Siðaskipti í sögu og samtíð. Þverfagleg málstofa á vegum 2017.is

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Guðfræðistofnun HÍ hleypti árið 2011 af stokkunum rannsóknarverkefni undir heitinu Siðaskipti í sögu og samtíð. Þverfræðilegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á íslenska kristni, samfélag og menningu. 2017.is er kynningarheiti verkefnisins. Á komandi hausti verður gefið út safn 20 ritrýndra ritgerða og markar útgáfan lok verkefnisins.

Í málstofunni verður fjallað um rannsóknarviðhorf og túlkunaráherslur sem að gagni koma við rannsóknir á siðaskiptum hér á landi en þau urðu með öðru móti en í fjölmennari og flóknari samfélögum þar sem siðbótar- og/eða siðaskiptahreyfingar uxu fram.

Þá verður brugðið upp þverskurði af þeim rannsóknum sem unnar hafa verið á vegum verkefnisins. Fjallað verður um lúthersk áhrif á fræðslu og menntun í stærðfræði eða reikningslist sem og túlkun á Tyrkjaráninu í ljósi lútherskrar söguskoðunar á 17. öld. Loks verða kynntar áherslur í framsækinni, lútherskri guðfræði á 21. öld með áherslu á kynferðislegan margbreytileika og mannréttindi.

Ævar Kjartansson stýrir umræðum.

2017

Hvar
Stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Hjalti Hugason


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-17.00

Í fyrirlestrinum verður fjallað um ríkjandi staðalmyndir af siðaskiptunum og afleiðingum þeirra í Íslenskri sögu. Þá verður gerð grein fyrir rannsóknum höfundarins í tengslum við verkefnið 2017.is. Einkum verður þar staldrað við hugarfarssögulegar rannsóknir. Ennfremur verður fjallað um samhengi og rof hugmynda, kirkjusiða, trúarhátta og tengra fyrirbæra á siðaskiptatímanum Loks verður fjallað um spurninguna hvort siðaskiptin á Íslandi geti talist bylting eða hvort fremur beri á líta á þau sem stigskipta langtímaþróun. Höfundur hallast nú að því að raunhæfast sé að lýsa þeim með orðinu seigfljótandi.
Kennslubækur í reikningi voru ekki prentaðar á Íslandi fyrr en um og eftir miðja 18. öld en uppskriftir gengu manna á milli af furðu góðum reikningsbókum rituðum samkvæmt alþjóðlegri hefð. Fjallað verður um reikningsbókarhandrit frá 18. öld, Arithmetica – Það er reikningslist. Það ber vott um áhrif frá kennslubókum í reikningi með dæmum biblíulegs efnis upprunnum á svæðum mótmælenda á 16. öld og 17. öld.

Arithmetica – það er reikningslist er varðveitt í handritinu ÍB 217 4°  og skiptist í þrjár bækur: um heilar tölur og reikniaðgerðir með þeim, (almenn) brot og hlutfallareikning í formi þríliðu. Handritið er skráð ritað um 1750 en efnið bendir til að það sé samið árið 1721. Ólíkt hagnýtum reikningsbókum er ekki að finna útskýringar í Arithmeticu – Það er reikningslist á mælieiningum og mynt, en leitast við að setja efnið fram á fræðilegan hátt. Arithmetica er sneydd tilvísun til íslensks samfélags og hlýtur að vera sniðin eftir erlendri fyrirmynd. Raktar verða tilgátur um slíkar fyrirmyndir.

„Eftir dauða sinn varð hann næstum því helgur maður í vitund þjóðarinnar, enda oft kallaður píslarvottur að kaþólskum sið.“ Svo skrifaði Kristján Eldjárn um séra Jón Þorsteinsson sem veginn var af ránsmönnum í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum 1627. En liðu menn ekki píslarvætti í lútherskum sið? Og hvað er píslarvætti? Hvernig gekk að undirbúa sig fyrir dauðann eins og boðað var að gera skyldi á þessum tíma? Í fyrirlestrinum er þessum spurningum svarað og hugað að því hvers vegna séra Ólafur Egilsson lifði af og hvor þeirra prestanna valdi góða hlutann.

Kristin siðfræði hefur oftlega verið gagnrýnd fyrir að standa vörð um hagsmuni forréttindahópa í samfélaginu fremur en að taka sér stöðu á jaðrinum með hinum útskúfuðu og brennimerktu. Í erindinu velti ég fyrir mér möguleikum lúthersk kristinnar siðfræði til að stíga á virkann hátt inn í veruleika hinsegin fólks, einkum þeirra sem jaðarsettir eru. Hvað hefur lúthersk orðræðuhefð fram að færa í þessu samhengi og ekki síður: hvað hefur mannréttindaorðræða hinseginfólks fram að færa sem auðgað getur lútherska siðfræðihefð? Geta þessir aðilar átt merkingarbært samtal – hvað geta þeir mögulega lært af hvor öðrum?

Deila færslunni