Bandaríska bylgjan

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í upphafi nítjándu aldar verða áhyggjur af vaxandi áhrifum Bandaríkjanna áberandi meðal menntaðrar yfirstéttar Evrópu. Bandaríkin voru álitin ógn við rótgróna evrópska hámenningu og þeim lýst sem tákngervingi hins nýja iðnvædda aldarháttar þar sem allt var fjöldaframleitt í verksmiðjum fyrir fjöldann. Þessi ímynd Bandaríkjanna hefur reynst lífsseig en um leið taka aðrar hugmyndir að breiðast út á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Bandarískir rithöfundar slá í gegn á heimsvísu og á tímum seinni heimstyrjaldarinnar ala bandarísk stjórnvöld á þeirri ímynd að þau séu bjargvættir evrópskrar lýðræðishefðar og frjálsra lista.

Í málstofunni verður hin þversagnakennda ímynd Bandaríkjanna krufin og skoðað með hvaða hætti fjallað er um bandaríska list og menningu í íslensku samhengi. Horft verður á landnám bandarískra bókmennta og kynningu á bandarískri nútímalist á Íslandi, rýnt verður í hasarblöð og teiknimyndasögur og bandarískir hermenn skoðaðir í hómóerótísku ljósi. Eins verður horft vestur um haf þar sem íslensk miðaldarit verða hluti bandarískrar dægurmenningar.

Jón Karl Helgason kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum í fyrri hluta málstofunnar en Haukur Ingvarsson í seinna hluta hennar.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Haukur Ingvarsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Um miðbik tuttugustu aldar setti þýtt bandarískt efni umtalsverðan svip á íslenskan bókmenntaheim. Skyggnst verður í þennan innflutning á árabilinu 1930 til 1960 og spurt um tímanna tákn. Einkum verður litið til bókamarkaðarins (þótt hann sé á þessum tíma raunar nátengdur líflegri bókmenntaflóru í blöðum og tímaritum) og áhersla lögð á skáldsöguna og einstakar (undir)greinar hennar, jafnframt því sem vikið verður að áberandi höfundum og verkum og reynt að meta hvað gerist þegar þau eru endurrituð á nýju máli, inn í aðra menningu. Eins verður spurt að hve miklu leyti sú starfsemi tengist öðrum innflutningi bandarískrar mennningar, einkum kvikmynda. Á umræddu tímabili eru þýdd samtímaverk en einnig verk frá fyrri tímum og flóran er fjölskrúðug: James Fenimore Cooper, Louisa M. Alcott, Edgar Rice Burroughs, Ernest Hemingway, James M. Cain, Pearl S. Buck, John Steinbeck og Richard Wright, svo nokkrir höfundar séu nefndir
Í erindinu verður stiklað á stóru um birtingarmyndir Emily Dickinson í íslenskum prentmiðlum, frá því að hennar er fyrst getið á síðum Morgunblaðsins árið 1924 og fram til okkar daga. Rætt verður með hvaða hætti líf Dickinson og list hefur ratað meðal annars inn í minningargreinar, lýsingar á íþróttakappleikjum og tíðindi úr íslensku viðskiptalífi, auk almennrar umfjöllunar um gildi verka hennar og hið sérviskulega lífshlaup sem bjó þeim að baki.
Árið 1942 kom íslensk ættaði listfræðingurinn Harvard H. Arnason hingað til lands á vegum stríðsupplýsingaskrifstofu Bandaríkjanna (Office of War Information). Arnason áttaði sig fljótt á því að listir voru gagnkvæmt áhugamál Íslendinga og Bandaríkjamanna og því hóf hann að flytja fyrirlestra um bandaríska myndlist víða um land og skrifa greinar um sama efni í dagblöð og tímarit. Árið 1944 réðst hann í metnaðarfyllsta verkefni sitt en þá stóð hann fyrir sýningu á amerískri málaralist í Listamannaskálanum. Þar gaf m.a. að líta 30 vatnslitamyndir eftir bandaríska samtímamálara sem flestar voru fengnar að láni frá Whitney Museum of American Art. Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á menningarstarf Arnasonar á Íslandi á tímum seinni heimstyrjaldarinnar og það sett í samhengi við orðræðu kalda menningarstríðsins sem fylgdi í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar.

