Femínískar byltingar: Berskjöldun, þekkingar-réttlæti og vald

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Femínískar byltingar hafa gengið eins og stormur um hinn vestræna heim á síðustu misserum. Á Íslandi voru Beauty Tips og #Freethenipple atkvæðamiklar árið 2015 og #MeToo hefur varla farið framhjá nokkurri manneskju. Í þessari málstofu verður skoðað hvernig þessar byltingar eru að breyta ráðandi mannskilningi sem og „almennri skynsemi“ í samfélögum. Ekki bara hvað varðar kynjasamskipti heldur einnig hvernig varpað er fram grundvallarspurningum um það hver fær að tala og tjá sig, á hvaða manneskjur er hlustað (og hvernig) og síðast en ekki síst hvernig erfiðar tilfinningar á borð við skömm eru notaðar til þess að „ákveðnar manngerðir“ haldi sig á mottunni og krefjist ekki breytinga. Í málstofunni verða kynntar rannsóknir í samtímaheimspeki á nýjum mannskilningi berskjöldunar, samspili fyrirbærafræði og femínisma og hvernig að réttlæti gangi ekki síst út á að viðurkenna ólíkar gerðir þekkingar. Auk þess verður skoðað hvert framtíðin getur farið með okkur eftir #metoo-byltinguna.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 102 í Gimli
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri: Nanna Hlín Halldórsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-16.30

Síðustu ár hefur hugmyndin um berskjöldun (e. vulnerability) átt miklu brautargengi að fanga og hafa verk heimspekingsins Judith Butler vakið eftirtekt í því samhengi. Í þessum fyrirlestri greini ég hugmyndir Butlers sem tengsla-verufræði berskjöldunar (e. relational ontology of vulnerability) og skoða þennan nýja mannskilning sem viðbrögð við einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar og sem ákalli eftir breyttri samfélgsgerð þar sem hægt er að birtast í berskjöldun sinni, lifa með henni og styðja aðra til slíks hins sama.

En af hverju er þetta ekki að gerast? Af hverju er svona erfitt að birtast öðrum í berskjöldun sinni og gangast við því að við upplifum okkur svo? Huga ber að hinum félagslegu og sögulegu aðstæðum vestrænna landa til þess að umbreyta hinni ráðandi verufræði frjálshyggjunnar í átt að verufræði berskjöldunar. Ef þú þarft nauðsynlega á vinnu að halda þá berð þú ekki á borð berskjöldun á borð við krónísk veikindi í atvinnuviðtali og hættir á að fá ekki vinnuna. Þess vegna viðhelst hinn ráðandi mannskilningur nýfrjálshyggjunnar sem gerir fólki að birtast sem „hinn sterki einstaklingur“ til þess að öðlast lífsviðurværi í hinu kapítalíska vinnukerfi.

Möguleikar á tengsla-verufræði berskjöldunar og á breyttum mannskilningi eru þó fyrir hendi en ég tel þá vera að finna í hinum nýlegu femínísku byltingum, bæði í tilfinninga-byltingunum sem áttu sér á Íslandi 2015 og í hinni alþjóðlegu #metoo-byltingu.

Þegar allt fylltist af #MeToo-yfirlýsingum kvenna lýstu sumir karlar furðu sinni á því að svo virtist sem hreinlega allar konur hefðu orðið fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni, ef ekki ofbeldi. Mörgum konum þótti hins vegar ekki síður furðulegt að þetta kæmi körlunum í opna skjöldu. Áreitni á sér oft stað fyrir opnum tjöldum og hún verður eins og sjálfsagður hlutur af daglegu lífi okkar. Þess utan er kynferðisofbeldi, kynferðisleg áreitni og hin sífellda ógn sem konur upplifa afar algengt umfjöllunarefni meðal kvenna, t.d. í bókmenntum.

Þetta gefur til kynna að frásagnir kvenna af ofbeldi og áreitni hafi af mörgum ekki verið álitnar marktækar eða þá ekki nógu áhugaverðar til að þeim væri yfirleitt veitt athygli. Eins hafa margir ekki litið á áreitni sem hefur átt sér stað í viðurvist þeirra sem slíka. Þetta flokkast undir þekkingarlegt ranglæti, þar sem meðlimir jaðarhópa njóta ekki fulls trúverðugleika og virðingar og búa við þöggun á einhverju formi. Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig þessi þöggun kemur fram við hunsun hinna valdameiri og hvernig líta má á #MeToo-herferðina sem andóf gegn þekkingarlegu ranglæti.

Opinber umræða um kynferðislega áreitni hefur verið fyrirferðarmikil upp á síðkastið, en er síður en svo ný af nálinni. Þó má færa fyrir því rök að í umræðunni í kringum #MeToo hafi orðræðan tekið á sig annarskonar mynd heldur en hún hefur áður gert. Þar ber sérstaklega að nefna stærðagráðuna, fjöldann af einstökum sögum sem fram komu samtímis og ekki síst viðtökur fjölmiðla og samfélagsins í heild. Í þessum fyrirlestri ætla ég að sækja í verkfærakistu fyrirbærafræðingsins Edmund Husserls, sér í lagi hans síðari verk, þar sem hann fékkst við hugmyndir sínar um lífheiminn, samkennd og greiningu á því sem er eðlilegt og óeðlilegt. Þessar hugmyndir ætla ég að nota til að greina hvað er sem gerist þegar við trúum, eða trúum ekki, vitnisburði fólks. Tengsl vitnisburðar, það er að segja einstakra frásagna, og þess reynsluheims sem hann sprettur upp úr og hvernig beri að skilja ásakanir um að hinar og þessar upplifanir séu ekki raunverulegar. Hinn fyrirbærafræðilegi útgangspunktur verður sá að það sé ekki vitnisburðurinn sjálfur sem skiptir mestur máli, heldur skyn okkar á þeim raunveruleika sem aðrir lifa.

Deila færslunni