Hvernig grannar erum við? Ísland og Grænland frá miðöldum til samtímans

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni munu þrír fræðimenn fjalla um tengsl Íslendinga og norrænna manna við Inúíta og viðhorf til þeirra og Grænlands frá miðöldum og fram á 20. öld. Gerð verður grein fyrir af hverju tengslin einkenndust; þar koma við sögu hugtök eins og framandleiki, jaðar og miðja, nýlenduhyggja og samsemd. Í fyrsta erindinu mun Orri Vésteinsson ræða um viðhorf norrænna manna og Íslendinga til Inúíta á miðöldum og draga fram helstu heimildir í því samhengi. Í næsta erindi mun Sumarliði R. Ísleifsson gera grein fyrir fyrstu heimsókn Inúíta til Íslands árið 1925. Þar mun hann ræða um hefðbundin viðhorf til Grænlendinga hérlendis; einnig af hverju kynni hinna tveggja menningarheima einkenndust árið 1925 og hvernig þau þróuðust í kjölfarið. Loks mun Árni Hjartarson jarðfræðingur fjalla um nýútkomnar dagbækur Vigfúsar Grænlandsfara, sem birtast í bókinni Grænlandsfarinn, og greina þau viðhorf sem þar birtust til Grænlands og Grænlendinga og markmið þeirra sem stóðu að vísindaleiðöngum á Grænlandi á þessum tíma.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Sumarliði R. Ísleifsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 15.00-16.30

Þegar norrænir menn komu til Grænlands fundu þeir “keiplabrot og steinsmíði” sem sýndi að þar hafði fólk búið áður, en mannaferð hafði þá engin verið á Suður Grænlandi í margar aldir. Á 13. öld settust Inúítar frá Alaska að á Norður Grænlandi og komust fljótlega í samaband við norrænu byggðirnar sunnar á eyjunni. Ábyggilegar heimildir um samskipti þessa fólks eru rýrar en þess meira er um seinni tíma þjóðsögur, getgátur og kenningar. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir rituðum og fornleifafræðilegum heimildum um samkipti Inúíta og norrænna manna og fjallað um helstu kenningar um hversu mikil eða afdrifarík þau samskipti voru.

Árið 1925 kom hópur Grænlendinga til Ísafjarðar, alls um 90 manns. Tilefni heimsóknarinnar var að dönsk stjórnvöld höfðu ákveðið að stofna nýja „nýlendu“ í Scoresbysundi – Ittoqqortoormiit – á norð-austurströnd Grænlands og flytja þangað fólk sem kom aðallega frá Ammassalik. Erindið var að fá nýja staðarprestinn vígðan og sækja vetrarvistir. Þessi gestakoma vakti mikla athygli, bæði á Ísafirði og um land allt. Gestakoman var ljósmynduð og eru þær myndir varðveittar á Ljósmyndasafni Ísafjarðar. Í erindinu verður fjallað um þau viðhorf sem voru ráðandi til Grænlands á þessum tíma hérlendis. Af hverju einkenndust þau? Hvaða ímyndir birtust? Voru þessi viðhorf svipuð þeim sem voru ráðandi í Danmörku eða ólík? Báru þau keim af svipaðri nýlenduhyggju og þar eða fundu Íslendingar til samstöðu með grönnum sínum? Í erindinu verður heimsóknin sett í samhengi við nýlendustefnu þessa tíma þar sem átök og deilur Dana og Norðmanna um yfirráð yfir Austur-Grænlandi verða annars vegar í forgrunni en hins vegar hvernig samband Íslendinga og Dana hafði áhrif á viðhorf í þessu samhengi. Í erindinu verður því beitt aðferðum ímyndafræða og nýlendufræða og kannað hvernig má líta á viðtökurnar sem Grænlendingar fengu á Ísafirði í því ljósi.

Íslendingar létu ekki mikið að sér kveða í könnun norðurslóða á 19. og öndverðri 20. öld meðan kapphlaupið um heimsskautin stóð sem hæst. Raunar voru þeir furðu áhugalausir um þessi mál. Það var ekki fyrr en á síðasta áratug 20. aldar að íslenskir fjallamenn og göngugarpar lögðu leið sína yfir Grænlandsjökul og á heimsskautin. Ein undantekning er þó frá þessu en það eru ferðir Vigfúsar Sigurðssonar og Alfreðs Wegeners um Grænlandsjökul, fyrst um hann þveran árið 1912-13 og síðan fóru þeir aftur saman á jökulinn í hinum örlagaríka leiðangri árið 1930. Ferðarinnar 1912-13 er að furðu litlu getið í annálum 20. aldar og var um tíma að mestu fallin í gleymsku. Þó var hún ekki minna þrekvirki en ofantalin afrek íslenskra pólfara og fjallamanna og raunar miklu merkilegri í sögulegu og vísindalegu samhengi. Greint verður frá aðdraganda þessarar ferðar, ferðinni sjálfri, þeim rannsóknum sem gerðar voru og þýðingu hennar í vísindasögunni og síðast en ekki síst þætti og hlutverki Vigfúsar Sigurðssonar.

Deila færslunni