Bókaþjóðin

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Þann 7. desember síðastliðinn ályktaði stjórn Rithöfundasambands Íslands um blikur á lofti vegna frétta úr prentsmiðjum landsins og viðhafði dramatísk lokaorð: „Það er vafamál hvort þjóð sem hættir að prenta sínar eigin bækur geti með réttu kallað sig bókaþjóð“ (sjá
rsi.is/2017/12/07/alyktun). Þetta síðasta orð er mikið notað í opinberri umræðu, til dæmis í tilefni af árlegu jólabókaflóði, en hvað merkir það? Vísar það til lesturs bóka eða útgáfu á bókum eða er hvort tveggja undir? Er það í öllum tilvikum jákvætt eða hefur notkun þess sætt gagnrýni? Hver er líka saga þess? Elsta tilvik sem finnst við leit á vefslóðinni timarit.is er í ritdómi um ljóðmæli Guðmundar Guðmundssonar í Fjallkonunni 19. október 1900; þar skrifaði Bjarni frá Vogi: „Íslendingar hafa lengi verið brauðlaus bókaþjóð, en þótt bóksalar kvarti nú sáran, get ég ekki trúað því, að hún ætli nú að gerast bóklaus matarþjóð“ (bls. 2). Annað gamalt dæmi gefur að líta í Ísafold 21. nóvember 1906, þar sem haft er eftir norskum presti sem fór um landið um sumarið að Íslendingar séu „mikil bókaþjóð“ (bls. 306). Hér birtast tveir meginþættir í opinberri sjálfsmynd sem vísast eru enn við lýði; annars vegar hugmyndin um hámenningu frá örófi og hins vegar hrós frá útlendingum. Vafalaust má greina fleiri þætti í þessu eina orði og markmið málstofunnar er að efna til fræðilegrar greiningar á hugtakinu og hefja gagnrýna umræðu um merkingarsvið þess og beitingu. Er eitthvað til í því og hvað felur það þá í sér?

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Már Jónsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-16.30

Í ritdómi 19. október 1900 skrifaði Bjarni Jónsson frá Vogi: „Íslendingar hafa lengi verið brauðlaus bókaþjóð, en þótt bóksalar kvarti nú sáran, get ég ekki trúað því, að hún ætli nú að gerast bóklaus matarþjóð.“ Hann var þá nýorðinn 37 ára og greinilega á báðum áttum um framtíð bóklesturs í landinu, þó fremur bjartsýnn en bölsýnn. En hvað átti hann við með hugmyndinni um brauðlausa bókaþjóð? Leit hann svo á að Íslendingar hefðu forðum verið fátækir en menntaðir? Hvað höfðu þeir að hans mati lesið? Voru blikur á lofti? Í hverju fólst hið yfirvofandi bókleysi? Lásu Íslendingar minna en áður? Var smekkur þeirra á niðurleið? Í erindinu verða umræður þessara ára reifaðar lauslega en mestu rými varið í niðurstöður eins konar markaðskönnunar á lestrarefni á Vesturlandi og Vestfjörðum frá því um 1840 til aldamótanna 1900 og stuðst við tiltækar skrár yfir eftirlátnar eigur fólks. Í þessari atrennu verður könnuð bókaeign nokkur hundruð kvenna og karla sem létust ólofaðir á aldrinum 15–25 ára.

Í rannsókninni Íslenska sem námsgrein og kennslutunga sem unnin var á árunum 2015-17 af kennurum við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri var aflað gagna í tíu grunnskólum og fimm framhaldsskólum. Meðal þeirra eru viðtöl við nemendahópa í 9. bekk grunnskóla og í framhaldsskóla þar sem spurt er um reynslu þeirra af íslenskukennslu og viðhorf þeirra til íslensks máls og bókmennta.

Í fyrirlestrinum verður rýnt í þessi viðtöl, einkum spurningar sem lúta að skilningi nemenda á bókmenntahugtakinu og viðhorfa þeirra til bókmennta og bóklesturs. Í viðtölunum birtast fjölbreytt viðhorf og nokkuð bil í þekkingu nemenda og áhuga á bókmenntum og bóklestri. Einnig verður fjallað um reynslu nemendanna af bókmenntakennslu og tengslin á milli bókmenntakennslu og bókmenntavals í grunn- og framhaldsskólum annars vegar og áhugahvatar nemenda hins vegar.

Hvað þýðir það að vera rithöfundur og þýðandi hjá „bókaþjóðinni“? Hvaða siðum og reglum hefur bókaþjóðin komið sér upp sem höfundar þurfa að semja sig að? Hvernig orkar jólabókaflóðið á höfunda? Er það til góðs eða ills fyrir íslenskar bókmenntir að bækur skuli vera gjafavara öðru fremur? Hvaða sögn felst í því þegar útgefandi ákveður að gefa út bók eftir tiltekinn höfund að vori frekar en að hausti? Og hvað með stöðu þýðinga? Hvað segir bókaþjóðin við ungan þýðanda? Er nokkur þörf að þýða þegar flestir geta lesið ensku? Hvers vegna ætti metnaðurfullur rithöfundur að skrifa á íslensku? Vill þjóðin lesa á íslensku? Hvað segir bókaþjóðin við þá sem ekki skrifa glæpasögur? Og hvað með minnkandi umfjöllun um bókmenntir almennt? Erum við ennþá raunveruleg bókaþjóð? Þessum og álíka spurningum hyggst fyrirlesari velta upp í innslagi sínu sem verður í fimbulfambsformi.

Deila færslunni