e-Translation-TermBank – samevrópskt verkefni til að auka hraða og áreiðanleika þýðinga

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Síðastliðið haust hófst Evrópuverkefnið eTranslationTermBank (eTTB) sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tekur þátt í af hálfu Íslands. Alls taka átta þjóðir þátt í verkefninu, þ.e. Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Austurríki, Slóvenía, Eistland, Litháen og Lettland sem fer með verkefnisstjórn, en verkefnið nær þó til allra opinberra tungumála Evrópusambandsins auk norsku og íslensku.

Í málstofunni verður greint verður frá þessu samevrópska verkefni sem hefur það markmið að safna og koma upp íðorðamálgögnum (e. terminological resources) sem eiga að nýtast við þróun sjálfvirkra þýðinga í þeim tilgangi að bæta aðgengi að þjónustu milli tungumála og málsvæða. Í verkefninu er lögð áhersla á þrjú svið: heilbrigðismál, fjármál og neytendavernd. Verkefnið er mikilvægur þáttur í því að auðvelda aðgengi almennings að stjórnsýslu á þessum sviðum og jafnframt er það í samræmi við íslenska málstefnu um stuðning við uppbyggingu og þróun íslenskrar máltækni.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 204 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Ágústa Þorbergsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

eTranslationTermBank er samstarfsverkefni átta þjóða sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tekur þátt í fyrir hönd Íslands. Verkefnið hófst 1. september 2017 og skal lokið 28. febrúar 2019. Verkefnið er styrkt af áætlun Evrópusambandsins sem kallast Connecting Europe Facility (CEF). Eins og nafnið bendir til snýst áætlunin um að tengja saman Evrópu og skiptist hún í þrjú svið: CEF Energy, CEF Transport og CEF Telecom.

Verkefnið eTranslationTermBank er innan CEF Telecom og snýst um að auðvelda samskipti milli almennings og opinberra aðila með því að byggja upp stafræna innviði (CEF Digital Infrastructures) og eru vélrænar þýðingar (eTranslation) einn af þeim þáttum sem unnið er að. Í verkefninu er lögð áhersla á þrjú svið:

  • heilbrigðismáltil að styðja við rafræna heilbrigðisþjónustu (eHealth);
  • fjármál til að styðja við rafrænt réttarkerfi (eJustice);
  • neytendamál til að styðja við „ODR“ (Online Dispute Resolution) sem snýst um að leysa deilumál með rafrænni málmeðferð á netinu milli neytenda og söluaðila.
Framkvæmd verkefnisins felur í sér söfnun ýmissa tegunda málgagna, s.s. orðalista, íðorðasafna, samhliða málheilda og að hlaða þeim upp í þar til gerðan gagnagrunn á vegum eTTB-verkefnisins. Gögnin geta verið einmála, tvímála eða margmála og er þeim safnað á þremur tilteknum sviðum, þ.e. um heilbrigðismál, fjármál og neytendamál. Haft hefur verið samband við sem flesta aðila sem hafa tekið saman slík gögn eða eru að vinna að gerð slíkra málgagna. Einnig er nauðsynlegt að afla tilskilinna heimilda vegna höfundarréttar og því hefur verið send beiðni til eigenda eða handhafa þeirra til að fá leyfi til notkunar málgagnanna. Tungumálin, sem unnið er með hér á landi, eru íslenska, enska, norska og hollenska en í heildina er safnað öllum málum Evrópusambandsins, auk íslensku og norsku, til að setja í heildargagnasafn. Slíkt uppflettisafn mun koma jafnt almenningi sem sérfræðingum til góða.

Deila færslunni