Skynvísi og rökvísi – skapandi og greinandi hugsun

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Viðfangsefni málstofunnar er sambandið á milli skynvísi og rökvísi, skapandi og greinandi hugsunar. Samspil rökhugsunar, skynjunar, og ytri veruleika hefur verið hluti af viðfangsefni heimspekinnar frá upphafi. Í málstofunni verður leitast við að skoða þetta samspil út frá sjónarhornum sem ganga þvert á fræðasvið og varpa þannig nýju ljósi á sígilt viðfangsefni; samspil rökhugsunar og skynjunar í þeirri mynd sem við gerum okkur af heiminum. Fjallað verður um möguleika myndlistar til að greina og fjalla um þetta samspil, og eins verður fjallað um siðskynjun (e. moral/ethical perception), og aðra þætti þessa ferlis. Í málstofunni verður lögð áhersla á mikilvægi þess að nálgast þekkingu á veruleikanum á þverfaglegan hátt þar sem fræðasviði skynvísinnar; listum, og fræðasviði rökvísinnar; vísindum, er gert jafn hátt undir höfði.

2017

Hvar
Stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Þorvarður Árnason


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Í erindinu verður rýnt í tengsl hugtakanna landslag og líkami. Þessi tengsl birtast m.a. í því hvernig sérkenni í landslaginu eru nefnd eftir líkamspörtum, eins og fyrirbærin öxl, háls, enni og nef/nes í landslagi eru dæmi um. Önnur áhugaverð tenging landslagshugtaksins við líkamann birtist í þeirri staðreynd að í fyrstu dæmum um orðið landslag í íslenskum fornritum var það skrifað landsleg, sem skapar hugrenningatengsl við fæðingu og dauða – allir líkamar koma úr legi í upphafi lífs síns og fá svo legstað við lok þess. Í erindinu verður leitað svara við því í hverju þessi tengsl á milli líffæra og líkamshluta og hugmynda okkar um landslag gætu hugsanlega falist, m.a. með því að rýna í rannsóknir sænska fyrirbærafræðingsins Jonnu Bornemark á fyrirbærafræði þungunar. Með því að skoða hugtökin landslag og líkami í ljósi hvers annars og kenninga innan fyrirbærafræðinnar verður varpað ljósi á hvernig þessi sýnilegu og áþreifanlegu fyrirbæri fela einnig í sér ósýnileg setlög skynjaðrar þekkingar sem mikilvægt er að veita frekari athygli.
Siðskynjun (e. moral perception) hefur í auknum mæli verið viðfangsefni siðfræðinga og annarra heimspekinga á undanförnum árum (sjá t.d. Audi 2013, Cullison 2009, Döring 2007, Haji, 2010). Robert Audi (2015) og Dustin Stokes (2014) hafa báðir fært rök fyrir því að siðskynjun og skynjun okkar á listaverkum sé nægilega hliðstæð, til þess að draga megi sameiginlegan lærdóm af þessum ferlum um tengsl innihalds skynjunar, og þeirrar þekkingar og reynslu sem áhorfandinn býr yfir þegar skynjunin á sér stað. Stokes og Audi greinir þó á um hvaða afleiðingar þessi samlestur á fagurfræðilegri skynjun, og siðskynjun hefur, þegar kemur að því að gera grein fyrir skynjanlegum eiginleikum annarsvegar, og innihaldi skynjunar hinsvegar. Í fyrirlestrinum byrja ég á því að gera grein fyrir ágreiningsefnum þeirra Stokes og Audi. Ég skoða sérstaklega hugmyndina um vitsmuna áhrif (e. cognitive penetration), og færi rök fyrir því að nánari skoðun á fagurfræðilegri skynjun, geti gefið vísbendingar um hvernig best væri að leiða ágreining þeirra Stokes og Audi til lykta. Að endingu velti ég upp spurningum um það hvaða almennar afleiðingar það hefur að líta svo á að innihald skynjunar okkar verði fyrir áhrifum af vitsmunum okkar.
Í erindinu er gerð grein fyrir hlutmiðaðri verufræði, nýlegri kenningu innan heimspekinnar sem felur í sér að allt er skilgreint sem hlutur. Upphafsmenn hennar færa rök fyrir því að orsakasamhengi eigi sér stað í vídd skynjunar og að fagurfræði sé frumspeki. Hlutir skynja hvern annan og eiga í samskiptum á þeim grunni og þannig á ævintýrið sér stað – orsakasamhengi hlutanna. Hlutmiðuð verufræði reynir að takast á við raunveruleikann í heild, ekki bara sem nálgun við mennska vitund. Þar fléttast inn þær furður sem skammtafræði birtir okkur og vekja upp spurningar um grunneðli veruleikans þar sem orsakalögmálið hefur nokkuð aðra merkingu en venjulega er talið.

Hlutmiðaðir verufræðingar sjá samhljóm með þesari mótsagnakenndu hegðun smæstu eininga alheimsins og þeirri aðferðafræði listarinnar að skoða hlutina í samhengi sínu á forsendum fagurfræði og skynjunar, rannsaka þá rétt einsog vísindin, en búa þar fyrir utan yfir frelsi til ákveðinnar órökvísi, ef svo mætti segja. Rökvísi sem er á sviði skynjunar eða öllu heldur skynvísi sem er óstaðbundin, ótímasett, óefniskennd og skapandi.

Deila færslunni