Við dýrin: Um landbúnað og þróun, eðli og atferli manna og málleysingja

In Málstofur 2017 by Margrét Guðmundsdóttir

Samlífi manna og annarra dýra á sér ævaforna sögu en hefur tekið miklum stakkaskiptum í heiminum á undanförnum áratugum samfara mannfjöldasprengingu, iðnvæðingu og aukinni velmegun. Á sama tíma hefur fjöldi rannsókna varpað nýju ljósi á þróun, eðli og atferli dýra, greind þeirra, sársaukaskyn, gagnkvæm tengsl þeirra við umhverfi sitt og aðrar tegundir, fyrir utan rannsóknir sem sýnt hafa fram á náinn skyldleika manna og annarra dýrategunda.

Í málstofunni verður fjallað um nokkrar þeirra spurninga sem nýjar aðstæður í landbúnaði og ný vísindaleg þekking vekur. Meðal annars verður spurt um hvernig eigi að hugsa landbúnað á komandi öld, hvaða gildi liggi dýraeldi til grundvallar og hvað sé eðlilegt atferli þegar dýr eiga í hlut.

2017

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Jón Ásgeir Kalmansson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-17.00

Strax í upphafi Íslandsbyggðar komust menn að því að sá frumbyggi sem hér hafði ríkt, melrakkinn, hafði svipaðar fæðuvenjur og mannfólkið. Melrakkar þóttu snemma skæðir keppinautar um veiðibráð, fugl, egg og jafnvel búfénað enda lærðu þeir snemma að mannfólkinu fylgdi ýmislegt matarkyns. Í fyrstu lögum landsins voru því ákvæði um að bændur ættu að drepa refi, ættu þeir fé á vetrarfóðrum. Ef bóndi færi ekki að lögum þessum félli á hann sekt og skyldi hún að hluta til nýtt til greiðslu fyrir verkið, til þess sem ynni það að hendi. Þessi greiðsla var kölluð dýratollur og var hún í gildi í nokkur hundruð ár eða allt þar til stofnuð voru sveitafélög sem tóku við ábyrgð refaveiða af bændum. Áfram féll þó til kostnaður vegna framkvæmdar refaveiða og því má segja að refatollur þessi hafi verið innheimtur áfram, bara á annan hátt. Ákvæði um refaveiðar hafa alltaf verið bundin í lög og eru ennþá. Markmiðin hafa ekki alltaf verið skýr og ekki rýnt í árangurinn en talsvert hefur það kostað. Áherslubreytingar í hvatningu til refaveiða gætu endurspeglað einhverjar sveiflur í stofnstærð melrakka en ekki síður sveiflur í hagkerfinu. Allt eins er líklegt að önnur áhersla hafi verið á veiðar vegna meintrar skaðsemi á tímum harðræðis en þeim tímabilum þegar hægt var að fá gott verð fyrir refaskinn. Samband mannsins og melrakkans hefur því sveiflast frá því að vera hrein og klár samkeppni og afrán til þess að vera til hagsbóta og jafnvel ríkulega launað. Veiðiálag hefur því ekki alltaf verið í takt við tjón á búfé heldur kannski stundum vegna þess að veiðar hafi skilað góðum hagnaði. Lögin hafa líka tekið breytingum og náð allt frá útrýmingu til friðunar á tiltölulega skömmum tíma. Sveiflur í hitastigi, framræsla votlendis, ræktun lands og skóga, þverun fjarða og fljóta hefur haft sín áhrif á það umhverfi sem refurinn býr í og þær auðlindir sem dýrunum eru nauðsynlegar til að lifa af. Stofnbreytingar hafa verið tengdar umhverfisbreytingum hér sem annarsstaðar á norðlægum slóðum. Stiklað verður á stóru um samband manns og melrakka í sögulegu samhengi – sitt sýnist hverjum.
Í lögum um dýravernd frá árinu 2013 er það nýlunda að talað sé um húsdýr, gæludýr og tilraunadýr sem skyni gæddar verur og eru það vissulega miklar framfarir. Í lögunum og reglugerðum sem þeim fylgir er einnig sagt að þau eigi rétt að fá að njóta síns eðlilega atferlis og þörfum þeirra sé fullnægt. Margar spurningar vakna í þessu samhengi. Eru rannsóknir á líðan dýranna þarna að baki? Hvaða þarfir er verið að tala um? Eru það einungis grunnþarfir eins og að hafa smá rými til að geta hreyft sig og teygt úr sér ? Eða er ætlunin að koma líka til móts við þarfir svo sem að eiga val um fæðu og félagslegar þarfir, eins og að fá að vera með öðrum sem þeim líkar við og vera með afkvæmum sínum? Hætt er við að reglugerðir miði lítið við þarfir dýranna út frá þeirra eðlilega atferli sem þau sýna þegar þau eru í hópum í náttúrulegu umhverfi. Texti laganna er því villandi. Líka má spyrja hvort mismunandi tegundir séu jafnréttháar. Hestar virðast eiga að hafa meira pláss en aðrar tegundir. Hvers vegna ? Rætt verður stuttlega um aðbúnað hesta á húsi og spáð í við hvernig aðstæður þeim ætti að líða tiltölulega vel bæði innan og utandyra. Stuðst er við reynslu og niðurstöður rannsókna höfundar undanfarin 20 ár og fjölda samverkafólks á félagshegðun hesta hér á landi í mismunandi hópum. Þar kom m.a. fram að samsetning hópanna m.t.t. aldursdreifingar og fleiri þátta skiptir máli upp á hvernig hestunum líður sem endurspeglast m.a. í árásargirni innan hópanna.
Skoðanir eru mjög skiptar um hvernig sé skynsamlegt að haga landbúnaði í nútíð og framtíð. Hluti af þeim ágreiningi varðar ólíka siðferðilega sýn á eðli og grundvöll landbúnaðar. Á hvaða megin gildum byggist landbúnaður? Er landbúnaður í aðalatriðum eins og hver annar iðnaður sem er knúinn áfram af kröfum um aukna framleiðni, hagkvæmni og tækni? Eða er landbúnaður í eðli sínu „kúltúr-grein”, það er atvinnuvegur þar sem gildi ræktunar og umönnunar eru í fyrirrúmi? Inn í umræður um slíkar spurningar blandast þættir á borð við mannfjölgun, tækniþróun og markaðsvæðingu, en einnig gömul og ný sjónarmið um gildi jarðarinnar og landbúnaðarsamfélagsins, og sjálfbærni. Í fyrirlestrinum mun ég skoða hugmyndir um siðferðilegan anda landbúnaðar og spyrja hvort fornar hugmyndir um þetta efni fái staðist nú á dögum.
Í fyrirlestrinum mun ég í fyrsta lagi rekja sameiginlegan uppruna
manna og annarra dýra og ræða almennt skyldleika lífvera og lífsforma, en jafnframt hvað aðgreinir einingar og hópa (t.d. tegundir). Í öðru lagi mun ég skoða þennan breytileika með tilliti til uppsprettu verðmæta sem felast í þróun lífsins og margháttuðum tengslum lífsforma. Að lokum mun ég skoða hvað við vitum um veruleika og tengslaheim dýranna í ljósi ofangreinds, og á hvern hátt við getum nýtt þekkingu okkar til að móta sameigilega sýn á þau gildi sem þar skipta máli og hjálpað okkur þannig að móta samlíf okkar dýranna með viðunandi hætti.

Deila færslunni