Hugur, taugar og hryllingur

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um bókmenntir, bæði innlendar og erlendar með hliðsjón af hugrænum fræðum. Hugur, taugar og hryllingur verða í fyrirrúmi og þar með afstaða skálda og rithöfunda til taugakerfisins en ekki síst ímyndunarafl og tilfinningar lesenda og viðbrögð þeirra við skálduðum heimum sem eru einatt allt annað en notalegir. Gerð verður grein fyrir eigindlegri rannsókn á sögu Vigdísar Grímsdóttur, Stúlkunni í skóginum, en meðal annarra höfunda/skálda sem ber á góma er Stephen King; Halldór Laxness, Friðgeir Einarsson og Hrafnhildur Þórhallsdóttir.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 204 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 15.00-16.30

Í erindinu verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum eigindlegrar
rannsóknar þar sem viðtökur við skáldsögunni Stúlkan í skóginum (1992)
eftir Vigdísi Grímsdóttur voru kannaðar og þá einkum tilfinningaviðbrögð
fólks og samlíðan. Í rannsókninni var tekið hópviðtal við þátttakendur þar
sem þeir komu saman og ræddu upplifun sína af bókinni. Meðal þess sem kom
í ljós var að sumir áttu erfitt með að stíga inn í heim skáldsögunnar á
meðan öðrum reyndist það áreynslulaust. Í fyrirlestrinum verður gerð
tilraun til að útskýra þessi ólíku viðbrögð með hliðsjón af hugrænum
fræðum.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um ýmsa ranghala og skúmaskot í huganum (og jafnvel öðrum kimum líkamans) þar sem draugar af ýmsum gerðum kunna að leynast. Rætt verður um líkamsstarfsemi sem kveikir óttaviðbrögð þegar við lesum eða horfum á hrylling. Tæpt verður á ennisblaði, skriðdýrsheila og taugum í tengslum við reimleika – með viðkomu í The Shining eftir Stephen King.

Í fyrirlestrinum verður rætt um hvernig taugar og taugafræði setja mark sitt á nútímabókmenntir, ljóð sögur og leikrit. Tekin verða dæmi af ólíkum bókmenntagreinum frá ólíkum tímum og rætt um mismunandi sýn á fyrirbæri eins og taugaveiklun og móðursýki en sérstaklega beint sjónum að því aðgengi sem menn hafa nú að upplýsingum miðað við ástandið fyrir fáeinum áratugum.

Deila færslunni