Bókmenntir og vistrýni

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Notkun og misnotkun manna á gæðum náttúrunnar ógnar nú lífríki jarðar svo um munar. Vitundin um þessa vá fer víðast hvar vaxandi og hefur sett mark sitt á hugvísindi líkt og aðrar greinar vísinda. Svokölluð vistrýni (e. eco-criticism, environmental criticism) – rannsóknaraðferð sem tekur mið af náttúruheimspeki – hefur eflst mjög á undanförnum árum þótt upphaf hennar megi rekja langt aftur í tímann. Í málstofunni verða fluttir fyrirlestrar sem taka mið af vistrýni við greiningu á íslenskum og erlendum bókmenntum.

Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarkona hjá Rás 1, kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Soffía Auður Birgisdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Fjallað verður um náttúrusýn Virginiu Woolf eins og hún birtist í skáldsögu hennar Orlandó – ævisaga sem kom út í íslenskri þýðingu síðastliðið haust. Skrif bandaríska náttúru­heimspekingsins Henry David Thoreau höfðu mikil áhrif á Virginiu Woolf en síðastliðið haust kom einnig út íslensk þýðing á verki Thoreau Walden – eða lífið í skóginum sem talið er lykilverk á sviði náttúruverndar og vistrýni. Í fyrirlestrinum verða hugmyndir persónunnar Orlandó raktar saman við heimspeki Thoreau og skrif Virginiu Woolf um Thoreau kynnt.

Gagnrýnar ólandssögur (e. critical dystopia) eru ný en vaxandi bókmenntagrein hér á landi. Bókmenntir af þessu tagi fela í sér ádeilu á ríkjandi samfélagsgerð og segja gjarnan sögu undirmáls- og jaðarhópa. Í LoveStar Andra Snæs Magnasonar koma saman ýmsir hópar af þessu tagi, en sterkasta undirsaga bókarinnar er þó saga náttúrunnar. Fjallað verður um samband manns og náttúru í myrkri vistrýni bókarinnar.

Kenningar um að barnið standi nær náttúrunni en hinn fullorðni sökum sakleysis síns eiga upptök sín í lok 18.aldar og lifa góðu lífi enn í dag. Fjallað verður um þann heimsendi sem vofir yfir í ungmennabókum Hildar Knútsdóttur Vetrarfrí og Vetrarhörkur. Þar falla mörk fullorðinna og barna, náttúru og menningar, manna og manngervinga og vá er fyrir dyrum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningar um vistrýni og manngervinga meðal vor.

Deila færslunni