Staða uppljóstrarans: Snowden í siðferðilegu, pólitísku og lagalegu samhengi

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Uppljóstranir Edwards Snowden, sem fletti ofan af ólöglegu eftirliti bandarísku Öryggisþjónustunnar NSA með bandarískum ríkisborgurum, hefur vakið fjölmargar spurningar um eðli uppljóstrana af þessu tagi og stöðu uppljóstrarans. Snowden er ýmist lýst sem siðferðishetju eða siðlausum svikara, pólítískar afleiðingar uppljóstrana hans eru sagðar hörmulegar – fyrir Bandaríkjamenn – mikilvægar fyrir frjáls samfélög og allt þar á milli. Ekki síður er deilt um lagalega stöðu hans – ekki síst í ljósi þess að hann hefur leitað skjóls hjá aðalóvininum í Rússlandi. Í málstofunni verður fjallað um togstreituna sem mál Snowdens vekur, jafnt upphafningu hans sem fordæmingu og reynt að skilja afleiðingar uppljóstrana hans.

2017

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 16.00-17.30

Málstofustjóri:
Jón Ólafsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 16.00-17.30

Samvinna Edwards Snowdens við Lauru Poitras og Glenn Greenwald ber ýmis merki þess sem nefnt hefur verið „borgaraleg (eða þegnleg) óhlýðni“ (Civil Disobedience). Snowden hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að hann beri virðingu fyrir og vilji styrkja stofnanir hins borgaralega samfélags, en hinsvegar sé nauðsynlegt í réttlátu samfélagi að borgararnir hafi eðlilegt eftirlit með og vitneskju um hvernig stjórnvöld haga starfsemi sinni sem á jú fyrst og fremst að vera í þágu almannahagsmuna. En mörg önnur einkenni gagnaleka Snowdens benda til djúpstæðari og róttækari gagnrýni á stjórnskipan og pólitískar hefðir vestræns samfélags, jafnvel til andófs gegn pólitísku valdi langt umfram það sem borgaraleg óhlýðni felur í sér. Í fyrirlestrinum er fjallað um togstreituna á milli virðingar við lög og stofnanir annars vegar og róttæks andófs gegn pólitískum stofnunum vestrænna samfélaga sem birtist í uppljóstrunum Snowdens.
Gagnalekar og uppljóstranir hafa á síðustu árum haft mikil áhrif í ýmsum löndum. Má nefna Panamaskjölin, sem leiddu til afsagnar forsætisráðherra Íslands og birtingu Wikileaks á stóru safni tölvupósta frá fólki í forystu Demókrataflokksins á lokametrum kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Í þessum tveimur tilfellum var haldið á málum með afar ólíkum hætti. Engu að síður vöknuðu siðferðilegar spurningar, pólitískar deilur og ásakanir um áróður og óeðlilega íhlutun í stjórnmálin í báðum tilfellum. Í kjölfar tölvupóstslekans hefur einnig komið til ágreinings milli Wikileaks og Edwards Snowden um aðferðafræði í meðferð stórra gagnasafna sem snýst um það að hvaða marki þeim sem fá slík gögn í hendur til birtingar beri að “ritstýra” þeim. Gagnrýni Snowdens og fleiri í garð Wikileaks beinist að því að opna fyrir aðgang að miklu magni tölvupósta og skjala sem í sumum tilvikum innihalda persónuupplýsingar fjölda fólks sem ekki á með beinum hætti nokkurn þátt í því sem virðist hafa átt að fletta ofan af með lekanum. Þessi mál verða rædd og spurt; hver er ábyrgð þeirra sem birta slík gögn á þeim afleiðingunum sem birtingin kann að hafa fyrir einstaklinga og samfélög og til hvaða sjónarmiða uppljóstrar ættu að horfa í sambandi við slíkar ákvarðanir.
Afhjúpanir Edward Snowdens sýndu fram á stórfellda söfnun vissra ríkja á persónuupplýsingum borgara sinna og annara landa, en ríkin áttu einnig í samstarfi sín á milli til að efla eftirlit, upplýsingasöfnun og til komast framhjá lagalegum hindrunum. Uppljóstranir Snowdens sýndu fram á gagnsöfnun sem fór langt út fyrir lög, bæði stjórnarskrárvarin réttindi og réttindi bundin í alþjóðlega mannréttindasáttmála. Þegar samfélagssáttmáli á milli borgara og ríkis er rofinn, þegar gengið er inn á friðhelgi einkalífs fólks og traust á ríkisstofnunum er á botninum, hvaða afleiðingar hefur það í för með sér fyrir heildar kerfisöryggið, bæði innan einstakra landa og á alþjóðavísu? Hvaða afleiðingar getur það haft á lýðræðislega þátttöku?

Deila færslunni