur um 1320 og hann var enn á lífi árið 1401 og þess vegna er líklegt að Ormsbók hafi verið skrifuð á 14. öld. Í handritinu voru Trojumanna saga, Breta sögur og margar riddarasögur.

Þrjú pappírshandrit, sem voru skrifuð af Jóni Vigfússyni á árunum 1690–1691 og eru varðveitt í Stokkhólmi, eru talin vera uppskriftir á Ormsbók.

Í fyrirlestrinum mun ég fara yfir efni Ormsbókar og leggja fram rök fyrir að a.m.k. tvær sögur til viðbótar hafi verið í handritinu en hingað til hefur verið talið og að heilt kver hafi verið týnt þegar Jón Vigfússon skrifaði handritið upp.

Týnd handrit hafa oft kynt undir ímyndunarafli höfunda og eru stundum í aðalhlutverki í skáldsögum um flókin sakamál. Í erindinu mínu ætla ég að ræða spurninguna hvort týnt Njáluhandrit, sem var forrit pappírshandrits í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi, hafi orðið fórnarlamb afbrots eða hvort það hafi kannski frekar verið spilltur öryggisvörður eða hirðulaus fræðimaður sem varð handritinu að bana. Jón Vigfússon skrifaði handritið Isl. papp. 9 fol. fyrir sænska fornleifafélagið (Antikvitetskollegiet) árið 1684. Eldri Njáluhandrit sem koma til greina sem forrit þess er hvergi að finna í Stokkhólmi eða annars staðar í Svíþjóð, en skjöl í sænskum söfnum benda til þess að að minnsta kosti þrú Njáluhandrit hafi verið í Svíþjóð á öðrum helmingi sautjándu aldar.

Nýlegar rannsóknir á hinu glataða miðaldahandriti Gullskinnu benda sterklega til þess að Isl. papp. 9 fol. hafi verið tengt þessu horfna skinnhandriti þótt það innihaldi ekki ómengaðan Gullskinnutexta. Leitin að týnda Stokkhólmshandritinu gæti þannig verið vísbending í leitinni að Gullskinnu, en tvö önnur pappírshandrit, annað í Reykjavík og hitt í Kaupmannahöfn, voru líklegast skrifuð eftir sama forriti og handritið í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi.

Hallgrímur Pétursson var öldum saman eitt vinsælasta skáld á Íslandi og kveðskapur eftir hann er varðveittur í um það bil 600 handritum sem vitað er um. Sum þessara handrita eru í erlendum söfnum, t.d. í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi. Hjá Fornfræðastofnun Svía störfuðu Íslendingar sem höfðu áhuga og þekkingu á fornum fræðum. Margir þeirra voru samtímamenn Hallgríms Péturssonar eins og t.d. Jón Rúgmann (1636-1679). Íslensku handritin í Svíþjóð sem varðveita kvæði Hallgríms hafa að geyma ýmiss konar efni, oft fornan kveðskap. Athyglisvert er að nær öll kvæðin sem Hallgrími eru þar eignuð eru veraldleg en ekki trúarleg. Í fyrirlestrinum verður skoðað nánar hvernig þessi handrit bárust til Svíþjóðar, hverjir skrifuðu þau og hvaða mynd þau gefa af skáldinu Hallgrími Péturssyni.

Deila færslunni