Íslenskt mál á 19. öld og fyrr

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Nítjánda öld hefur ekki verið talin sérstaklega viðburðaríkt tímabil í íslenskri málsögu í þeim skilningi að hún teljist upphafstími margra afdrifaríkra málbreytinga. Hins vegar má kalla hana öld málstöðlunar af því að þá var málstaðall nútímans mótaður að miklu leyti. Málsögu þessa tíma verða því ekki gerð skil nema með því að kanna samspil málbreytinga og stöðlunar á 19. öld og í aðdraganda hennar.

Í þessari málstofu verður fjallað um valin atriði úr íslenskri málþróun á 19. öld og fyrr. Þar verður bæði sagt frá dæmaleit úr handritum og prentmáli og tekin sýnishorn af málnotkun einstaklinga eins og hún birtist í einkabréfum.

Fundarstjóri verður Jóhannes Bjarni Sigtryggsson rannsóknarlektor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2017

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Guðrún Þórhallsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. kl. 15.00-16.30

Í eintölubeygingu nútíðar framsöguháttar sagnarinnar hafa var 2. og 3. persónu myndin hefur orðin allsráðandi á átjándu öld, en á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu bar talsvert á viðleitni til að endurvekja myndina hefir. Í erindinu verður fjallað um aðdraganda þessarar nítjándu aldar málstöðlunar og sjónum beint að breytingunni þegar hefir vék fyrir hefur.
Fyrirlesturinn fjallar um málnotkun fjögurra systkina eins og hún birtist í fjölskyldubréfum frá síðari hluta 19. aldar. Á þeim tíma var ritmálstaðallinn í mótun og talsverð tilbrigði í málnotkun þótt smám saman væri að komast á meiri festa í rithætti, bæði hvað varðar stafsetningu og val orðmynda. Úrval úr bréfum systkinanna verður skoðað með tilliti til valinna málfarsatriða sem eru af ýmsu tagi en eiga það þó sameiginlegt að hafa komið við sögu málstöðlunar á umræddu tímabili. Könnuð verða tilbrigði í bréfunum, bæði í skrifum hvers bréfritara fyrir sig og munur milli einstaklinga. Sérstaklega verður fjallað um afbrigði sem mörg urðu hluti af ritmálsstaðlinum sem festist í sessi á 20. öld og kannað hvort útbreiðsla þeirra tengdist ytri þáttum, einkum kyni og menntun bréfritara.
Nafnorðið krakki er í nútímamáli algengt hversdagsorð og það hefur til skamms tíma ekki notið sérstakrar athygli málfræðinga. Á síðustu árum hefur það þó verið áberandi í umfjöllun um beygingarsamræmi þar sem auðvelt er að benda á að til karlkynsorðsins krakki sé oft vísað með orðmyndum í hvorugkyni (t.d. Krakkarnir mínir (kk.ft.) eru ánægð (hk.ft.) í skólanum). Vegna skorts á heimildum um þetta tiltekna orð er þó erfitt að rekja slíka notkun þess langt aftur í tímann. Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilurð orðsins og sögu og sýnd dæmi um notkun þess, m.a. úr sendibréfum og tímaritatextum frá 19. öld.

Deila færslunni