Staðleysur

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni er fjallað um staðleysuna frá þremur mismunandi sjónarhornum: sjónarhorni húmanismans, sjónarhorni tungumálsins og sjónarhorni guðfræðinnar. Útópía Tómasar More, nýorðin 500 ára, verður fyrirferðamikil í málstofunni en þó ekki einráð.

2017

Hvar
Stofu 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Viðar Pálsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Fyrir fimm hundruð árum kynnti enski húmanistinn Tómas More hugtakið útópíu í samnefndu riti. Staðleysan var honum hugleikin í samhengi stjórnmálalegrar og siðfræðilegrar gagnrýni á eigin samtíma og samfélag, en þó hefur sá misskilningur brunnið við að Tómas lýsi í Útópíu samfélagi sem hann hafi sjálfur talið fullkomið. Í erindinu verður vikið að hugmynd Tómasar um staðleysuna, af hvaða rótum hún er runnin og hvaða hlutverki hún þjónar í stjórnspeki hans. Í því samhengi verða kennsl borin á nokkur megineinkenni stjórnspeki hans sem helst má ætla að rati yfir tíma og rúm og eigi enn erindi við nútímalesendur.
Orðið var fyrst sett saman af Tómasi More. Virðist það geta merkt tvennt, eftir því hvort fyrri hluti þess er túlkaður sem gríska neitunin /ou /eða forskeytið /eu- /(vel-).Útópía er því annaðhvort staðleysa eða góður staður. Strax í fyrstu útgáfu verksinsvar bæði gefið í skyn að lærðari lesendur gætu séð í hendi sér „að eyjan væri hvergi“ og að það væri réttnefni að kalla hana „Eutopie: a place of felicity“. Tvíræðnin er því jafngömul verkinu. Síðari túlkunin hefur orðið ofan á þegar orðið er notað í nútímamálum, enda kemur forskeytið /eu/- víða fyrir í latneskum tökuoðum úr grísku. Aðra sögu er að segja um forskeytið /ou/- sem sést nær hvergi. Gríska á algengt forskeyti (/a-/) sem Tómas notar óspart sjálfur við nýyrðasmíð. Hvaðan kemur þá forskeytið /ou-/ og af hverju notar Tómas það? Hefur hann einhverja fyrirmynd í huga?
Hugtökin útópía (staðleysa) og eskatólógía (kenningin um hina síðustu tíma) eru notuð í misjöfnu samhengi og hafa víðtæka skírskotun. Það á sérstaklega við um staðleysuhugtakið sem notað er í bókmenntafræði, guðfræði, heimspeki, stjórnmálafræði og almennt innan hugvísinda. Þetta hugtak hefur þar að auki náð töluverðri útbreiðslu, meðal annars í daglegu tali fólks. Þar er útópían lögð að jöfnu við einhvers konar fyrirmyndarríki sem samfélagið leitast við að verða. Þessi „víða“ notkun sljóvgar merkingu þess. Annað á við um hugtakið eskatólógía. Það er öllu sértækara og hefur ekki náð að festa rætur utan guðfræðilegrar umræðu. Vandinn við hugtakið eskatólógía birtist meðal annars í spurningunni um það hvernig eigi að skilgreina tengslin milli spámannlegrar opinberunar og trúarlegrar vonar. Hugtökin eskatólógía og útópía verða skoðuð nánar hér erindinu, ekki síst í ljósi sambandsins þeirra á milli.

Deila færslunni