Íslenskt bókmenntakerfi í menningarsögulegu ljósi

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan samanstendur af erindum sem beina sjónum að ólíkum þáttum í íslenskum bókmenntakerfi frá upphafi 20. aldar til samtímans. Komið er inn á margvíslega þætti sem skipta máli við greiningu og kortlagningu íslensku bókmenntakerfi, jafnt sambandi þýðinga og frumsaminna verka, innlendra höfunda og aðfluttra, smærri og stærri forlaga, hlutverki hliðartexta (paratexta). Það sem erindin eiga sameiginlegt er að beina sjónum að viðfangsefninu frá víðu sjónarhorni menningarsögu og menningarfélagsfræði.

Benedikt Hjartarson prófessor kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.00-12.00

Málstofustjóri:
Benedikt Hjartarson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 10.00-12.00

Það vekur athygli, þegar flett er öllum þeim fjölda bóka sem skáldið og þýðandinn Jón Óskar sendi frá sér, hvað útgefendurnir eru margir og misjafnir. Ólíkt svo mörgum öðrum rithöfundum sem bindast við eitt eða tvö forlög alla sína tíð þá var Jón Óskar á stöðugu flökti á milli útgefenda. Í fyrirlestrinum verður leitast við skoða, kortleggja og skýra að nokkru þessa sérstæðu útgáfusögu með hliðsjón af stöðu höfundarins innan íslensks bókmenntakerfis.

Albert Daudistel var þekktur í Þýskalandi á þriðja áratugnum sem byltingarsinnað öreigaskáld og höfundur smásagna um líf flakkara og skipverja. Hann flúði undan nasismanum og kom til Íslands snemma árs 1938. Þann 20. mars 1938 birtist grein hans „Ísland í draumsýn og veruleika“ í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrirlesturinn mun fjalla um meginefni þessarar greinar og gera grein fyrir tengslum hennar við hefð „Literarisches Städtebild“ í þýskum dagblöðum. Einnig verður horft il ímyndar hins nútímalega evrópska blaðamanns í orðræðu þýsku útlegðarinnar, sem hún þjónaði sem andstæða við þjóðernissinnuð viðhorf nasismans. Daudistel heldur í þetta andstæðupar með því að bera saman „rangar“ Íslandsímyndir Þjóðverja og „rétta“ skoðun á íslenskum veruleika með hliðsjón af þróun borgarmenningar.

Eins og veirur í lífverum og tölvuveirur í tölvum reyna örforlög að breyta bókmenntakerfinu, valda truflunum og afbyggja það smám saman. En örforlögin, líkt og veirur af ýmsu tagi, eru háð kerfinu eða „hýslinum“ sem þau smita og geta ekki lifað af án þeirra. Þau geta einungis þrifist innan bókmenntakerfisins og nærast á því Örforlögin standa andspænis stórforlögum og þessi átök á milli jaðars og miðju knýja bókmenntakerfið áfram. Það mætti segja að örforlögin og stórforlögin séu í samlífi sem er annaðhvort öðrum eða báðum aðilum til gagns. Á hvaða hátt gagnast þetta samlífi örforlögum og á hvaða hátt stórforlögum? Hvernig er hægt að gera greinarmun á þeim? Hvernig mótar þetta samband bókmenntakerfið í samtímanum á Íslandi? Er íslenska bókmenntakerfið með nógu sterkt ónæmiskerfi til að lifa af hina nýju veiru í mynd æ fleiri örforlaga? Er leynilegt og forboðið ástarsamband á milli hýsilsins og veirunnar sem gæti orðið þeim báðum að bana? Eða mun þessi hættulega ást leiða til breytinga sem eru bókmenntakerfinu til góðs?

Tímabilið frá fullveldi til sjálfstæðis einkenndist af mikilli grósku á íslenskum menningarvettvangi, þegar glímt var við ólíka strauma alþjóðlegrar nútímamenningar. Þýðingar fagurbókmennta voru einn mikilvægasti fararskjóti slíkra strauma, en á árunum 1918-1944 komu út á Íslandi hátt í þúsund slíkar þýðingar. Í fyrirlestrinum verður rýnt í tölfræðilegar upplýsingar um útgáfu bókmenntaþýðinga og þær skoðaðar í ljósi þeirra hræringa sem eiga sér stað á tímabilinu, þegar lagður er grunnur að hugmyndum um íslenska nútímamenningu og menningarvettvangurinn er mjög opinn fyrir nýjum straumum úr hinu alþjóðlega umhverfi. Skoðað verður hvaðan þær bækur komu sem voru þýddar, hvaða bókmenntagreinum þær tilheyra og hvaða breytingar megi sjá á tímabilinu á farvegum bókmennta hingað til lands, auk þess sem einstök forvitnileg dæmi verða tekin fyrir.

Deila færslunni