Eldgos – Þjóðremba – Náttúra – Bölmóður: Ættjarðarljóð frá ýmsum tímum

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Á málstofunni fjalla bókmenntafræðingar, sagnfræðingur og menningarfræðingur um ættjarðarljóð allt frá 17. öld til nútímans. Eiga landlýsingarkvæði barokktímans eitthvað sameiginlegt með ættjarðarljóðum rómantísku skáldanna á 19. öld? Breytist hin ógnvekjandi náttúra 17. aldar í upphafna náttúrudýrkun? Hvernig birtist náttúruskynjun manna í kvæðum á ólíkum tímaskeiðum? Hvernig túlka skáldin þjóðernisrómantík á 19. öld og þjóðfrelsisást um miðja 20. öld?

Málstofan er haldin á vegum Óðfræðifélagsins Boðnar.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Þórunn Sigurðardóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Fjallað verður um viðhorf til landsins og náttúrunnar í kvæðum sem ort voru áður en bókmenntagreinin ættjarðarljóð kom til sögunnar. Heimsmynd þessara kvæða er önnur en sú sem lá að baki ættjarðarljóðunum en þau byggja þó á þeirri hugmynd að það sé samspil og samhengi milli hegðunar náttúrunnar og mannanna. Meðal annars verður fjallað um kvæði sr. Einars Sigurðssonar í Eydölum (1538–1626) Vísnaflokkur um Íslands gæði sem kallað hefur verið fyrsta ættjarðarkvæðið og sýnt fram á að það tilheyrir í raun annarri bókmenntagrein.

„Hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin bezt“, spyr Jónas Hallgrímsson í fyrsta kvæði sínu sem birtist á prenti, „Ísland“ (1835). Þetta var lykilspurning í umræðum um stöðu Íslands á 18. og 19. öld, þar sem horfin gullöld var borin saman við eymd og kyrrstöðu samtímans. Jónas svarar spurningunni ekki beinlínis, en neitar því eindregið að kenna megi íslenskri náttúru um það að „feðranna frægð“ væri „fallin í gleymsku og dá“. Hér verður lesið í boðskap kvæðisins og það sett í samhengi við breytta pólitíska vitund á Íslandi á tímum rómantískrar þjóðernisstefnu.

Rætt verður um nokkur hetjukvæði frá tímabili íslenskrar þjóðbyggingar, flest um hetjur fornsagna. Hvers vegna töldu skáldin að þær hetjur ættu erindi við samtímann og framtíðina og hvers konar fyrirmyndir héldu þjóðskáldin okkar að Egill Skalla-Grímsson og hans líkar gætu orðið í nýju og blómstrandi íslensku þjóðríki? Fyrirmyndir fótboltagarpa í Garðaríki eða viðskiptajöfra sem auðgast á utanferðum? Voru skáldin fyrst og fremst á höttunum eftir „andlegu valdi“ eins og prestar? Eru rómantískar hugmyndir um íslenska skapgerð og menningu ef til vill nær okkur í tíma og rúmi en við viljum vera láta? Belgísk- ameríski bókmenntafræðingurinn Paul de Man lét að því liggja á sínum tíma að við nútímamenn hefðum misst sjónar á því hve virk áhrif rómantísku stefnunnar eru á „nútíma“-hugsun. Þegar Grímur Thomsen skrifaði og gaf út á dönsku tvær bækur með völdum hetjusögum úr íslenskum miðaldabókmenntum (Udvalgte Sagastykker) var hann í reynd að fjalla um samtíma sinn. Merkir fræðimenn telja rannsóknir nú staddar á öðrum slóðum en er það víst? Litið verður á bók Ármanns Jakobssonar um Íslendingaþætti í því samhengi.

10. mars kl. 15.00-16.30

Eldfjöll og eldgos eru ekki meðal algengustu yrkisefna í ættjarðarljóðum en koma stundum fyrir í upptalningu þess sem mótar þjóðina ásamt ísnum, kuldanum, stormum og fleiru sem gerir Ísland að harðbýlu landi. Bjarni Guðnason skrifaði í vel þekktri grein frá 1969 um áhrifin af loftslagskenningu Montesquieu á ljóðagerð Bjarna Thorarensen. Eins og ýmsir hafa bent á er ekki víst að Bjarni hafi haft bein kynni af kenningum hins franska heimspekings, heldur hafi hugmyndir um þjóðir og mótun þeirra, meðal annars af loftslaginu, legið í loftinu á þeim tíma þegar rómantíska stefnan var að breiðast út. Var þá gjarnan litið til legu landa og ólíkra áhrifa hita í suðrænum löndum og kuldans í norðrinu. Hjá Bjarna kemur jarðhitinn inn sem ný breyta í ljóðinu Ísland, landið verður „Undarlegt sambland af frosti og funa“ þar sem frostið herðir og eldurinn kennir fjör. Í þessu erindi verður litið til fleiri skálda og fjallað um hvaða hugmyndir höfundar ættjarðarljóða á 19. öld höfðu um áhrif landsins á mótun þjóðarinnar með sérstöku tilliti til hvernig eldvirknin kemur inn í myndina.

Þorsteinn Valdimarsson (1918–1977) var fæddur á fullveldisárinu. Fyrsta ljóðabók hans, Villta vor, kom út árið 1942. Þorsteinn fór sínar eigin leiðir í skáldskap sínum, tileinkaði sér ýmislegt úr stefnum og straumum í ljóðlist samtímans en sagði aldrei skilið við rómantísk viðhorf og viðfangsefni sem honum voru í blóð borin úr uppvextinum. Eins og fleiri vinstrisinnuðum skáldum eftirstríðsáranna var honum heimsfriðurinn og þjóðfrelsið hugleikið og hersetan þyrnir í augum og þess bera mörg ljóða hans vitni. Náttúran leikur stórt hlutverk í allri ljóðagerð Þorsteins og er miðlæg í þjóðfrelsisljóðunum sem einkum verða til umfjöllunar í fyrirlestrinum.  

Deila færslunni