Tjáskipti og tungumálanám

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Hér verður víða komið við á sviði kennslu erlends tungumáls. Hinu fræðilega og alvarlega verða gerð skil í útlistun á málfræðilegum pælingum. Orðaforðinn eins og hann birtist í tvímála orðabók fær sína umfjöllun, bæði hvað varðar notkunargildi og kosti. Enn fremur verður fjallað um notkun tungumálsins í munnlegri tjáningu og lifandi samskiptum.

2017

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Eyjólfur Már Sigurðsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10 mars kl. 13.00-14.30

Í fyrirlestrinum ætla ég að segja frá ákveðinni stefnu í merkingarfræði sem nefnist á ensku „procedural semantics“. Samkvæmt henni væri hlutverk málfræðilegra morfema, svo sem tíðarendinga í sagnorðum eða ákveðins greinis í nafnorðum, svipað hlutverki smáorða eða upphrópunarorða. Þau benda hlustandanum (eða lesandanum) á ákveðnar leiðir til að túlka erindið. Sagt verður frá af hverju þessi kenning var upprunalega sett upp, á hverju hún byggist og hvernig hún þróast. En áhersla í fyrirlestrinum verður líka lögð á það hvernig þessi kenning gæti nýst okkur tungumálakennurum til að hjálpa nemendum okkar að nota málfræðileg morfem rétt.
Í þessu erindi mun ég segja frá tilraunaverkefni sem var unnið síðastliðið haust. Um var að ræða samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Frá Háskóla Íslands voru tveir þátttakendur: María Anna Garðarsdóttir, kennari í íslensku sem öðru máli og Ásta Ingibjartsdóttir, kennari í frönsku fyrir erlenda nemendur. Markmiðið var að nota leiklist í kennslu íslensku fyrir framhaldskólanemendur sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Verkefnið náði yfir tvo hópa með mismikla kunnáttu og þjálfun í íslensku. Vinnan stóð yfir í þrettán vikur og endaði með stuttri sýningu hjá báðum hópunum.
Tvímála orðabækur eru eitt af nauðsynlegum tækjum tungumálanáms og mikilvægt að nemendur hafi aðgang að tvímála orðabókum þar sem móðurmál þeirra sjálfra er annað málanna. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í gegnum þriðja tungumálið til að nálgast orðaforða erlenda tungumálsins. Eina íslensk-franska orðabókin sem til er í dag kom út árið 1950 og er löngu orðin úreld en um þessar mundir er unnið er að nýrri íslensk-franskri veforðabók sem verður í opnum aðgangi. Orðabókin byggir á nýjum íslenskum orðabókargrunni sem unninn var hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur að geyma tæplega fimmtíu þúsund uppflettiorð. Auk fjölda notkunardæma inniheldur veforðabókin um tíu þúsund orðasambönd, þar á meðal svokallaðar orðastæður sem ná gjarnan yfir algeng fyrirbæri og daglegar athafnir t.d. sterkt kaffi og sofa yfir sig og algengar samskiptaformúlur á borð við góðan dag og takk fyrir síðast sem eru órjúfanlegur hluti af daglegu máli.

Í erindinu verður skoðað hvað tvímála orðabók, með íslensku sem viðfangsmál og erlent tungumál sem markmál, þarf að hafa til að bera svo hún megi gagnast nemendum sem best við að tjá sig á erlenda tungumálinu.

Deila færslunni