Konur og kynhlutverk í dægurmenningu fyrri alda

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan tekur til umfjöllunar hlutskipti kvenna í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Fyrirlestrarnir munu, hver með sínum hætti, varpa ljósi á ýmsar hliðar kvennakúgunar sem birtast okkur m.a. í réttindaleysi, kynferðisofbeldi og alls kyns niðurlægjandi framkomu í garð kvenna. Fjallað verður um niðrandi húmor og fastmótaðar hugmyndir um kynhlutverk eins og þær birtast í gamankvæðum sem eru hluti sagnadansa; þá víkur sögunni að öskubuskuminninu sem skýtur víða upp kollinum í ævintýrum og fornaldarsögum, meðal annars í Ragnars sögu loðbrókar. Loks er hugað að frygð, meydómi, getuleysi og nauðgun og ýmsum birtingarmyndum þessa í tilteknum rímum. Athygli verður þannig einkum beint að textum sem telja má til dægurmenningar fyrri alda, fornaldarsögum, rímum, sagnadönsum og ævintýrum.

Fundarstjóri: Aðalheiður Guðmundsdóttir prófessor.

2017

Hvar
Stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Ingibjörg Eyþórsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Sagnadansar þeir sem varðveist hafa á Íslandi fjalla langflestir um samskipti kynjanna á einhvern hátt. Margir þeirra greina frá kynferðislegri nauðung af einhverju tagi, þvingun, sifjaspellum og öðru ofbeldi. Í þeim kvæðum er langalgengast að sögusamúðin sé með konunum og sjónum er gjarnan beint að þeim. En ekki fjalla þó allir sagnadansar um svo alvarleg málefni, því innan greinarinnar er einnig að finna kvæði sem hafa verið flokkuð sem gamankvæði. Slík kvæði eru ekki mörg, en athyglisvert er að þau fjalla gjarnan um konur sem ekki vilja beygja sig undir reglur samfélagsins, þær eru vandar að biðlum, hafa neitað þeim mörgum og eru niðurlægðar í kjölfarið. Önnur fjalla um karla sem falla ekki inn í hefðbundið kynhlutverk, konur þeirra hafa yfirhöndina og þeir verða að athlægi fyrir vikið.

Grínið er því jafnan grátt og beinist ekki síst að því að konur eigi að hlýða – ella fái þær makleg málagjöld – og valdið skuli vera í höndum karla. Þeir karlar sem ekki taka sér það eru hlægilegir og óspart er hæðst að þeim. Hér má því greina sterkan boðskap um mikilvægi fastmótaðra kynjahlutverka í hefðbundnu samfélagi – feðraveldinu. Fyrirlitning á þeim sem ekki falla að stöðluðum kynhlutverkum er leiðarstef í þessum kvæðum.

Titill fyrirlestursins er tilvísun í verk sænska þjóðfræðingsins Anna Birgitta Rooth, The Cinderella Cycle, frá árinu 1951 sem er frægt rit um ævintýrið um Öskubusku sem og dreifingu rúmlega þúsund tilbrigða þess út um allan heim. Verkið hefur að hluta til verið þýtt og gefið út á íslensku sem Öskubuska í austri og vestri árið 1982.

Í upprunalega ritinu greinir Rooth m.a. frá áberandi hliðstæðum ævintýra um Öskubusku og fornaldarsögunnar Ragnars sögu loðbrókar og ræðir hún ítarlega hlutverk Áslaugar/Kráku í því samhengi. Lítið fjallar Rooth þó um hvernig Ragnar loðbrók tengist öskubuskuþemanu en fjallað verður um það í fyrirlestrinum. Ennfremur mun verða greint frá nokkrum sagnaminnum í Ragnars sögu sem sýna ekki eingöngu fram á áhrif frá Norðurlöndum heldur einnig frá Suður Evrópu og jafnvel Austurlöndum sem setja Ragnars sögu í víðara menningarlegt samhengi.

Rímnaflokkurinn um Ölvi sterka Hákonarson er varðveittur í heild sinni í tveim handritum, AM 616 d 4to og NKS 1133 fol., en einnig er brot af sjöttu og síðustu rímunni varðveitt á einu blaði í þriðja handritinu, AM 603 4to. Frá 17. öld er einnig varðveitt prósagerð Bragða-Ölvis saga, byggð á rímunum, en hún er varðveitt í alls 16 handritum en varðveitir ekkert efni umfram rímurnar. Rímurnar virðast byggja á eldri sögu, líkast til fornaldarsögu, sem nú er glötuð.

Söguefnið virðist vera í anda fornaldarsagna, og helst nokkuð óbreytt milli textavitna, en þó er smávægilegur áherslumunur á textavitnunum, uppröðun vísna hefur áhrif á framvindu sögunnar og einstaka sinnum er einhver breyting á efninu sjálfu. Það er þó ljóst að eins og rímurnar eru varðveittar í dag hefur eitthvað farið forgörðum, því margt er óljóst og illskiljanlegt í þeim og oft eins og vanti samhengi. Í grunninn eru þetta tvö söguefni sem hafa blandast saman, annars vegar nokkuð hefðbundin fornaldarsaga um þroska og mannraunir ódæls drengs og hins vegar efni sem virðist fremur í ætt við riddarasögur eða sagnadansa. Þessi tvö söguefni mætast í Ölvis rímum sterka og þar eru tvenn álög sem tengja söguefnin saman órjúfanlegum böndum.

Deila færslunni