Þýðingar í tíma og rúmi

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan fjallar um þýðingar og ferðalög þeirra á ýmsum tímabilum sögunnar frá fjölbreyttum sjónarhornum. Litið verður á þýðingahefð germanskra mála meðal annars með því að skoða þýðingar þessarar ættkvíslar og velt verður vöngum yfir uppruna íslenskra miðaldakvæða. Þá verða þýðingar á þýðingum í ferðabókum skoðaðar út frá þönkum um ferðalag texta og tungumála. Að lokum verður ein þýðing á nítjándu aldar texta skoðuð með vísan til tímans sem liðið hefur frá því að textinn var saminn og hann þýddur á íslensku.

2017

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.30-12.00

Málstofustjóri:
Gauti Kristmannsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 10.30-12.00

Bókmenntir hafa alla tíð ferðast milli landa og tungumála. Í þessu erindi verður litið á germanska þýðingahefð alveg frá þeim tíma er hún hófst hjá Gotum og fram eftir öldum. Sérstaklega verður litið til þróunarinnar í germönskum málum, en einnig litið á snertipunkta hennar við önnur mál. Þýðingahugtakið verður skoðað í samhengi við ferðalög um langa vegu yfir löng tímabil og spurningunni velt upp, hvað er hvers lenskt og hvað ekki.
Skrif ferðabóka byggir iðulega á lestri og endurritun. Ferðabækur einkennast því í ríkum mæli af textatengslum. Hins vegar leggja höfundar enga áherslu á að gera þessi tengsl sýnileg, þvert á móti eru þau oftar en ekki falin. Þar af leiðir að ákveðinn vandi í þýðingum snýst um þýðingar á þýðingum eða í víðari skilningi um endurritun endurritunar.
Í erindinu verða tekin dæmi úr Ferðabók Tómasar Sæmundssonar sem byggir á ýmsan hátt á öðrum textum og miðar þar að auki við klassíska menntun 19. aldar. Einnig miðlar Tómas hagnýtri þekkingu úr nýjustu tækni og vísindum samtímans sem hann sækir í bækur og önnur rit en einnig í fyrirlestra, samtöl og leiðsögn. Endurritunaraðferðir hans eru því af ýmsum toga en heimildirnar ekki alltaf auðþekkjanlegar. Rætt verður einnig um þann vanda að þýða á það tungumál (þ.e. á þýsku) sem upphaflegu heimildir höfundar voru á en þó með tæplega 200 ára millibili.
Rúnar Helgi Vignisson hefur nýverið þýtt hina kunnu sögu Hermans Melville, „Bartleby, the Scrivener“. Sagan kom fyrst út árið 1853 og því stendur þýðandi frammi fyrir því að þýða tímann ef svo má segja. Rúnar Helgi mun gera grein fyrir sögunni og fjalla um þau álitamál sem hann
stóð frammi fyrir við að þýða þetta gamalt verk. Bæði málin hafa breyst talsvert á þessum tíma, sem og bókmennta- og þýðingahefðin. Hvernig brúar þýðandi það bil? Á hann að þýða á mál /Pilts og stúlku/ eftir Jón Thoroddsen, samtíðarmann Melvilles? Rúnar Helgi spyr um tryggð þýðandans við frumtextann og skoðar leiðir sem honum standa til boða við þessar aðstæður. Getur verk þýðandans orðið annað en endurritun frumtextans í þessu tilfelli? Og hvað verður þá um upplifun lesandans af því?

Deila færslunni