Samfélagsheimspeki

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Í gegnum tíðina hafa mörg svið heimspekinnar annaðhvort hunsað eða gert lítið úr því hvernig sígild heimspekileg viðfangsefni eins og þekking, merking og manneðli eru undir áhrifum þeirra samfélaga sem við búum í. Þetta hefur breyst hratt á undanförnum áratugum, meðal annars með því að félagsþekkingarfræði, félagsverufræði og feminískri heimspeki hefur vaxið fiskur um hrygg. Í þessari málstofu verður fjallað um rannsóknir á þessum sviðum og öðrum þeim sem lýsa mætti sem „samfélagsheimspeki“.

Fyrirlestrar í málstofunni verða fjórir: Elmar Geir Unnsteinsson fjallar um eðli þöggunar út frá málspekilegum kenningum í anda Austins og Grice; Eyja Margrét Brynjarsdóttir fjallar um misskiptingu auðs og manneskjur sem gjaldmiðil; Finnur Dellsén fjallar um samfélagslegt gildi þess að einstaklingar myndi sér sjálfstæðar skoðanir og loks fjallar Gunnar Sigvaldason um það hvernig heimspekingar hafa gagnrýnt vöru- og markaðsvæðingu í samtímanum.

2017

Hvar
Stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.00-12.00

Málstofustjóri:
Elsa Haraldsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.00-12.00

Rae Langton og Jennifer Hornsby hafa sett fram umdeild og mjög umtöluð málfrelsisrök með því að dreifingu á klámi séu settar einhvers konar lagalegar skorður. Hugmyndin er sú að almenn dreifing og neysla kláms stuðli óhjákvæmilega að kerfisbundinni þöggun kvenna. Í þessu erindi beini ég sjónum að hugmyndinni um þöggun sem liggur þessum rökum til grundvallar, án þess að taka afstöðu til málfrelsisrakanna sem slíkra. Greint verður frá gagnrýni Ishanis Maitra í í grein hennar „Silencing Speech“ frá 2009. Maitra sýnir með sannfærandi hætti að ætlunarhyggjukenningar um merkingu sé miklu betur í stakk búnar til að útskýra þöggun heldur en hin Austiníska venjuhyggja sem Langton og Hornsby gera ráð fyrir. Ég tek undir þessa gagnrýni en færi síðan rök fyrir því að endurskoða þurfi nokkrar forsendur sem ætlunarhyggjusinnar eiga vanda til að gefa sér, ef gera á fullkomna grein fyrir eðli þöggunar. Sérstaklega þarf að huga að hugmyndum um einlægni málgjörðar og möguleika mælandans á raunverulegri sjálfsþekkingu, því oft fer kúgun og þöggun þannig fram að fórnarlambinu er talin trú um – t.d. af samfélagin – að mismununin sé eðlileg og réttmæt.
Á síðustu árum hefur athygli margra beinst að því að misskipting fjármuna og eigna víða um heim fer vaxandi. Þetta gildir bæði innan hinna ýmsu ríkja heimsins og á heimsvísu. Eitt af því sem misskipting hefur í för með sér er valdamisræmi: auðjöfrar geta náð miklum völdum en hinir snauðu verða valdalausir. Þannig verða hinir allslausu og skuldugu upp á aðra komnir og frelsi þeirra takmarkast eftir því. Skoðað verður hvernig valdaójafnvægið sem stafar af misskiptingunni stendur í sambandi við kaup og sölu á manneskjum, jafnt í óbeinum sem beinum skilningi, og því velt upp hvort valdamisræmið og misskiptingin séu nauðsynlegur liður í hagkerfinu, eins og sumar kenningar kveða á um.
Því er oft haldið fram að það sé mikilvægt að fólk myndi sér sjálfstæðar skoðanir. Einhverra hluta vegna þykir betra að gera upp hug sinn sjálfur en að fylgja fordæmi annarra í þeim efnum. Þó er ljóst að oft höfum við litla sem enga ástæðu til að halda að við séum líklegri en aðrir til að hafa rétt fyrir okkur. Almennt séð getur því ekki verið að gildi þess að mynda sér sjálfstæðar skoðanir liggi í því að hvert og eitt okkar sé þar með líklegra til að mynda sér réttar skoðanir. Í þessu erindi verða færð rök fyrir því að gildi sjálfstæðrar skoðanamyndunar liggi í því að samfélög fólks sem myndar sér sjálfstæðar skoðanir sé líklegra til að hafa rétt fyrir sér þegar það kemst að sameiginlegri niðurstöðu. Ein afleiðing þessa er að einstaklingar hafa engan ‘persónulegan hag’ af því að mynda sér skoðanir með sjálfstæðum hætti, en bera þó að vissu leyti samfélagslega skyldu til að gera það.
Almenn umræða um markaði hefur ekki verið umfangsmikil innan heimspeki en því fer þó víðs fjarri að hún hafi engin verið. Eitt af því sem nokkuð hefur verið rætt er hvar setja skuli mörk markaða, hvað sé siðferðilega leyfilegt að setja á markað og hvað megi gera að söluvöru. Í erindinu verða reifuð nokkur algeng rök gegn markaðs- og vöruvæðingu, til að mynda þau rök að markaðir skaði menn, brjóti á réttindum manna, séu vettvangur fyrir arðrán og spilli siðferði manna. Að sama skapi verður sú hugmynd rædd að allt sem megi gera ókeypis megi gera fyrir peninga. Reynt verður að sýna fram á að fyrrnefndu rökin gegn markaðs- og vöruvæðingu séu ef til vill ekki jafn sterk og við viljum oft vera láta og að síðarnefndu rökin hunsi mikilvægar ástæður fyrir því að varast suma markaðs- og vöruvæðingu.

Deila færslunni