Skrælingjar, blámenn – og Íslendingar

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Í þessari málstofu verður fengist við sjálfsmyndir Íslendinga og hvernig þær hafa birst sögulega og í samtímanum. Þær verða settar í samhengi við það hvernig hefur verið fjallað um framandleikann hérlendis, m.a. svonefnda „blámenn“ og „skrælingja“, og hvernig orðræða um eiginleika Íslendinga hefur oft orðið öfgakennd, grótesk í þessu samhengi.

Í fyrsta erindinu verður rætt um jaðarsetningu og afmennskun svonefndra blámanna út frá nýlegum hugmyndum um frumkynþáttahyggju. Næst víkur sögunni að hugmyndum Íslendinga um Grænland og Grænlendinga, aðallega á 19. og 20. öld, og hvaða hlutverk hugmyndir um skrælingja gegndu í mótun sjálfsmynda Íslendinga. Loks segir af nokkrum gróteskum lýsingum Íslendingasagna á Íslendingum erlendis, á líkama þeirra og líkamspörtum jafnt sem hegðun í tilburðum og tungumáli.

Fundarstjóri er Heiða Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur.

2017

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.30-12.00

Málstofustjóri:
Sumarliði R. Ísleifsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.30-12.00

Ríkjandi skoðun í fræðunum hefur verið sú að kynþáttahyggja verði til á 19. öld með tilkomu kynþáttahugtaksins. Án þeirrar kerfisbundnu hugsunar sem flokkar mannkyn í ólíka kynþætti eftir uppruna og útlitslegum einkennum geti kynþáttahyggja ekki verið til. Síðustu ár hafa fræðimenn í auknum mæli tekið til skoðunar birtingarmyndir andstæðupars /okkar/og/hinna/ í bókmenntum fyrri alda og tekist á við þá staðreynd að lýsingar á þjóðflokkum sem talist hafa /framandi/ í augum Evrópumanna endurspegla sambærilega orðræðu og einkennir kynþáttahyggju nútímans. Sú kenning hefur því verið sett fram að kynþáttahyggja sé afleiðing hugrænna ferla sem sé einkennandi fyrir mannkyn á öllum tímum, fremur en að hún sé bundin þjóðernisrómantík og þjóðríkishugmyndum síðari alda. Í þessu ljósi verða birtingarmyndir blámanna í íslenskum miðaldaritum teknar til skoðunar og færð fyrir því rök að miður geðslegar lýsingar þeirra feli í sér frumkynþáttabundna hugsun (e. pre-racial thought).
Sjálfsmynd Íslendinga hefur um aldir verið nátengd hugmyndum landsmanna um Grænland. Í fyrirlestrinum verður rakið hvernig þessar hugmyndir hafa birst og hvað hefur einkennt þær, einkanlega á 19. og 20. öld. Voru þær einsleitar eða margbrotnar og hvernig tengdust þær breytingum á íslensku samfélagi á þessum tíma og áhrifum aukinnar þjóðernishyggju, kynþáttahyggju og nútímavæðingu. Spurt verður hvaða merkingu hugtakið „skrælingi“ hefur í þessu samhengi og hvernig notkun þess breyttist þegar leið á 20. öld. Jafnframt verður hugað að því hvort og hvernig afstaða Íslendinga til Grænlands og Grænlendinga tók breytingum á ofanverðri 20. öld og hvers eðlis þær voru.
Íslendingurinn í Íslendingasögum er karlkyns. „Eigi ann ég Íslandi,“ segir Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdælu og vill fara utan með Kjartani sem þangað fer til að styrkja sjálfsmynd sína sem Íslendings og karlmanns, meðan hún, eins og aðrar „Íslendinga konur” situr föst í kvenhlutverkinu heima, á vissan hátt táknmynd fyrir landið sjálft, bíðandi eftir hetjunni heim. Í fyrirlestrinum verður hugað að merkingu orðanna Íslendingur og íslenskur í Íslendingasögum og hverju þau tengjast í lýsingum þeirra á Íslendingum erlendis, þar sem þeir kynna sig gjarnan kokhraustir með þjóðerni á undan nafni, aðhlátursefni við hirðir þjóðhöfðingja um leið og frásögnin beinir sjónum að gróteskum líkama þeirra og líkamspörtum jafnt sem afbrigðilegheitum í tilburðum og tungumáli, eins og t.a.m. kvennafari og skáldskap. Af sögum sem teknar verða fyrir má nefna skáldasögurnar Gunnlaugssögu, Hallfreðarsögu, Kormákssögu, Fóstbræðrasögu, Grettissögu og Egilssögu, en einnig þættina um Þorstein skelk, Auðun vestfirska og Þórarin Nefjólfsson.

Deila færslunni