Trú og myndlist

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Umræðuefni málstofunnar eru trúarleg þemu í íslenskri myndlist í nútíma og samtíma. Trúarleg og andleg málefni hafa verið nátengd sköpun myndlistar frá örófi alda. Með nútímanum dró úr þeirri tengingu en þó hafa trúarleg og andleg málefni enn verið listamönnum hugleikin. Í málstofunni koma sérfræðingar í guðfræði og listfræði til með að ræða stöðu þessara tengsla í verkum íslenskra listamanna undanfarna öld og hvernig myndlistin bregst við þeim áskorunum sem trúin er í heimi nútímamannsins.

Fundarstjóri: Æsa Sigurjónsdóttir

Myndin er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur

2017

Hvar
Stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.00

Málstofustjóri:
Hlynur Helgason


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 13.00-14.00

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) var einn ástsælasti myndlistarmaður Íslendinga á 20. öldinni. Þráin til að skapa myndlist virðist hafa verið honum í blóð borin og hann braust úr sárri fátækt við óhagstæðar aðstæður til mennta í list sinni og við ævilok var hann í augum margra landa sinna hinn eini sanni myndlistamaður á Íslandi, enda reistu þeir glæsilegt hús til sýningahalds og kenndu við hann. Grunnmenntun sína sótti hann til Konunglegur listaakademíunnar í Kaupmannahöfn, en hann var sífellt að endurnýja sig í listsköpun sinni og fór margar námsferðir til útlanda til að kynna sér hina ýmsu strauma og stefnur í nútímalist og svo vann hann úr þeim og aðlagaði að sínum eigin stíl og stefnu sem ekki var á eina bókina lærð. Í þessu erindi verður fjallað um hið andlega í listsköpun hans, eða skírskotanir hans í handanveruleika, annan heim, en segja má að í list hans renni raunheimur og íslensk náttúra saman við annan heim trúar og tákna af ýmsu tagi. Hann vann ekki mörg verk sérstaklega fyrir kirkjur og söfnuði frekar en margir aðrir nútíma listamenn, en víða má sjá andlegar verur í list hans úr heimi íslenskra og klassískra þjóðtrúar og goðsagna. Aðall hans var einnig að gefa náttúrunni líf og liti sem áttu sér hljómgrunn í þjóðtrú Íslendinga og tilfinningu fyrir náttúrunni. Fjallað verður um fagurfræði Kjarvals sem lét sér ekkert íslenskt óviðkomandi, hvorki hvað varðar náttúru, landslag eða mannlíf og gerð verður grein fyrir því sem kalla mætti andlegan veruleika (spirituality) í listsköpun hans.
Kristín Gunnlaugsdóttir var búin að skipa sér sess sem virtur málari þegar hún ákvað að snúa við blaðinu, breyta um stíl og umhverfa eigin myndlist. Hún nýtti sér snemma á ferlinum það frelsi sem nýja málverkið leiddi af sér, þá viðurkenningu að það hæfði samtímalistinni að leita fanga í list fyrri tíma. Kristín sótti áhrif sín og menntun í hefðir kristinnar myndgerðar fyrri alda, til listamanna frumendurreisnar og íkonamálara miðalda. Þetta nýtti hún sér sem efnivið og fyrirmyndir í þau verk sem hún varð hvað þekktust fyrir. Í nýrri verkum kveður hins vegar við annan tón; í stað rólegra og fallegra ímynda í stíl við trúarleg málverk fyrri tíma koma gróf form og frumstæðar aðferðir sem rekja má til hugmynda expressjónismans. Í sumum nýrri verka sinna nýtir Kristín sér aðferðir íkonamálverks til að skapa verk sem eru andhverfa íkona — í stað háleitrar hyllingar er komin pólítísk áhersla á kvenlíkamann; í stað hinnar hreinu vísunar í heilaga guðsmóður sem runnin var úr ranni íkonahefðarinnar er komin konan sem kynvera táknuð með píku sinni. Þessar nýju myndir eru unnar með aðferðum íkonagerðar þótt myndefnið sé ólíkt þeirri hugmyndafræði sem íkonar byggja á — það er á þeim grunni sem það er áhugavert að skoða þessi verk Kristínar í ljósi sögulegrar hefðar myndbrots, íkonóklasma, sem einskonar „ókon“.

Deila færslunni