1957

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Í málstofunni verður litið 60 ár aftur í tímann og spurt; hvaða öfl stýrðu íslenskri bókmennta-umræðu árið 1957? Fyrirlestrarnir fjalla ekki aðeins um höfunda og verk þeirra, eins og t.d. Brekkukotsannál Halldórs Laxness, heldur líka þær stofnanir, samtök og einstaklinga sem ákvarða leikreglur bókmenntakerfisins. Í þessu sambandi verður m.a. horft á hlutverk gagnrýnenda, útvarpsins og ríkisvaldsins. Einnig verður skoðað hvernig reyndi á regluverkið m.a. með tilliti til þýðinga auk þess sem greint verður hvernig Ísland kom Dönum fyrir sjónir.

Auður Aðalsteinsdóttir stýrir umræðum og kynnir fyrirlesara fyrir hlé, en Haukur Ingvarsson eftir hlé.

2017

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Haukur Ingvarsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Árið 1957 hafði Gunnar Gunnarsson rithöfundur og formaður bókmenntaráðs Almenna bókafélagsins forgöngu um endurreisn Íslandsdeildar PEN, en það voru og eru alþjóðleg samtök rithöfunda sem beita sér fyrir málfrelsi á heimsvísu. Framtak Gunnars vakti nokkra athygli, ekki síst vegna þess að hann hafði skömmu áður komið að stofnun Íslandsdeildar annarra alþjóðlegra samtaka sem nefndust Congress for Cultural Freedom (CCF). Þar voru ferðinni andkommúnísk samtök sem störfuðu í 35 löndum þegar mest lét. Fór starfsemi þeirra á Íslandi fram í nafni Frjálsrar menningar. Einn þeirra sem tjáði sig um þetta var rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson. Í grein í tímaritinu Birtingi talaði hann um, „PEN-félagshneykslið“ og setti það í samhengi við Almenna bókafélagið og Frjálsa menningu. Gekk hann svo langt að spyrða þetta þrennt saman og kalla hina „nýstárlegu menningarkeðju sem einangrunarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins haf[i] smíðað…“

Í fyrirlestrinum verður grafist fyrir um hið meinta PEN-félagshneyksli og spurt hvað alþjóðlegt samstarf á tímum kalda-menningarstríðsins hafi falið í sér (e. Cultural Cold-War)? Tengdist stofnun Íslandsdeilda CCF og PEN með einhverjum hætti og áttu þessi samtök samleið hugmyndafræðilega?

Allt frá upphafi útvarps bárust fréttir og frásagnir, bókmenntir, tónlist og leikrit jafnskjótlega að eyrum landsmanna hvar sem þeir voru staddir á landinu. Í strjálbýlu landi þar sem það tók blöð og tímarit marga daga jafnvel vikur að berast til áskrifenda sinna sem höfðu valið sér fyrirfram hvaða blöð og tímarit þeir vildu taka á móti. Það hlustuðu hins vegar allir á útvarpið sama hvaða pólitíska flokk þeir kusu og hvoru megin hinnar pólitísku átakalínu í menningarlífinu þeir stóðu. Samkvæmt lögum skyldi útvarpið flytja hlustendum fjölbreytt efni sem flokkspólitískt útvarpsráð hafði samþykkt og gæta „fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum.“

Bókmenntir eru ekki skapaðar í útvarpi heldur er þeim komið á framfæri, þær sviðsettar, sem líta má á sem vissa tegund endurritunar í skjóli ákveðinnar vildar, í anda kenninga Andrés Lefevere. Hvað segir dagskrá Ríkisútvarpsins árið 1957 um það vildarkerfi sem var ríkjandi á íslenskum bókmenntavangi í upphafi kalda stríðsins?

Sumarið 1957 tryggði íslenskur útgefandi sér útgáfuréttinn að umdeildri norskri skáldsögu, Söngnum um roðasteininn eftir Agnar Mykle. Í Noregi stóðu þá yfir réttarhöld vegna bókarinnar, vegna þess að kaflar úr henni töldust brjóta gegn almennu velsæmi. Um haustið skrifaði Kristján Albertsson rithöfundur harðorða grein í Morgunblaðið þar sem hann hvatti lögreglustjórann í Reykjavík til þess að kanna hvort fyrirhuguð útgáfa bókarinnar á Íslandi bryti gegn íslenskum hegningarlögum og skömmu síðar tilkynntu yfirvöld að kæmi til útgáfu Söngsins um roðasteininn færi málið fyrir dómstóla. Í kjölfarið var hætt við útgáfuna og bókin hefur aldrei komið út á íslensku.

Í erindinu verður fjallað um málið kringum Sönginn um roðasteininn á Íslandi, deilunum um bókina og útgáfu hennar á íslensku. Sjónum verður beint sérstaklega að viðbrögðum yfirvalda og þeirri ákvörðun að vara tilvonandi útgefanda bókarinnar fyrirfram við afleiðingum útgáfunnar, en fulltrúar yfirvalda þvertóku fyrir að um ritskoðun væri að ræða. Málið verður jafnframt sett í samhengi við eftirlit ríkisins með prentuðu máli almennt og við hliðstæð mál frá svipuðum tíma.

10. mars kl. 15.00-16.30

Árið 1957 skrifaði myndlistarkonan og rithöfundurinn Drífa Viðar þrjá ritdóma um bókmenntir í Tímarit Máls og menningar, en hún var á þessum tíma nokkuð öflugur greinahöfundur í tímaritum og skrifaði einnig í Melkorku, m.a. um myndlist og bókmenntir. Fjallað verður um ritdóma Drífu sem dæmi um bókagagnrýni sem skapandi textagerð fremur en afdráttarlausan úrskurð um gæði og gildi verks, með tilliti til þess að hvaða leyti þeir falla að almennum áherslum í ritdómum sjötta áratugarins og að hvaða leyti þeir skera sig úr. Þá er því velt upp hvort nálgun Drífu á erindi við okkar samtíma.
Frá 17. maí til 8. júlí 1952 ferðaðist danska skáldið Martin A. Hansen með málaranum Sven Havsteen-Mikkelsen um Ísland. Þessi fyrirlestur mun fjalla um þá mynd sem Hansen dregur upp af Íslandi. Erik Skyum-Nielsen túlkar frásögn Hansens sem „virðingarfull vonbrigði“ (”Respektfuld skuffelse”) eða „fátæklega lotningu” (”armodig ærefrygt”). En er viðhorf Hansens til Íslands virkilega svo neikvætt? Hér verður bent á leit Hansens að samnorrænni sjálfsvitund í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Meðal annars lítum við nánar á tengslin milli hins forna og nútímalega Íslands. Auk þess verður spurt hvaða hlutverki náttúran gegnir hjá Hansen.
Þýðingar eru mikilvægt rannsóknarefni þegar verið er að skoða bókmenntaumræðu í sögulegu ljósi. Bæði vegna þess að þýðingar bera með sér nýja strauma en ekki síður vegna þess að þær gefa til kynna hvers konar efni var talið nauðsynlegt að kynna fyrir íslenskum lesendum. Kvennablöðin voru vettvangur kvenna til að bæði lesa og birta efni sem endurspeglaði áhugasvið þeirra og það á einnig við um það þýdda efni sem þar birtist. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þýtt efni í íslenskum kvennablöðum árið 1957 og gerð tilraun til að greina þá hugmyndafræðilegu strauma sem það ber með sér.

Deila færslunni