Salka Valka í sviðsljósinu

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Salka Valka er eitt af lykilverkum Halldórs Laxness, fyrsta skáldsaga hans sem fullþroskaðs höfundar. Sagan er enn þann dag í dag mikils metin og talar inn í samtímann eins og nýleg leiksýning á fjölum Borgarleikhússins er glöggt dæmi um. Í málstofunni verður komið að Sölku Völku úr tveimur áttum. Annars vegar verður fjallað um tengsl sögunnar við skáldsögur eins athyglisverðasta skáldsagnahöfundar samtímans, Auðar Jónsdóttur. Hins vegar verður fjallað um það hvernig greina megi áhrif kaþólskrar menntunar höfundarins á formgerð og merkingarsköpun sögunnar þrátt fyrir að Halldór hafi gengið af trúnni áður en hann hófst handa við ritun Sölku Völku.

2017

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.00

Málstofustjóri:
Jón Yngvi Jóhannsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.00

Eins og kunnugt er hefur Auður Jónsdóttir gjarnan notað ævisögulegan efnivið í skáldsögur sínar en mótað að vild og fellt að lögmálum skáldskaparins. Í skáldsögum hennar má einnig sjá einstök tengsl við skáldskaparheim afa hennar, Halldórs Laxness, sérstaklega við skáldsögu hans Sölku Völku. Í erindinu verður fjallað um slík textatengsl og skoðað hvernig beinar og óbeinar vísanir í Sölku Völku koma fyrir í skáldsögum Auðar; hvernig þær dýpka frásögnina og auka henni merkingu. Vikið verður að hinum óljósu mörkum lífs og skáldlistar og hvernig ‘textaheimur’ og ‘raunheimur’ er samanslungnir í bókum Auðar.
Salka Valka er fyrsta verk Halldórs Laxness sem fullþroskaðs höfundar. Þegar hann hófst handa við ritun sögunnar hafði hann gengið af þeirri kaþólsku trú sem hann tók ungur og tekið afdráttarlausa trú á manninn eins og kemur skýrt fram í Alþýðubókinni sem kom út ári áður en fyrra bindi Sölku Völku birtist. Þótt trúskipti höfundarins hafi verið nokkuð afdráttarlaus á sviði hugmyndafræði og heimssýnar er ekki þar með sagt að hann hafi um leið sagt skilið við þann kaþólska lærdóm sem hann hafði viðað að sér. Í fyrirlestrinum verður sýnt fram á hvernig bygging Sölku Völku tekur mið af hefðum sem Halldór hafði tileinkað sér við lestur guðfræðilegra rita. Hinir tveir hlutar sögunnar reynast kallast á á svipaðan hátt og Gamla testamentið og Nýja testamentið í Biblíunni. Þegar tekið er tillit til þessa og sagan túlkuð á týpólógískan hátt koma í ljós mynstur sem gefa tilefni til að endurskoða heildartúlkun sögunnar.

Deila færslunni