Töfrasystur svo í hring, svífa fold og lög í kring – um þýðingar Matthíasar Jochumssonar

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan mun fjalla um þrjá þætti þýðingarfræði. Í öllum tilfellum verður Matthías Jochumsson og verk hans efniviður erindanna. Í fyrsta lagi verða sálmaþýðingar Matthíasar skoðaðar frá sjónarhóli þýðingafræðikenninga sem leggja áherslu á samfélagsþætti í þýðingum Þá verður samanburðarþýðing tekin fyrir og fjallað um þýðingu Matthíasar á Óþelló eftir Shakespeare og hún borin saman við nýja þýðingu Hallgríms Helgasonar. Að lokum verður fjallað um vélþýðingar á verkum Matthíasar og þeirri spurningu varpað fram hvort hægt sé að vélþýða bókmenntir?

Málstofustjóri verður Gauti Kristmannsson prófessor í þýðingafræðum.

2017

Hvar
Stofu 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Ingibjörg Þórisdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-16.30

Vélþýðingar eru staðreynd í heiminum í dag. Hversu útbreiddar þær eiga eftir að verða á eftir að koma í ljós. Útbreiðsla vélþýðinga eða skortur á útbreiðslu þeirra t.d. fyrir íslensku gæti haft áhrif á framtíð íslenskunnar og mótað framtíð margra smærri tungumála heimsins. Það er því ljóst að vélþýðingar verða ekki lengur virtar að vettugi svo vel sé, heldur verður að taka mark á þeim og gera sér grein fyrir því að þær eru þegar í notkun og þegar til sölu á markaði. Heimurinn er farinn að nota Google translate allan sólarhringinn hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Þessi fyrirlestur segir frá tilraunum við að vélþýða íslenska þjóðsönginn yfir á ensku og einnig er vélþýtt brot úr leikritinu Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson. Fjallað er um vélþýðingar almennt og hvort þær henti til bókmenntaþýðinga.

Í erindinu verður fjallað stuttlega um tvær þýðingar á Óþelló eftir Williams Shakespeare. Sú fyrri eftir Matthías Jochumsson er frá árinu 1876 og sú síðari eftir Hallgrím Helgason er gerð 2016. Á þessum 140 árum sem líða á milli þýðinganna er gríðarleg breyting á íslensku samfélagi og íslenskri tungu. Áhugavert er að vita hvernig sú breyting lýsir sér í þýðingunni. Tekin verða fyrir dæmi svo hægt sé að glöggva sig á þessum mun. Svo kann að vera að textinn verði skiljanlegri með árunum eða með öðrum orðum síður ljóðrænn en leikvænlegri. Að auki er áhugavert að líta á þýðingarnar út frá því ljósi að sú fyrri er sjálfsprottin af þýðanda en sú síðari er gerð að beiðni leikhússins. Hægt er að spyrja í framhaldinu, fyrir hvern er textinn, þýðandann til að spreyta sig á honum, áhorfendur svo þeir skilji hann betur eða leikarann svo hann ná túlkuninni sem best?
Yfirskrift erindisins er tilvitnun í „Lýs, milda ljós“, þýðingu séra Matthíasar Jochumssonar á sálmi eftir kardinálann John Henry Newman, „Lead, kindly light“. Séra Matthías var örlátur á sálma sína við fleiri en þjóðkirkjuna og átti m.a. nafnlausar þýðingar í fyrstu sálmabók kaþólska safnaðarins á Íslandi og undir nafni í sálmabók Fríkirkjunnar 1924, sem kom reyndar út eftir dauða hans. Í erindinu verða þýðingar hans skoðaðar með hliðsjón af vali á sálmum til þýðingar, markhópi innan ólíkra kirkjudeilda og ævisögulegum atriðum, en séra Matthías var löngum litinn hornauga innan íslensku þjóðkirkjunnar vegna frjálslyndis síns í trúmálum og sakaður um únitarisma.

Deila færslunni