Sitt af hverju tagi – með hugrænni slagsíðu

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Fyrirlesarar í málstofunni eru bókmenntafræðingar og sálfræðingur og hafa allir tekið þátt í rannsóknarverkefni á samlíðan undanfarin þrjú ár, Samlíðan: mál, bókmenntir, samfélag, sem RANNÍS styrkir. Samlíðan ber því á góma hjá þeim öllum en bókmenntafræðingarnir víkja að fleiri þáttum sem skoðaðir hafa verið innan hugrænnar bókmenntafræði, ekki síst með hliðsjón af lesendum, t.d. skemum og ótrúverðugum sögumanni.

2017

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10 mars kl. 13.00-14.30

Undanfarin ár hefur teymi sálfræðinga, málfræðinga og bókmenntafræðinga við Háskóla Íslands unnið að rannsóknum á samlíðan og hvaða þættir tengjast henni. Í fyrirlestrinum verður farið yfir að hvaða marki niðurstöður sálfræðihluta verkefnisins hafa verið til samræmis eða gengið gegn erlendum rannsóknum. Ein rannsóknin fól til að mynda í sér að reyna að kalla ómeðvitað fram aukna samlíðan í úrtaki háskólanema með því að sýna myndband af þríhyrningum á hreyfingu en niðurstöður sýndu að samlíðan á meðal þátttakenda jókst tímabundið í kjölfar áhorfsins. Niðurstöður þessa rannsókna verða kynntar og ræddar í ljósi þekkingar um samlíðan innan sálfræði og bókmenntafræði og verður sérstakur gaumur gefinn að kynjamun í upplifun á samlíðan.
Í fyrirlestrinum verður greint frá helstu niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtökur við skáldsögunni Frá ljósi til ljóss (2001) eftir Vigdísi Grímsdóttur voru kannaðar og þá einkum tilfinningaviðbrögð fólks og samlíðan. Í rannsókninni var tekið hópviðtal við þátttakendur þar sem þeir komu saman og ræddu upplifun sína af bókinni. Meðal þess sem kom í ljós var að sumum fannst sagan vera falleg ástarsaga og tengdu hana við ævintýri en aðrir töldu hana vera hryllingssögu. Í erindinu verður gerð tilraun til að skýra þessi ólíku viðbrögð.
Sumum ljóðskáldum tekst að vekja með lesanda óöryggistilfinningu andspænis tungumálinu, ef ekki beinlínis sársauka. En hvernig fer lesandinn að því að lýsa slíkri reynslu þannig að það segi eitthvað almennt um ljóðalestur? Hvar duga aðferðir fræðanna til skýringa og hvar hrökkva þær ekki til? Það eru slíkar spurningar sem tekist verður á við í fyrirlestrinum. Nálesin verða ljóð úr bókinni Við sem erum blind og nafnlaus (2015) eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur og reynt að rekja hvernig tilfinningar og hugsanir lesanda kvikna. Sérstaklega verður hugað að þögn – í víðasta skilningi – en hún er ekki bara meðal tjáningaraðferða í ljóðum Öldu heldur þema sumra þeirra og ýfir því tilfinningar og ímyndunarafl lesanda á ýmsan hátt. Margaret H. Freeman hefur leitt rök að því að þögnin í ljóðum Emily Dickinson skapi nándina sem margir lesendur finna við lestur þeirra. Spurt verður hvort þögnin skipti tilfinningatjáningu ljóða ekki almennt enn meira máli en gert hefur verið ráð fyrir og leidd rök að því að hún eigi drjúgan þátt í að skapa óöryggið andspænis tungumálinu í ljóðum Öldu. Jafnframt verður sýnt hvernig þögnin og hið ósagða leggja sitt til þess að ljóðin vekja með lesanda jafnt umhugsun um þróunarsögu, samfélag/menningu og einstakling.

Deila færslunni