Þverfaglegar nálganir á landslag

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um landslag, merkingu þess og mikilvægi, út frá fjölbreyttum sjónarhornum og nálgunum. Landslag er marglaga hugtak sem kallar ákaft eftir því að vera rannsakað á þverfaglegan hátt. Til að svara þessu kalli og hugleiða það nánar koma í málstofunni saman rannsakendur af sviðum heimspeki, mannfræði, myndlistar, fornleifafræði, bókmenntafræði, landfræði, hönnunar og náttúru- og umhverfisfræði. Í málstofunni verður þverfaglega tilraunaverkefnið „Landslag og þátttaka“ kynnt og rætt. Verkefnið er samstarf rannsakenda af ólíkum fræðasviðum þar sem markmiðið er að stuðla að aukinni þátttöku almennings í ákvörðunum er varða umhverfis- og skipulagsmál með landslag og gildi þess í forgrunni. Einnig verður fjallað um fleiri verkefni tengd landslagi og sambandi manns og umhverfis, auk þess sem mikilvægi þverfaglegrar samvinnu verður rætt í víðu samhengi.

2017

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.00-14.30

Málstofustjóri:
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.00-12.00

Landslag er margvítt fyrirbæri sem vísar í senn til raunheimsins í kringum okkur og til hugarheimsins innra með okkur; landslag fyrirfinnst ávallt á mörkum þessara tveggja heima eða kannski öllu heldur þar sem þeir renna saman. Landslag á sér enn fremur langa rannsóknarsögu í mjög mörgum ólíkum greinum vísinda og lista. Landslag virðist því vera einkar gott dæmi um viðfangsefni sem æskilegast væri – og jafnvel óhjákvæmilegt – að rannsaka með þverfaglegum hætti. Í erindinu verður leitast við að skýra hvað einkennir þverfaglegar rannsóknir og hvernig best sé að hugsa tengsl þeirra við (ein)faglegar rannsóknir. Jafnframt verður hugað að því hvort sum viðfangsefni kalli frekar á þverfaglegar nálganir en önnur. Að lokum verður rætt um stöðu þverfaglegra rannsókna og kennslu á Íslandi og hvort við höfum í raun og veru burði til að sinna þverfaglegum viðfangsefnum sem skyldi.
Meðhöfundur: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir nýdoktor í heimspeki

Evrópusamningur um landslag var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2012, en hefur enn ekki verið fullgiltur. Í honum er landslag skilgreint sem tengsl hinnar mannlegu skynjunar og þess umhverfis sem skynjað er. Af því leiðir mikil áhersla á mikilvægi þátttöku almennings í skipulagsákvörðunum sem varða landslag. Í skipulagsmálum hér á landi hefur til nokkurs tíma verið uppi gagnrýni um skort á samráði við íbúa um ákvarðanir sem varða umhverfi þeirra. Almenningur hefur þannig kallað eftir aukinni þátttöku sem hefur leitt til þess að nú sjást ýmis merki um viðleitni til breyttrar stefnu í þessum málum. Einnig hefur verið gagnrýnt hversu lítið tilliti hefur verið tekið til huglægra þátta er varða skynjun og upplifun fólks á umhverfi sínu. Þróun á síðustu misserum, sem sjá má meðal annars í 3. áfanga Rammaáætlunar og nýjum náttúruverndarlögum, sýnir að þessum þáttum hefur verið gert hærra undir höfði, í gegnum landslagshugtakið. Í Evrópusamningnum um landslag er þátttaka fólks í skipulagsákvörðunum og skynjun á umhverfi þess tengt órjúfanlegum böndum. Þessa tengingu hefur skort hér á landi, og því er markmið verkefnisins Landslag og þátttaka að nýta landslagshugtakið sem verkfæri til að stuðla að lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Í erindinu kynna Gunndís og Helga fyrstu skrefin í samvinnu sinni innan ramma rannsóknarverkefnisins Landslag og þátttaka. Þær velta fyrir sér landslagi sem þrívíðu rými fyrir þátttöku almennings í skipulagsvinnu. Í þessum fyrstu skrefum hafa komið fram ýmis lykilhugtök sem þær nota sem burðarstólpa vinnu sinnar, svo sem samvinna, félagstengsl, atbeini (agency) og valdefling.

Hvernig er samvinnu íbúa tiltekins svæðis/sveitar um framtíð landslagsins sem það býr í (Kjósin) háttað; hvaða félagstengsl innan svæðisins skipta máli og á hvaða hátt; hverjar eru hugmyndir íbúanna um atbeina (agency) í að móta líf sitt og umhverfi; hvaða valdefling getur á sér stað innan skipulagsvinnunnar séu hugmyndir um „þátttöku“ víkkaðar út í átt til „samvinnu“ (collaboration)?

