Konur og ofbeldi í íslenskum samtímabókmenntum

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður sjónum beint að birtingarmyndum kvenlægs ofbeldis í íslenskri samtímaljóðlist og -skáldskap. Þrjú nýleg skáldverk verða tekin til greiningar: Drápa eftir Gerði Kristnýju, Gráspörvar og ígulker eftir Sjón og Kata eftir Steinar Braga. Í hverju verki fyrir sig má greina sameiginlega þræði sem snerta stöðu konunnar í samfélaginu, kúgun hennar og þau tæki sem standa henni til boða til þess að brjótast undan kynbundnu ofríki, hvort sem ástæður þess eru samfélagslegar, dramatískar eða hreinlega sökum „grimmdar“ höfundar. Spurt er hvort þessi skáldverk endurspegli hugmyndir samtímans um kynbundið ofbeldi og um leið hvernig þeim sé miðlað.

2017

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.30-12.00

Málstofustjóri:
Alda Björk Valdimarsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.30-12.00

Skáldkonan Gerður Kristný hefur skrifað fjölda bóka um ofbeldi gegn konum. Sem ritstjóri og blaðamaður afhjúpaði Gerður undirheima íslensks veruleika í frásögnum sem náði hápunkti í bók hennar Myndin af pabba – saga Thelmu frá 2005 en þar segir hún sögu af hrottalegum kynferðisglæp gegn fjórum systrum af hendi föður þeirra. Ást, ofbeldi og og dauði hefur jafnframt lengi verið viðfangsefni ljóða Gerðar og er ljóðabókin Drápa sem kom út 2014 þar engin undantekning. Ljóðabókin segir frá myrkri ást, ofbeldi og morði á konu um miðjan vetur í kulda og myrkri þegar „myrkusinn“ kemur til Reykjavíkur. Borgarlandslagið er ógnvekjandi dimmt, drungalegt og skuggalegt. Vængjaður sögumaðurinn minnir um margt á Mefístófeles í leikritinu Faust eftir Goethe, en Drápa vinnur með sannsögulega atburði af morði á ungri konu sem var myrt á heimili sínu af eiginmanni sínum í janúar 1988. Ofbeldismaðurinn sjálfur fangar hina harmænu lygi og sjálfsblekkingu sem er undirrót allra ofbeldissambanda með orðum sínum: „Ég bjargaði henni margsinnis vísvitandi en drap hana óvart.“
Í síðustu ljóðabók Sjóns, gráspörvum og ígulkerjum, er kafli sem kallast „danse grotesque“. Kaflinn ber með sér mörg skáldleg einkenna Sjóns þar sem hann vinnur úr arfi framúrstefnnunar. Hann sækir hvort í senn í súrrealisma í hinu óvænta stefnumóti og óröklegum listum/upptalningum; konktretisma í frelsun leturtáknsins undan ljóðrænu og táknsæi, en auk þess er hin dekadent, eða úrkynjaði, hryllingur fyriferðamikill. (Tröll)konulík finnst á víðavangi samsett úr líkömum 12 annarra kvenna. „Við“ finnum líkið og stöndum yfir því aðgerðarlaus í fyrstu en hefjumst svo handa við að gera það tilbúið í dansinn hroðalega. Litið verður til stöðu konunnar í ljóðinu, merkingarmöguleika þess hvernig dauði hennar er framsettur og reynt að komast til botns í því hver þessi „við“ erum.  
Rætt verður um skáldsögu Steinars Braga, Kötu (2014), í samhengi við birtingarmyndir kynferðisofbeldis í fjölmiðlum og menningarafurðum. Sjónum verður beint að því hvernig höfundur vinnur úr óhugnanlegum reynsluheimi íslenskra kvenna á máta sem á sér engin fordæmi í íslenskum bókmenntum.

Deila færslunni