Laxdæla saga og siðferðilegt uppeldi

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Laxdæla saga er víða notuð sem námsefni á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Undanfarin tvö ár hafa fyrirlesarar unnið að rannsókn á því hvernig hægt er að nýta samræðu um söguna til að bæta skilning unglinga á orðaforða og hugtökum sem lýsa dygðum og siðferðilegum veruleika. Rannsóknin er unnin í samvinnu við móðurmálskennara í þremur gunnskólum og í tengslum við hana hefur verið mótað kennsluefni um dygðir og siðferðileg hugtök til að nota með sögunni. Á málstofunni verður fjallað um reynslu sem þegar hefur fengist af notkun kennsluefnisins og álitamálum og úrlausnarefnum sem tengjast því að nota Laxdælu sem námsefni fyrir unglinga.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 102 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Atli Harðarson


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 15.00-17.00

Í verkefninu sem málstofan fjallar um er gerð tilraun til að efla siðferðilegt uppeldi í grunnskóla með því að kenna dygðir í tengslum við Laxdæla sögu. Í erindinu er greint frá því hvaða dygðir fundust í Laxdælu, hvaða dygðir var ákveðið að fjalla sérstaklega um í kennsluefninu sem var útbúið og hvernig má nálgast siðferðilega kennslu með því að fjalla um dygðir og lesti.

Í erindinu er sjónum beint að upplifun og reynslu íslenskukennara af því að kenna unglingum í 9. og 10. bekk í grunnskóla Íslendingasöguna Laxdælu með sérstakri áherslu á siðferðileg hugtök og siðferðilegar pælingar tengdar sögunni. Fjallað verður um upplifun kennara á viðtökum nemenda, kennsluaðferðir og nálganir og því hvað kennarar telja að geti stuðlað að árangursríkum aðferðum við siðferðilegt uppeldi. Einnig verður vikið að viðhorfi kennaranna til bókmenntalesturs, því að nota bókmenntakennslu sem vettvang fyrir siðferðilegt uppeldi og því velt upp hvort umræður um siðferðileg álitamál í bókmenntum geti opnað fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun.

Fornbókmenntir, eins og aðrar góðar bókmenntir, gefa tilefni til rökræðna um álitamál og eru því ágætlega til þess fallnar að þjálfa nemendur í gagnrýninni hugsun. En er ritverk eins og Laxdæla á einhvern hátt sérstaklega heppilegt til þessara hluta. Sé litið á kennslu í gagnrýninni hugsun sem kennslu í tiltekinni færni þarf aftur að spyrja: Í hverju er slík færni fólgin? Hún innifelur ákveðnar siðferðis- og vitsmunadygðir og þjálfun slíkra dygða fellur ágætlega innan þess sem kallað hefur verið mannkostamenntun (e. character education). Þær siðferðisdygðir sem skipta máli eru m.a. sanngirni, heiðarleiki og samhygð. Að skipta um skoðun krefst heiðarleika og hreinskilni gagnvart sjálfum sér og öðrum. Vitsmunadygðir eins og forvitni og hyggindi eða frónesis, gegna einnig lykilatriði. Til viðbótar þurfa nemendur verknaðardygðir (e performance virtues) eins og seiglu og þolinmæði. En hefur Laxdæla einhverja kosti umfram aðrar bókmenntir? Bókin er engin dægurfluga heldur hefur hún staðið af sér sveiflur í smekk og efnisvali. Mestu máli skiptir þó að sagan sjálf fjallar um málefni sem brenna á ungmennum: vináttu, trúmennsku, heiðarleika, sáttfýsi og samskipti. Hún fjallar líka um hatur, sviksemi, lygar og blekkingar, óheiðarleika, heift og hefnigirni. Fjarlægð sögusviðsins gerir að verkum að auðvelt reynist að ræða um siðferðileg álitamál í sögunni.

Laxdæla saga er víða notuð sem námsefni á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Undanfarin tvö ár hef ég unnið í félagi við þrjá aðra fræðimenn að rannsókn á því hvernig hægt er að nýta samræðu um söguna til að bæta skilning unglinga á orðaforða og hugtökum sem lýsa dygðum og siðferðilegum veruleika.

Laxdæla er fjölþætt. Í henni fléttast saman margir þræðir. Eitt af vandamálum kennara sem kynna hana fyrir unglingum er að einfalda söguna. Slík einföldun getur meðal falist í því að rekja meginþræði sem tengja mörg atvik. Til dæmis er einn slíkur þráður hvernig draumar Guðrúnar koma fram.

Erindið er rökstuðningur fyrir því að sagan um ógæfu Bolla Þorleikssonar sé meginþáttur í Laxdælu.

Eins og Kirsi T. Kanerva hefur bent á eru þeir sem drepa eigin fjölskyldumeðlimi kallaðir ógæfumenn í Gísla sögu og Njálu. Líkt og í Gísla sögu stafar ógæfan í Laxdælu af spilltu samfélagi og löstum annars fólks þar sem bæði móðir Bolla og amma voru oflátar. Verulegur hluti af atvikum sögunnar lýsir skilyrðum sem Bolla voru búin og dæmdu hann til ógæfu þótt hann væri sjálfur ekki illa innrættur.

Deila færslunni