Máltileinkun, tölvur og tvítyngi

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um tvítyngi og rannsóknir á tileinkun og kennslu í íslensku sem öðru máli. Sagt verður frá netnámi frá sjónarhóli nemenda og rýnt í niðurstöður úr spurningakönnun þar sem leitað var eftir sýn nemenda á Icelandic Online. Þá verður fjallað um nýjar aðferðir í kennslu og námi íslensku sem annars máls fyrir utan kennslustofuna. Aðferðirnar eru framhald af kennsluefninu Íslenskuþorpið sem hefur verið þróað við HÍ undanfarin ár. Sagt verður frá rannsókn á tileinkun falla í íslensku sem öðru máli og athyglinni sérstaklega beint að þágufallsandlögum sagna. Að lokum verður sagt frá rannsókn á málvíxlum í frásögnum tvítyngdra Dana sem hafa búið á Íslandi um árabil.

2017

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Sigríður Þorvaldsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-17.00

Í fyrirlestrinum verður greint frá öðrum hluta rannsóknar á framvindu í netnámi þar sem kallað er eftir sjónarmiðum nemenda á Icelandic Online. Um er að ræða megindlega fylgnirannsókn sem er í undirbúningi en hún byggist á niðurstöðum fyrri rannsóknar minnar á gagnagrunni Icelandic Online. Þær niðurstöður sýndu m.a. að lágt hlutfall nemenda klárar námskeið til enda og að nemar í blönduðu námi eru líklegri til að ljúka námskeiði en þeir sem eru í fjarnámi eða á opnum námskeiðum Icelandic Online. Markmiðið með rannsókninni sem hér er til umræðu er að leita svara við því af hverju nemar í blönduðu námsumgjörðinni hafa þá sérstöðu sem raun ber vitni og einnig hvort tilteknir innri þættir námskeiðanna hafi áhrif á framvindu.
Það er ljóst að málnotkun utan kennslustofunnar skiptir máli fyrir tileinkun annars máls. Nýjar rannsóknir á tileinkun annars máls utan kennslustofunnar sýna að það sem skiptir mestu máli er að tala við einhvern sem kann meira í nýja málinu en nemandinn sjálfur. Það er einmitt í þessum samskiptum sem tækifæri til málanáms felast. Í fyrirlestrinum verður greint frá nýstárlegum aðferðum í kennslu og námi íslensku sem annars máls fyrir utan kennslustofuna þar sem samskipti nemenda eru í brennidepli. Aðferðirnar hafa verið þróaðar á vegum samnorræns samstarfshóps sem ber heitið Language Learnig in the Wild og þær eru framhald af Íslenskuþorpinu sem hefur verið fastur liður á námskeiðum við Háskóla Íslands. Sagt verður frá samskiptaverkefnum sem nemendur vinna fyrir utan kennslustofuna í svokölluðu samstarfsnámi þar sem áhugasvið og þarfir nemendanna eru drifkrafturinn í náminu.
Í fyrirlestrinum verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar á tileinkun þágufallsandlaga í íslensku sem öðru máli. Niðurstöðurnar verða ræddar í ljósi rannsókna Kristofs Baten (2011 og 2013) á tileinkun falla í þýsku sem öðru máli og rannsókna á þolfallsandlögum og nefnifallsfrumlögum í íslensku sem öðru máli (Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir 2015). Í þessum rannsóknum kom í ljós að byrjendur reiða sig á stöðu liðanna í setningunni til að merkja föllin; þeir setja nefnifall á lið fyrir framan sögn og aukafall á lið fyrir aftan sögn. Síðar verða þeir færir um að nota aukafall á andlögum og nefnifall á frumlögum sem hafa verið flutt til í setningunni. Þá virðast byrjendur tileinka sér fall á persónufornöfnum fyrr en fall á nafnorðum. Litið verður á mismunandi gerðir þágufallsandlaga og tileinkun þeirra skoðuð með tilliti til merkingarhlutverka og stöðu í setningunni. Að auki verður athugað hvort þágufall á persónufornöfnum komi fyrr en þágufall á nafnorðum.
Tvítyngdir einstaklingar geta brugðið á leik og notað bæði málin sem þeir ráða yfir á virkan hátt í samtölum sín á milli. Eitt er að afmarka beina ræðu í frásögnum af eftirminnilegum atburðum með því að víxla málum til að gefa til kynna að nú sé skipt um hlutverk og orð annarra endurómuð. Sjaldnast er þó um að ræða beina yfirfærslu heldur alltaf endursköpun að einhverju leyti. Beina ræðan getur birst á margvíslegan hátt og venslin á milli tungumálanna á beinu ræðunni og á öðrum hluta frásagnarinnar verið með ýmsu móti. Sýnt verður hvernig þetta birtist í frásögnum tvítyngdra Dana sem búið hafa á Íslandi um áratuga skeið.

Deila færslunni