Minni þjóðar: Reimleikar, minnismerki og skáldskapur

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um minni þjóðar eins og það birtist í bókmenntum, listum og minnismerkjum. Hugað verður að því hvernig sameiginlegt minni er mótað í menningunni og umhverfinu og hvernig er tekist á um það á ýmsum vettvangi. Kannað verður hvers konar atburða er minnst, á hvaða hátt og hvernig minnið er stöðugt breytingum háð. Rætt verður um mikilvægi bókmennta í mótun sameiginlegs minnis og litið á hlutverk minnismerkja í að viðhalda og stuðla að ákveðnum hugmyndum um fortíð og ímynd þjóðar.

Fundarstjóri er Kristinn Schram lektor.

Af óviðráðanlegum orsökum fellur fyrirlestur Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um stríðsminnismerki niður.

2017

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Gunnþórunn Guðmundsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Í fyrirlestrinum verður fjallað um víkinginn sem minni í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness frá 1970, nánar tiltekið um Ólaf bónda á Hrísbrú, baráttu hans gegn yfirvöldum og áhrif þeirrar baráttu á framvindu verksins. Frásögn Innansveitarkroniku af Íslandi og Íslendingum staðfestir í flestu þá ímynd af landi og þjóð sem dregin eru upp innan hins svokallaða borealisma, eða í exótíseringu norðursins. Samkvæmt þeim hugmyndum er algengt að Ísland birtist sem staðnað í tíma og rúmi. Bæði Sumarliði Ísleifsson og Kristinn Schram hafa lýst því hvernig ímynd Íslendinga tengist ímynd villimannsins og hvernig víkingaminnið er notað í lýsingum á þjóðinni hvort sem það er í fornum heimildum eða ferðamannabæklingum úr samtímanum. Þessi ímyndafræði birtist okkur einnig í handritamálinu svokallaða þar sem dönsk og íslensk yfirvöld tókust á um eignarrétt á handritum fornbókmenntanna. Í Innansveitarkroniku er því ítrekað lýst hversu jaðarsettir dalsbúar eru og Ólafur bóndi á Hrísbrú staðfestir hugmyndir manna um stöðnun og villimennsku þegar hann grípur til vopna til þess að verja dýrlinginn Egil Skallagrímsson. Í fyrirlestrinum skoðum við víkingaminnið í verkinu, notkun þess og afleiðingar í samhengi við ímynd Íslands og Íslendinga í samtímanum.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningar um hreyfanleika menningarlegs minnis og þær settar í samhengi við hugmyndir um reimleikafræði til þess að kanna hvernig vofulegar minningar taka á sig áþreifanlega mynd í borgarrými. Í forgrunni verður bókin Reimleikar í Reykjavík (2013) sem er safn munnmælasagna um drauga í Reykjavík í samtímanum. Draugasögurnar veita ný sjónarhorn á minnisstaði og flækja merkingu bygginga, gatna og annarra rýma í Reykjavík, sem hafa visst gildi í menningarlegu minni. Minningar eru oft bundnar rými og háðar kortlagningu. Minnisvarðar eru reistir á stöðum til að heiðra minningar, og hversdagsleg rými, eins og heimili, hjálpa okkur að muna og verða að bakgrunni minninga okkar. Rými öðlast þannig merkingu og verður að merkingabærum stað í gegnum þær minningar og sögur sem því tengjast. Þær sögur og minningar eru marglaga, taka breytingum í tímans rás og ítreka að menningarlegt minni er aldrei kyrrstætt, heldur í stöðugri endurnýjun, endurskoðun og endurvinnslu. Draugasögurnar í Reimleikum í Reykjavík veita kjörið tækifæri til að kanna tengsl minnis og rýmis, þar sem reimleikar endurspegla gleymdar minningar og gefa tilkynna að menningarlegt minni einkennist samtímis og í grundvallaratriðum af því að muna og gleyma.
Eins og ýmsir fræðimenn hafa bent á er staðsetning minnismerkja mjög mikilvægur þáttur í þeirri virkni sem þau hafa í samfélaginu. Eru þau hluti af ímynd staðarins eða eru þau geymd í afskekktum kirkjugörðum og þar með allt að því ósýnileg í borgarlandslaginu? Helfararminnismerkið í Berlín er dæmi um þar sem staðsetning þess í hjarta borgarinnar er órjúfanlegur hluti af merkingu þess og virkni. Í þessum fyrirlestri verður skyggnst eftir minnismerkjum í Reykjavík um atburði seinni heimsstyrjaldarinnar og skoðað hvort staðsetning þeirra endurspegli og/eða ýti undir ákveðna afstöðu til stríðsins og sögulega vitund samfélagsins um þátt landsins í því. Minnismerki eru mikilvægur þáttur í þjóðarminni og þróun þeirra og breytingar á umliðinni öld verið viðfangsefni minnis- og menningarfræða. Hér verður því einnig litið til víðari skírskotana minnismerkja í Reykjavík og kannað hvernig þau kallast á við orðræðu minnisfræða á síðustu áratugum.

Fyrirlesturinn fellur niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Deila færslunni