9. mars kl. 15.00-16.30

Í fyrirlestrinum verður athygli beint að tveimur bandarískum myndasögum frá árum síðari heimsstyrjaldar þar sem norrænir guðir eru meðal persóna. Eldri sagan, „The Villain from Valhalla“, birtist í tímaritinu /Adventure Comic/s #75 sumarið 1942 en hana samdi hinn þekkti teiknari Jack Kirby í félagi við Joe Simon. Hér eiga ofurhetjurnar Sandman og Sandy í höggi við flokk víkinga, undir forystu þrumuguðsins Þórs, sem gera strandhögg í New York. Yngri sagan, sem er einnig sögð vera þá Kirby og Simon, nefnist „The Shadow of Valhalla“ en hún birtist í tímaritinu /Boy Commandos/ #7 sumarið 1944. Báðir höfðu þeir félagar verið kvaddir í bandaríska herinn þegar sagan birtist og er talið líklegt að Don Cameron  og Louis Cazeneuve séu eiginlegir höfundar. Sögusvið „The Shadow of Valhalla“ er Noregur undir þýskum yfirráðum; drengjaflokknum sem tímaritið dregur nafn sitt af er falið að leita að vopnum í gömlum kastala. Í ljós kemur að byggingin er sjálf Valhöll og er hún hernumin af hópi nasista. Báðar sögurnar verða settar í samband við víðtæka gagnrýni bandarískra myndasagnahöfunda, ekki síst höfunda af gyðingaættum, i garð Hitlers og Þriðja ríkisins.
Á sjötta áratug 20. aldar fór víða um heim fram lífleg umræða um hasarblöð, eins og þau voru kölluð á íslensku; æsilegar teiknimyndasögur um baráttu góðra manna við glæpamenn og óþjóðalýð. Sérstaklega vöktu vinsældir slíkra blaða meðal yngri lesenda mörgum ugg. Hasarblöðin voru talin ógna velferð barna og unglinga og stuðla jafnvel að því að þau leiddust út á glæpabrautina.

Hasarblaðaógnin var einnig rædd á Íslandi. Íslendingar tóku þátt í norrænu samstarfi um aðgerðir gegn hasarblöðum og ný prentlög sem sett voru hér á landi árið 1956 spruttu ekki síst af áhyggjum af útbreiðslu þeirra. Að sumu leyti má líta á umræðuna um hasarblöðin sem anga af menningarátökum eftirstríðsáranna, þar sem íslenskri þjóðmenningu var iðulega talin stafa ógn af bandarískri fjöldamenningu. Fræðimenn hafa jafnframt sett hasarblaðaumræðuna á Norðurlöndunum í samhengi við þróun norræna velferðarkerfisins, sem bandarísk einstaklingshyggja myndasagnanna hafi verið talin í hrópandi mótsögn við. Sjálf umræðan um skaðsemi hasarblaðanna var hins vegar einnig undir áhrifum frá bandarískum uppeldisfræðingum og geðlæknum, svo sem Fredric Wertham sem var í fararbroddi baráttunnar gegn hasarblöðum í Bandaríkjunum.

Í erindinu verður fjallað um umræðuna um hasarblaðaógnina á Íslandi og hún sett í alþjóðleg og þverþjóðlegt samhengi.

Í ýmsum skáldverkum eftir Elías Mar frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar koma fyrir ungir menn sem laðast að öðrum karlmönnum. Hrifningin er ekki alltaf augljóslega kynferðisleg en oft er áberandi hversu sterk og tilfinningarík hún er, ekki síst í samanburði við kenndir ungu mannanna til kvenna. Meðal þeirra karla og karlímynda sem heilla þá eru bandarískir hermenn og kvikmyndastjörnur, svo og Íslendingar sem minna á þá fyrrnefndu í útliti eða fasi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hið hómóerótíska aðdráttarafl sem bandarísk karlmennska hefur í verkum Elíasar og það sett í samhengi við kvikmyndamenningu á Íslandi en einnig kenningar fræðimanna um hinsegin kynverund í Hollywood-kvikmyndum og hinsegin áhorfendur.

Deila færslunni