Átök í þýðingum: hertaka, vald og óþýðanleikinn

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Eins og nafnið bendir til hverfist málstofan um átakafleti sem tengjast þýðingum, hvernig þýðingar snúast frekar um átök en hugtök á borð við tryggð og trúnað. Fjallað verður um viðbætur og yfirgang í þýðingum sem tæki til að ná valdi yfir efni sem annars gæti talist ill- eða óþýðanlegt.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.00-12.00

Málstofustjóri:
Gauti Kristmannsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 10.00-12.00

Hugmyndir um óþýðanleikann hafa verið töluvert á kreiki eftir útkomu bókar Emily Apter Against World Literature: on the Politics of Untranslatability þar sem hún setur fram kenningar um að hugvísindadeildir háskóla samtímans, einkum bókmenntafræðin, hafi gefið of mikið eftir af gildissviðum sínum til greina á borð við þýðingafræða og menningarfræða. Þar með hafi hún misst mikilvægan hluta inntaks síns og notar hugtakið „óþýðanleiki“ til að skýra hvers vegna bókmenntafræði (e. comparative literature) eigi fremur erindi en hinar fræðigreinarnar sem ekki hafi það fræðilega bakbein sem hún hefur. Erindið fer yfir kost og löst á þessum kenningum.

Austurríkismaðurinn Jósef Calasanz Poestion (1853-1922) var afkastamikill höfundur og þýðandi. Meðal þýðinga hans úr íslensku var sagan Piltur og stúlka eftir Jón Thóroddsen. Fyrsta þýska útgáfan birtist 1883 í Berlín en frá 1884 til 1900 komu út fleiri hjá hinu áhrifamikla Philipp Reclam forlagi í Leipzig. Poestion þýddi einnig ævintýri, ljóð og margt annað úr íslensku en skrifaði bækur og margar greinar um íslenska sögu og menningu.

Það vekur athygli að þýðandinn Poestion notaði fjölda hliðartexta svo sem tileinkanir, formála, eftirmála, neðanmálsgreinar, aftanmálsgreinar o.s.frv. í þýðingum sínum. Í erindinu verður skoðað hvert hlutverk þessara viðbóta er og hvernig megi túlka þá staðreynd að þýðandinn bætir frekar í þá með árunum en að draga úr þeim. Gerard Genette kallaði hliðartexta hjáverkið sem fylgir bókum. Í tilfelli austuríska þýðandans má halda því fram að svokölluðu hjáverkin verða það umfangsmikil að athygli lesandans færist auðveldlega frá þýdda textanum yfir á þá. Þungamiðjan virðist liggja í þeim frekar en eiginlega marktextunum. Hvernig má túlka þessa þýðingastefnu?

Tungumálið tjáir hugmyndir sem berast á milli með þýðingum, hugmyndir sem hafa bein áhrif á líf okkar, og hafa ólíkar þýðingaðferðir áhrif á þessar hugmyndir. Í erindinu ætla ég að rýna í hvernig Jorge Luis Borges þýddi Sérherbergi og Orlandó eftir Virginiu Woolf. Við fyrstu sýn má ætla að breytingar hans á verkunum megi rekja til ólíkra birtingarmynda kynjanna í spænsku og ensku, en við nánari athugun kemur í ljós að svo er ekki. Borges notar úrfellingar og þýðir ekki kvenkyns persónufornöfn þegar svo á við heldur vísar beint í nafn söguhetjunnar, auk þess að grípa til aðlaganna og ómarkaða kynsins. Breytingarnar gera það að verkum að femínísk gagnrýni á kynjakerfið er skrifuð úr verkunum sem ýtir undir þá tilgátu að Borges hafi beitt verkin hugmyndafræðilegu ofbeldi.

Franski rithöfundurinn Raymond Queneau verður kynntur og sagt frá bók hans Exercices de styles eða Stílæfingar. Þessi sérstaka bók hefur að geyma 99 tilbrigði af sömu sögunni. Rætt verður um fjölbreytilegan stíl í köflum bókarinnar og hvernig hægt er að koma ótrúlegustu stílbrögðum og leikjum Queneaus til skila á öðrum málum t.d. á íslensku. Sýnd verða dæmi og sagt frá glímunni við þýðingu bókarinnar.

Deila færslunni