Samspil setningafræði við þrenns konar merkingu

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Í þessari málstofu verður fjallað um samspil setningafræði við þrjár ólíkar tegundir merkingareiginleika mannlegs máls. Eitt erindið mun fjalla um hlutverk umræðusamhengis í túlkun og hvernig setningafræðilegt stigveldi ákvarðar hvernig umræðusamhengið er uppfært í huga málhafa eftir því sem samtali vindur fram. Annað erindi mun fjalla um forskeytið endur- í íslensku og beina sjónum annars vegar að merkingarlegu sviði (e. scope) og hins vegar að fyrirbærinu agnarinnlimun (e. particle incorporation). Í þriðja erindinu verður einblínt á hlutverk félagslegrar merkingar í breytilegri setningagerð. Þar verður kynnt rannsókn á þróun stílfærslu á þingferli Steingríms J. Sigfússonar og hún sett í samhengi við kenningar í félagsmálfræði um málmarkað og stílhliðrun.

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

2017

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.30-12.00

Málstofustjóri:
Anton Karl Ingason


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.30-12.00

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um það í hvaða röð málhafar bæta upplýsingum inn í sameiginlegan skilning sinn á samhengi samtals. Áhersla verður lögð á að skoða uppfærslu á samhengi innan einnar stigveldisformgerðar í setningu. Rök verða færð fyrir því að setningaliðir sem eru hærra í formgerðinni bætist við samhengi samtals á undan setningarliðum sem eru neðar í formgerðinni jafnvel þó að hærra settu setningarliðirnir séu bornir fram á eftir hinum lægri. Gögnin sem mestu máli skipta í erindinu byggjast á samanburði tilvísunarsetninga í ensku og íslensku annars vegar og kóresku og japönsku hins vegar. Þessi samanburður er áhugaverður vegna þess að setningafræðilegir hausar koma fremst í setningalið í fyrrnefndu málunum tveimur en seinast í þeim síðarnefndu. Niðurstöðurnar skipta máli fyrir kenningar sem hafa það að markmiði að skýra samband merkingarfræði og framvindu samtals.
Forskeytið endur- er athyglisvert frá sjónarhóli merkingarfræði og orðmyndunarfræði.

(1) Yfirvöld enduropnuðu svæðið.

Í (1) er endur– forskeyti sagnarinnar opna en engu að síður er merkingarlegt svið (e. scope) forskeytisins mjög takmarkað. Í (1) kann að vera að yfirvöld hafi þurft að loka tilteknu svæði vegna náttúruhamfara en svo opnað það síðar að nýju. Í setningunni felst þó ekki að yfirvöld hafi einhvern tímann áður opnað svæðið og raunar felst ekki í setningunni að það hafi nokkru sinni áður verið opnað. Í henni er aftur á móti sú merking fólgin að svæðið hafi verið opið áður.

Samspil endur– og agna er einnig eftirtektarvert.

(2) Lögmaðurinn segir tilefni til að taka upp / *upptaka málið að nýju.

(3) Lögmaðurinn segir tilefni til að ??endurtaka upp / endurupptaka málið.

Í germyndardæminu í (2) getur sögnin taka ekki innlimað ögnina upp. Þegar við bætum við forskeytinu endur– er innlimun agnarinnar aftur á móti skyldubundin eins og sýnt er í (3). Ég held því fram að þetta sé vegna þess að forskeytið endur– er grunnmyndað mjög neðarlega í formgerðinni. Þegar endur– færist og verður forskeyti sagnarinnar færist það framhjá ögninni og tekur hana með sér. Það tel ég að skýri bæði takmarkað merkingarsvið forskeytisins sem og agnarinnlimun. Greiningin sem sett er fram í fyrirlestrinum styður tilgátu Alecs Marantz um samspil sviðs forskeytisins re– og grunnmyndun þess í ensku.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um rannsókn á setningafræðibreytingum í máli Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990-2013. Breytan sem er til rannsóknar er stílfærsla (e. stylistic fronting) en notkun stílfærslu er yfirleitt tengd formlegu málsniði í íslensku. Stílfærslu má lýsa sem valfrjálsri færslu orðs eða liðar fremst í setningu með frumlagseyðu;

1. a) Maðurinn sem rannsóknina gerði er sniðugur. (stílfærsla)
b) Maðurinn sem gerði rannsóknina er sniðugur. (ekki stílfærsla)

Borin eru kennsl á aldurstengd málmynstur (Labov 1994; Wagner 2012) í átt að óformlegra málsniði sem rofna þegar tíðni stílfærslu eykst skyndilega í kringum efnahagshrunið árið 2008. Á þessu tímabili tekur Steingrímur, sem formaður Vinstri-Grænna, við embætti fjármálaráðherra og verður þar með opinberlega ábyrgur fyrir örlögum íslensks efnahags á miklum umrótartíma í þjóðfélaginu. Aukin tíðni stílfærslu á þessu tímabili er sett í samhengi við breytt gildi Steingríms á tungumálamarkaðnum (Linguistic Market Value) í skilningi Sankoff og Laberge (1978). Þessi tímabundna breyting þróast í gagnstæða átt þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-Grænna tapar meirihluta í þingkosningum árið 2013 og Steingrímur missir ráðherrastöðu ásamt því sem hann segir af sér sem formaður Vinstri-Grænna.

Þá er einnig gert grein fyrir tengslum aðstæðna og málsniðs (Bell, 1984; Labov 1972) með ólíkri tíðni stílfærslu í mismunandi gerðum þingræðna.

Rannsóknin er unnin út frá textaskrá sem inniheldur allar þingræður Steingríms á árunum 1990-2013. Nýnæmi er að slík rannsókn sé byggð á svo yfirgripsmiklum setningafræðigögnum sama einstaklings yfir langt tímabil sem gerir það að verkum að hægt er að fylgjast með setningafræðibreytingum í máli sama einstaklings í háskerpu. Þá eru gögnin unnin með hliðsjón af ítarlegri tímalínu yfir stjórnmálaferil Steingríms í viðleitni til að varpa ljósi á félagslega þætti og aðstæður sem mögulega áhrifavalda setningafræðibreytinga á lífsleiðinni.

Deila færslunni