Vitnisburður kvæða frá því fyrir ritöld

In Málstofur 2017 by Eiríkur Smári Sigurðarson

Gömul kvæði geyma heimildir um málefni og málfar frá því fyrir ritöld en ýmis vandkvæði fylgja notkun þeirra sem fjallað er um í tveimur fyrirlestrum.  Eðli málsins samkvæmt eru kvæðin ekki varðveitt í samtímauppskriftum og meðal margra spurninga er hvort treysta megi því að kvæðin séu gömul. Önnur spurning snýst um hvernig og hvort megi nota  bragreglur til að átta sig á framburði og sú þriðja hvort nota megi málfarsbreytingar til að átta sig á aldri kvæðanna. Fyrirlesarar fjalla um þessi efni frá mismunandi sjónarhornum.

2017

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.00

Málstofustjóri:
Þorgeir Sigurðsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.00

Í fræðiritum Finns Jónssonar eru nefnd um 50 kvæði, varðveitt að hluta eða í heild, sem Finnur taldi að væru ort fyrir kristnitöku. Kveðskapur þessi er varðveittur í handritum frá 13. öld og síðar. Sumir fræðimenn hafa gert því skóna að þessi kvæði séu fyrst og fremst heimildir um viðhorf lærðra Íslendinga á 13. öld. Ég held því í staðinn fram að flest þessi kvæði séu sannarlega ort fyrir 1000 og hafi varðveist nógu vel til að nýtast sem sannar samtímaheimildir um heiðinn tíma. Þrjú kvæði verða skoðuð sérstaklega: Vellekla, Völuspá og Ragnarsdrápa.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um fornensku sögnina truwian ‘treysta’ og skyldar sagnir í öðrum forngermönskum málum. Í handbókum og fræðilegri umræðu er ýmist gert ráð fyrir að sögnin hafi stutt eða langt u í rót og er ritun hennar í samræmi við það: truwian eða trūwian. Einnig er mismunandi hvernig stofnmynd hennar er endurgerð fyrir frumgermönsku, þ.e. *trū-ǣ-, *truw-ǣ- eða *trūw-ǣ- (viðskeytið er einnig endurgert með öðrum hætti). Til að komast að hinu sanna um lengd u-sins í fornensku verða öll kveðskapardæmi um sögnina athuguð út frá bragfræðikenningum Sievers. Einnig verður vitnisburður annarra germanskra mála kannaður. Loks verða orðsifjar sagnarinnar rannsakaðar og hún síðan endurgerð fyrir frumgermönsku. Í rannsóknum af þessu tagi kemur notagildi bragfræði Sievers berlega í ljós.

Deila færslunni