Einnig eru notuð hugtökin sjálfsmynd (identity), kóðun og flokkun og frásögn/saga (storytelling). Síðast en ekki síst velta þær fyrir sér hugtakinu sjálfbærni og hvort og þá hvernig það birtist í huga þeirra sem vinna skipulagsvinnuna annars vegar og hins vegar almennings – íbúanna – í landslaginu sem Kjósin er og hvernig öll þessi hugtök mynda eina heild, bæði í góðu og illu, í hinu marglaga og margslungna landslagi.

Lögum samkvæmt eru fornleifar friðaðar. Þannig teygja þær sig inn í hið ókomna og geta haft áhrif á skipulag landslags til framtíðar. Hvað gerist þegar takast þarf á við ólíka póla fortíðar og framtíðar? Í fyrirlestrinum verða ólík sjónarhorn fornleifafræði og vöruhönnunar til umræðu. Velt verður upp spurningum um hvort og þá hvernig íbúar tengist stöðum gegnum minjar og menningarsögu og hvort þessir þættir hafi áhrif á mat þeirra á gildi landslags. Landslagshugtakið verður skoðað með hliðsjón af myndlíkingu ævisögunnar og rýnt í hvernig hægt sé að byggja á fortíðinni í hönnunarferli.

11. mars kl. 13.00-14.30

Sá árangur sem náðst hefur í Icelandic Saga Map verkefninu upp á síðkastið er sá að það hefur verið bætt við hnitsettum textum nokkurra ferðabóka frá 19. öldinni. Þær ferðabækur eru eftir Frederick Metcalfe (The Oxonian in Iceland, gefin út 1861), William Morris (Dagbækur úr ferðalögum árið 1871 & 1873) og W. G. Collingwood (Pilgrimage to the Sagasteads of Iceland, gefin út 1899). GIS-aðferðum var beitt til að byggja upp sjónræna yfirsýn, ekki síst til að geta séð hvert slóðir þessara sagnapílagríma lágu. Annað markmið var að hugsa um hvernig þessir menn brugðust við landslaginu, hvort sem á svipaðan eða mismunandi hátt. Fjallað verður um aðferðafræðina og bráðabirgðaniðurstöður.
Landslag er óreiða, efnisleg og óefnisleg sem að tekur á sig margbreytilegar birtingarmyndir í gegnum flókin tengsl hins mennska og hins ómennska. Þessi fyrirlestur gerir grein fyrir þessum tengslum með því að fylgja göngufólki á hannaðri gönguleið sem var sett saman með það fyrir augum að tengja göngumenn við veruleika sem átti sér stað 100 árum áður en gangan var farin. Sá veruleiki var ferðalag Þórbergs Þórðarsonar þegar hann yfirgaf skip í Norðurfirði á Ströndum og gekk til Reykjavíkur. Sjálfur skrifaði Þórbergur um þetta ferðalag sitt í Íslenskum aðli og Bréfi til Láru en þó eru upplýsingar sem birtast þar brotakenndar, óljósar, ímyndaðar og jafnvel skáldaðar, eða óreiðukenndar líkt og landslagið sjálft. Með því að fylgja göngumönnum á þessari fyrirfram hönnuðu gönguleið 100 árum síðar mun ég leggja áherslu á landslagið sem ferðast er um sem hreyfiafl sem tekur beinan þátt í áframhaldandi hönnun gönguleiðarinnar vegna óreiðunnar sem það er og sýna hvernig það opnar fyrir leiðir inn í áður óbirta veruleika sem að í óreiðunni felast.
Meðhöfundar Paul Cloke, College of Life and Environmental Sciences, University of Exeter og Claus Vögele, Institute for Health and Behaviour, Research Unit INSIDE, University of Luxembourg

Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna möguleika útivistar í náttúruríku landslagi til að losa streitu og skapa vellíðan umfram aðrar þekktar frístundaathafnir í manngerðu umhverfi og rannsaka hlutverk umhverfis og hugarfars í þeim breytingum. Rannsóknin er þverfagleg. Gerð var samanburðarrannsókn á lífeðlisfræðilegum og sálrænum áhrifum þess að: (1) ganga um náttúruríkt útivistarsvæði; (2) sitja inni og horfa á sjónvarpið; (3) ganga á göngubretti í líkamsræktarstöð. Áhrif á streitu og líðan voru síðan rannsökuð með tilliti til samhengisáhrifa (e. context effect) þar sem lífeðlisfræðileg viðbrögð (t.d. cortisol) og fyrirbærafræðileg túlkun á upplifun á vettvangi (e. lived experience) voru rannsökuð samhliða. Í rannsókninni komu fram sterkar vísbendingar um samhengisáhrif sem gefa til kynna að stresslosun eigi sér stað í ákveðnum aðstæðum/samhengi. Í erindinu verða niðurstöður kynntar.

Deila færslunni