Sem kunnugt er var sú kristni sem Íslendingar viðtóku árið þúsund gamall menningararfur frá Miðjarðarhafi. Helgiathafnir þessa forna siðar fóru fram á latínu, ritmáli Vestrómverska ríkisins, sem leið undir lok á ofanverðri fimmtu öld. Lítið var gert til þess að laga Rómakristni að íslenskum aðstæðum enda kirkjunni ávallt stýrt sunnan úr álfu. Þess í stað tóku hérlendir menn snemma að tileinka sér söng, tónlist og bókagerð Ítala, sungu saltara, námu latínuletur og skrifuðu upp helgar bækur. Sumir þeirra urðu raunar svo ágætir í bókmáli að ný rit á latínu litu dagsins ljós aðallega um innlend efni. Kunnátta Íslendinga í suðrænum bóklistum nýttist þeim jafnframt til að þýða bóksögur á þjóðtunguna og semja nýjar sögur og kvæði sem eftir er tekið. En siðskiptatíminn lék latnesku skinnbækurnar grátt, hefur nánast máð þær af yfirborði jarðar. Á ofanverðri sautjándu öld þegar handritasöfnun Árna Magnússonar stóð sem hæst voru ekki nema fáein skinnbókarbrot eftir. Í málstofunni verða einhver slík tínd upp úr glatkistunum en fornbréf höfð til vitnis um allt hitt sem er horfið.
Hugvísindaþing 11.-12. mars 2022
Hvar
Stofa 202 í Odda
Hvenær
12. mars kl. 15.00-16.30
Málstofustjóri:
Gottskálk Jensson
Fyrirlesarar og titlar erinda
12. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 202 í Odda