Ofbeldi og tjáning í list og veruleika

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Er til einhver siðferðilega ábyrg leið til þess að miðla ofbeldisreynslu í list og veruleika? Hvar liggja mörk skáldskapar og sannleika? Hvernig axla menn ábyrgð á ofbeldi og miðla þeim skilningi? Í málstofunni verður fjallað um listina sem félagslegt stjórntæki, um siðferðileg mörk tjáningar og ábyrgðarferli. Meðal skálda sem skoðuð verða eru Byron lávarður og Karl Ove Knausgaard, en jafnframt verður velt upp spurningum um raunveruleg ábyrgðarferli þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum.

2017

Hvar
Hátíðasal Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Guðni Elísson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-17.00

Liggur listin handan góðs og ills? Er allt leyfilegt eða á að setja einhverjar siðferðislegar skorður á listræna tjáningu? Ef við leggjum áherslu á mikilvægi tjáningarfrelsis vakna upp spurningar um viðtökur á verkum sem gera út á að miðla „lifuðum raunveruleika“, auk þess sem spurning um sannleika og lygi á póstmódernískum tímum verða áleitnar. Hefur það hugsanlega víðtækari afleiðingar að halda þessum mörkum óljósum? Í fyrirlestrinum verður spurningum eins og þessum varpað upp og dæmi tekin frá fyrsta póstmóderníska rithöfundinum, bókmenntalegu súperstjörnunni Byroni lávarði sem gat öðrum fremur fléttað saman lífi og list með eftirminnilegum hætti.
Rithöfundurinn Karl Ove Knausgård hefur á stuttum tíma orðið einn þekktasti höfundur Norðmanna, þá einkum fyrir sjálfsævisögulegt verk sitt Min kamp sem kom út á árunum 2009-2011. Verk Knausgårds vakti mikla athygli, ekki aðeins fyrir lengd verksins, sem telur um 3600 blaðsíður, heldur einnig fyrir hversu nærri höfundurinn gekk sínu einkalífi og annarra. Margir sökuðu hann um að hafa nýtt vald sitt sem listamaður til þess að brjóta á viðföngum sínum í textanum auk þess sem hann var sakaður um ákveðin ofbeldisverk sem hann lýsir í bókunum. Í kjölfarið vöknuðu upp spurningar um hversu langt rithöfundar mega ganga án þess að vera dregnir til ábyrgðar þegar kemur að því að fjalla um raunverulega einstaklinga og atburði. Í fyrirlestrinum verða þessar spurningar skoðaðar út frá viðtökum Min kamp og velt verður vöngum yfir því hvort að listin sé ákveðnum takmörkum háð þegar raunveruleikinn er annars vegar.
Ofbeldi á heimilum tekur á sig ýmsar myndir, s. s. líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt og kynferðislegt ofbeldi og er í nær flestum tilvikum kynbundið. Talið er að á heimsvísu verði þriðja hver kona fyrir ofbeldi af hálfu maka eða þess sem hún býr með einhvern tímann á ævinni . Miðað við þetta er heimilið hættulegasti staður kvenna. Ísland er hér engin undantekning. Í þessu erindi verður kastljósinu beint að ábyrgð gerenda þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum. Hér verður einkum rætt um hvað felst í ábyrgð og að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Jafnframt verður dregið fram hvaða skilning gerendur leggja í ábyrgðarhugtakið og hvort að þeir upplifi sjálfan sig í hlutverki þess sem tekur ábyrgð á eigin gjörðum. Hér verður byggt á gögnum úr rannsókn á gerendum ofbeldis í nánum samböndum.
Málstofunni lýkur með pallborðsumræðum. Þátttakendur eru:
Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur hjá Heimspekistofnun, sem stjórnar umræðunni
Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og MA í ritstjórn og útgáfufræðum
Rannveig Sigurvinsdóttir, doktor í samfélagslegri sálfræði og nýdoktor við Sálfræðisvið HR.

Deila færslunni