
Oft er talað um miðaldahandritin sem einn verðmætasta menningararf okkar Íslendinga. Það er þó ekki á allra færi að læra að lesa sjálf handritin því kennsla í lestri á miðaldaskrift er aðeins í boði á háskólastigi. Áhugasamir leikmenn geta skoðað stafrænar útgáfur handritanna á vefnum en lengra komast þeir ekki.
Í fyrirlestrinum verður sagt frá Handritalyklinum, meistaraverkefni í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Verkefnið er grunnur að gerð kennslumyndbanda um lestur á íslenskum miðaldahandritum þar sem hreyfimyndagerð og gagnvirkum kennsluaðferðum verður beitt til þess að gera þau aðlaðandi og aðgengileg fyrir leikmenn sem ekki hafa grunnþekkingu á efninu. Verkefnið var þróað með það í huga að hægt verði að bjóða almenningi upp á skemmtilega og áhugaverða kennslu í lestri á miðaldahandritum á netinu.
Fjóla K. Guðmundsdóttir er þjóðfræðingur með meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun. Hún starfar sem verkefnisstjóri við kynningarmál á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.