Maður að okkar skapi

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Bragi Ólafsson er afkastamikill höfundur sem leggur stund á margar greinar skáldskapar; ljóð, smásögur, skáldsögur og leikverk. Í málstofunni er teflt saman þremur fyrirlestrum og fjallað um verk hans frá bókmenntafræðilegu og málfræðilegu eða málnotkunarlegu sjónarhorni. Ýmist er fjallað um einstakar skáldsögur Braga eða verk hans almennt. Fyrsti fyrirlesturinn fjallar um skáldsöguna Samkvæmisleiki (2004), annar um stöðu og hlutverk skáldskaparins í veruleikanum með skírskotun til Gæludýranna (2001) og í þeim þriðja er litið á orðaval og orðanotkun í prósaverkum Braga almennt.

Kristín Svava Tómasdóttir rithöfundur kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

2017

Hvar
Stofu 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Katrín Axelsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-16.30

Segja má að með skáldsögunni Samkvæmisleikjum verði ákveðin hvörf á höfundarferli Braga Ólafssonar. Lesendur fyrri verka hans höfðu vanist því að frásagnir Braga enduðu fyrirvaralaust án þess að nokkur endahnútur væri rekinn á atburðarásina. Hinn afdráttarlausi og óhugnanlegi endir Samkvæmisleikja kom því mörgum í opna skjöldu – og það þótt fjölmargar vísbendingar um málalyktir væri að finna innan frásagnarinnar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvers vegna endirinn hafi komið svo mörgum á óvart og hvaða merkingu megi lesa úr honum. Staða lesandans verður skoðuð með hliðsjón af hugrænum bókmenntafræðum en einnig verður hugað að textatengslum við verk Þórbergs Þórðarsonar en tvíbent staða þeirra á mótum sjálfsævisögunnar og skáldsögunnar varpar athyglisverðu ljósi á afstöðu Braga til skáldskaparins.
Í skáldsögu sinni Gæludýrunum segir Bragi Ólafsson frá manni, sem felur sig undir rúmi í íbúð sinni, þegar óvelkominn gest ber að garði. Úr felustaðnum verður hann vitni að því þegar fleiri kunningjar og vinir, sumum hefur hann stefnt til sín, leggja undir sig heimilið í nærveru hans en án þess að hann geri vart við sig. Þessi ömurlegi húsráðandi, sem neitar að gegna hlutverki sínu, er að einhverju leyti sambærilegur við höfund eða sögumann sem neitar að hafa sig í frammi og leyfir persónum sögunnar að fara sínu fram að vild. Í erindinu ætla ég að nota skáldsögu Braga Ólafssonar og meðfylgjandi hugmyndir hans um sögusmíðina, sem hann setti fram í spjalli hér í skólanum (‘Gæludýrin og hinn ömurlegi sögumaður’, 2010), sem ástæðu til frekari athugunar á skáldsöguforminu. Ég mun skoða nokkur dæmi af ýmsum vel sögðum sögum, byrja í fornöld, koma við á miðöldum og endurreisnartíma og enda í nútíma. Viðhorf höfunda til sögusmíða eru margvísleg í gegnum tíðina en flestir virðast þeir reyna þveröfugt við sögumanninn í Gæludýrunum að fullvissa lesendur sína um að þeir hafi nokkuð gott vald á skáldskapnum og kunni að nota hann til góðra verka. En hvað er þá á seyði í sögu Braga Ólafssonar?
Mörg verk Braga Ólafssonar bera sterk höfundareinkenni. Þar eru gjarna nákvæmar lýsingar á smáatriðum og ýmiss konar vandræðagangi, fyrirbæri á borð við luktar dyr, lokuð rými, póst og pósthús koma ítrekað fyrir og margar skáldsagnapersónanna skjóta upp kollinum í fleiri en einu verki. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að ýmsum mállegum atriðum sem sjást víða í prósaverkum Braga: orðum og orðalagi sem hann hefur dálæti á, áherslunni sem hann leggur á málnotkun, málfræði og einstök orð og svo að áherslunni á nöfn sem gengur eins og rauður þráður í gegnum höfundarverkið. Enn fremur verður vikið að greinarmerkjum.

Deila færslunni