Sjúkdómar og dauði 1780–1880

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Læknavísindi námu land á Íslandi skömmu eftir miðja 18. öld en varð lítt ágengt í að minnsta kosti tæpa öld. Flestir sjúkdómar voru lítt viðráðanlegir og í raun illskiljanlegir. Þó tókst árin 1846-1848 að útrýma ginklofa í Vestmannaeyjum, sem áratugina á undan hafði orðið sjö af hverjum tíu börnum að aldurtila fáum dögum eftir fæðingu. Ekkert var hins gert til að berjast gegn barnsfararsótt og í raun meira púðri eytt í að eyða kláðamaur í sauðfé. Algengustu sjúkdómar fengu nánast sömu meðferð sem fólst í óljósri meðalagjöf í formi olíu, áburðar og dufts af ýmsum toga, að ógleymdri blóðtöku. Læknar í Danmörku voru íslenskum læknum vitaskuld fremri en urðu oftar en ekki að játa sig sigraða og vissu ýmist ekki hver sjúkdómurinn var sem hrjáði sjúklinginn eða hvaða brögðum ætti að beita við lækninguna.

2017

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Már Jónsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Víðast hvar í Evrópu, þar sem barnsfarasótt geisaði á 19. öld, kom hún mörgum sængurkonur í gröfina, jafnvel á opinberum fæðingarstofnunum. Dánartíðni sóttarinnar var gríðarleg. Enda þótt engin fæðingarstofnun væri á Íslandi, þar sem smit gat borist frá læknum og yfirsetukonum, nema í Vestmannaeyjum, átti sóttin eftir að geisa hér sem faraldur og dreifast hratt yfir ákveðin svæði í Ísafjarðarsýslu. Hennar varð fyrst vart í Skálavík utan Bolungarvíkur í byrjun júnímánaðar 1865. Faraldurinn stóð yfir í fimm mánuði. Í erindinu verður dregin upp mynd af því hvaða áhrif þessi skæða barnsfarasótt hafði, ekki aðeins í tölum heldur líka gagnvart heilbrigðisyfirvöldum.
Árið 1784 bauðst Sólveigu Árnadóttur úr Eyjafirði að fara í iðnnám til Danmerkur. Fyrsta árið var hún í Kaupmannahöfn og þurfti þá oft að dvelja á sjúkrastofnunum vegna alvarlegra veikinda, samanlagt í tæpa fimm mánuði. Töluvert af heimildum hefur varðveist í Danmörku vegna heilsuleysis Sólveigar, svo sem sjúkraskýrslur sem greina frá líkamsástandi hennar, lyfseðlar og reikningar sem upplýsa um þá meðferð sem hún fékk í sjúkralegunni. Margt er á huldu varðandi veikindi Sólveigar, þótt sjá megi í heimildum að hún var bæði meðhöndluð vegna kláðamaurs og bólusóttar. Í erindinu verður rýnt í tiltæk gögn með það að markmiði að skilja hver sjúkdómurinn var.
Sitthvað hefur verið skrifað um það hvernig danska lækninum Peter Schleisner tókst að útrýma ginklofa í Vestmanneyjum og tölur liggja fyrir um það hversu hátt hlutfall barna varð veikinni að bráð. Áhrif hins mikla ungbarnadauða á samfélag og menningu er aftur á móti órannsakað og verður í erindinu annars vegar fjallað um nokkur hjón sem urðu illa úti og hins vegar um það hvernig tókst að manna sveitarfélagið, þegar náttúrleg fjölgun var engin.

Deila færslunni