Vistfræði og saga tungumála á Vestur-Norðurlöndum

In Málstofur 2017 by Elín Björk Jóhannsdóttir

Aðstæður sem tungumál á Vestur-Norðurlöndum búa við eru þversagnakenndar vegna þess að þær eru í senn einfaldar og flóknar. Þær eru einfaldar vegna þess að formgerð tungumálanna og söguleg þróun þeirra eru vel þekktar. Þær eru flóknar vegna þess að tungumálin hafa haft áhrif hvert á annað á margvíslegan hátt í tímans rás. Sem dæmi má nefna að íslenska og færeyska hafa orðið fyrir áhrifum af norsku; norska, færeyska og íslenska af dönsku – og þar fram eftir götunum. Að auki hafa latnesk, (lág)þýsk og ensk áhrif gegnsýrt málin á ýmsa vegu og það hefur enn ekki verið kannað til hlítar á öllum sviðum málfræðinnar. Í þessari málstofu verður brugðið upp svipmyndum af „vistfræði“ (e. ecology) tungumála á Vestur-Norðurlöndum, svo að notað sé orðalag málvísindamannsins Einars Haugen. Í því samhengi verður fjallað um Vestur-Norðurlönd sem „málsvæði“ (e. language area), sem er annað hugtak sem Haugen notaði til að lýsa sambandi málanna sem þar eru töluð. Enn fremur verður íslensk, færeysk og meginlandsnorræn málmenning skoðuð sem og tengsl vesturnorrænu málanna við dönsku. Loks verður sérstaklega hugað að lykilatriðum í málfræði færeysku, sem á vissan hátt myndar brú milli íslensku og norrænu málanna á meginlandinu.

Ingunn Hreinberg Indriðadóttir doktorsnemi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

2017

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.00

Málstofustjóri:
Þórhallur Eyþórsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Norðurlönd eru oft tekin sem dæmi um „málsvæði“ (e. language area) í þeim skilningi sem t.d. Einar Haugen (1982) og Stig Eliasson (2002) leggja í hugtakið. Þó skortir talsvert á um kerfisbundnar rannsóknir á þessari tilgátu og ljóst er að nauðsyn er á nákvæmri könnun til að sannreyna hana. Slík könnun fæli í sér umfangsmikla gagnaöflun og greiningu norrænna tungumála í samtíð og sögu og þrátt fyrir allt starf málfræðinga hefur það verk aðeins að nokkru leyti verið unnið. Þar sem rannsóknasviðið er risavaxið er þessum fyrirlestri fyrst og fremst ætlað að gefa yfirlit yfir þau viðfangsefni sem eru fyrirliggjandi og sýna með dæmum nokkur meginatriði í beygingar- og setningafræði í vestur-norrænum málum. Þetta eru atriði eins og beyging og setningarstaða sagna og fallmörkun nafnliða sem eru borin saman og könnuð með tilliti til útbreiðslu þeirra. Hið fræðilega markmið sem leiðir af þessari viðleitni er að prófa þá tilgátu að Vestur-Norðurlönd – og raunar Norðurlönd í heild – séu málsvæði í ofangreindum skilningi.
Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þróun fallmörkunar í færeysku eins og hún birtist í færeysku danskvæðunum. Sjónum verður einkum beint að þolfallsfrumlögum (með sögnum eins og droyma, lysta og skorta) og eignarfallsandlögum (með sögnum eins og hevna, njóta og vitja) og tilbrigðum í fallmörkun sem þeim tengjast. Sýnt verður með dæmum að það eru margar samsvaranir í þróun fallmörkunar í færeysku og íslensku, t.d. að því er varðar mun á einstökum sögnum í sama flokki og hegðun fornafna vs. fullra nafnliða.
Saga íslensku sagnarinnar kvíða er nokkuð sérstök. Í sögu málsins hefur hún lengstum verið veikrar beygingar en er nú sterkbeygð, yfirleitt þó ekki nútíð eintölu. Í nútíðarmáli er hún jöfnum höndum persónuleg sögn sem ópersónuleg. Sögnin getur verið áhrifssögn en getur líka tekið með sér forsetningu og er algengust sem slík. Forsetningin er nú alltaf fyrir, kvíða fyrir e-u. Lengstum var hún þó við, kvíða við e-u. Sögnin á sér systur í færeysku, kvíða.

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að nokkrum þáttum í setningafræðilegri hegðun sagnanna í málunum tveimur enda eiga þær ýmislegt sameiginlegt þótt margt greini þær að.

10. mars kl. 15.00-16.00

Ég mun velta því fyrir mér í ljósi kenninga Heinz Kloss og fleiri um tilurð tungumála og mállýskna (díalekta), hvernig íslenska, færeyska og „meginlandsnorræna“ urðu til sem aðgreind tungumál. Er aðskilnaðurinn byggður á formþróun, þannig að til hafi orðið formgreind málafbrigði (þ. Abstandsdialekte, Abstandssprachen), eða eru menningarlegir kraftar mikilvægari, þannig að rétt sé að tala um „uppbyggð mál“ (þ. Ausbausprachen)? Og gildir hið sama um öll málin? Hver er t.d. munurinn (ef einhver) á íslenskri og færeyskri málmenningu?
Færeyjar, Noregur og Ísland urðu hluti af dansk-norska konungsríkinu í lok fjórtándu aldar. Samband Noregs og Danmerkur stóð til 1814, en Danmerkur og Íslands til 1944. Langvarandi tengsl og samskipti skapaði danskri tungu smám saman sérstöðu í löndunum þremur. Heimildir sýna að eðli tungumálatengslanna voru þó afar ólík í löndunum þremur og áhrif dönskunnar þar af leiðandi af ólíkum toga og mismikil.
Í fyrirlestrinum verða tekin nokkur dæmi um ólíkt hlutverk og stöðu danskrar tungu í löndunum þremur og hvernig eðli tungumálatengslanna hafði áhrif á stöðu og hlutverk færeysku, íslensku og norsku. Þá verður vikið að áhrifum dönsku á málin þrjú og mismunandi viðhorfum Dana og heimamanna til tungumálanna þriggja.

Deila færslunni